sunnudagur, 8. desember 2013

108. Eins og blómi í eggi

Þið labbið kannski um og haldið að hænuegg sé það sama og hænuegg?
Hér eru sýnishorn af afurðum búsins í haust og tilefni þess að ég tók myndina er tröllaukna eggið á öðrum endanum. Ég var svo forvitin hvort það væri ef til vill þríblóma að ég mölvaði það (var reyndar að baka aldrei þesu vant) en nei, bara tvær rauður. Enda hef ég svosem aldrei heyrt getið um fleiri.
Á hinum endanum er svo örverpi en slík birtast alltaf öðru hverju.
Óvenju mikið var um að hænur vildu liggja á þetta sumarið svo að allnokkrir unglingar eru nýfarnir að verpa og þá er óhætt að segja að sum eggin eru ekki stór en það potast nú allt í rétta átt.


laugardagur, 7. desember 2013

107. Hross hjá oss

Ég klikkaði á að blogga að minnsta kosti mánaðarlega. Best að lofa engu vilji maður ekkert svíkja. Í nógu er að snúast, aðventutónleikar kirkjukórsins í gærkvöldi og þar var ég skikkuð í kaffinefnd sem er aldrei í sérstöku uppáhaldi hjá mér en eftir tónleikana er öllum boðið til kaffiveitinga sem jafnast fyllilega á við meðalfermingarveislu þar sem kórfélagar keppast við að toppa í Hnallþórum. Ca. 100 manns á öllum aldri komu í kaffið. Jarðarför í dag á Húsavík og ætli ég stefni ekki á að grufla eitthvað í jólagjafamálum um helgina. Það er bara þannig að mér hefur víst láðst að geta þess hér að í ágúst síðastliðnum hóf ég störf sem skólaliði í sameinuðum Þingeyjarskóla með aðalstarfsstöð í Hafralækjarskóladeild og eftir að ég var búin með mitt hálfs árs veikindafrí um miðjan júlí finnst mér að orkan sé ekkert nema í slöku meðallagi og lítið ( lesist: ekkert) gerist yfirleitt eftir lok hvers vinnudags.
Mér fellur vinnan prýðilega og gaman að vera innan um allt þetta fólk. Krakkana þekkti ég orðið bara suma síðan í leikskólanum forðum en í gærkvöldi heilsuðu mér öll börnin hlýlega og það er notalegt.
Talandi um hlýlegt: Á mínum rafræna útihitamæli stendur núna þetta: -21,1

Ég vil hafa myndablogg og hér eru nokkrar ríflega mánaðargamlar myndir. Það skal tekið fram að húðlitur barnsins hefur leiðréttst með aldrinum.

 Við spjölluðum saman um stund...
 ... og svo sagði hún afa meiningu sína.
Svona er þetta nú bara afi minn!

Ég hlakka ósköp til að hitta hana og væntanlega alla hina afkomendur mína um næstu helgi en þá stendur til að gefa upp hvað litla stúlkan mín heitir.

Hér kemur svo aðalkveikjan að þessari bloggfærslu. Skelfing fara flugurnar þarna í taugarnar á mér. Og svo er það auðvitað alltaf þannig að maður hefði gjarnan viljað taka aðeins til fyrir svona myndatökur en blessaðir mennirnir birtust bara svona óforvarendis og ég frétti það bara þegar ég kom heim úr vinnunni.

http://www.eidfaxi.is/frettir/99353/

laugardagur, 26. október 2013

106. Tíundi afkomandinn

Ég endaði síðasta blogg með því að segja stutt í stórviðburð. Á mánudag og þriðjudag átti ég frí í vinnunni og þóttist ætla að gera eitthvað af viti en eftir hádegið á mánudag hringdi Ingimundur og sagði að nú væru þau komin upp á fæðingardeild svo að ég pakkaði aftur í tösku og fór að þessu sinni í vesturátt. Alveg kjörið að nota frídagana til að vera með Ívani á meðan pabbi hans væri í þessu mikilvæga verkefni. Þetta gekk í rólegheitum svo að þau voru spurð hvort þau vildu ekki bara skreppa heim og hvíla sig en Marta aftók það. Sagði hinsvegar Ingimundi að drífa sig bara í skólann um kvöldið. Ívan var á opnu húsi í skólanum svo að ég sat hjá Mörtu á meðan. Það var indælt. Á fjórða tímanum um nóttina fékk ég svona sms: 03:33.
Ég hringdi umsvifalaust og spurði hvort hann ætti kannski litla stelpu? Ójú! Ekkert var þá farið að mæla eða vigta svo ég fékk eiginlega ekki aðra lýsingu en þá að hún væri fjólublá!! Þarafleiðandi hef ég ákveðið að kalla hana Fjólu þangað til búið er að gefa upp hennar rétta nafn. Nokkru síðar hringdi hann aftur og þá var komið í ljós að hún var 52 cm. og 15 merkur. Morguninn eftir bað Marta mig svo að koma því hún gat helst ekki beðið eftir að sýna mér dýrgripinn sinn (okkar). Ég féllst á það með semingi því ég vildi helst að hún hvíldi sig en hún fullyrti að hún þyrfti það ekkert meira í bili. Þegar ég kom svaf litla ljósið í fangi pabba síns með þetta grallarabros á andlitinu. 6 tíma gömul.
 Ég hef bara aldrei séð svona glaðlegt kornabarn fyrr.
 Pabbinn svaf líka.
 Seinna um daginn vorum við Ívan hjá þeim allan heimsóknartímann frá hálffimm til sex. Þarna er hún í fanginu á honum.
Langamma grandskoðar gripinn og var sammála mér um glaðlega andlitið.
Nú á ég 10 afkomendur. Þeir raðast þannig að ég á þrjá syni. Fyrstu barnabörnin fæddust í ágúst og október 1998 og þau síðustu í ágúst og október 2013. Fyrst var strákur, þá stelpa, svo tveir strákar og nú þrjár stelpur í röð. Hún Fjóla litla grallari er afkomandi mömmu númer 42.

105. Sigrún Heiða

Á föstudag fyrir viku byrjaði ég á að taka til í húsinu sem hafði ekki verið gert ansi lengi. Mér finnst svo vont að koma heim í fullt af drasli þegar ég er búin að vera í burtu. Harka það frekar af mér dagsdaglega. Eftir hádegið kom svo Ingimundur með Ívan og sneri síðan aftur heim til sinnar konu þar sem þau voru að bíða eftir að eignast dálítið telpukorn. Ívan lagði hinsvegar af stað með okkur gömlu hjónunum og stefan var tekin á Egilsstaði til að byrja með. Ég hrökk illa við þegar nokkuð var liðið á ferðina þegar ég áttaði mig á að ég hafði gleymt myndavélinni heima. Það kemur þó ekki alvarlega að sök þar sem  ég er búin að fá eitthvað á annað hundrað myndir frá Kjartani og Elsu, sem mágkona hennar tók á sunnudaginn.
Á Egilsstöðum vorum við í góðu yfirlæti nokkuð fram á næsta dag, ég fór til dæmis ásamt ömmustelpu og bróðurdóttur í Rauðakrossbúð staðarins og fann þar bunka af rennilásum með meiru, - blogga frekar um það á dótablogginu - og svo var lagt af stað upp að Eiríksstöðum á Jökuldal en þaðan er tengdadóttir mín. Nú kom sér vel að við vorum á okkar rúmgóða vetrarbíl þar sem við vorum orðin 11 saman á tveim bílum með fullt af  mat, sparifötum og öðru dóti. Á áfangastað lögðum við undir okkur eitt stykki hús og bráðlega bættust mamma, Fríða og Ívar í hópinn og þarna borðuðum við kvöldmat og létum fara vel um okkur.
Kjartan var eitthvað í matarstússi og Elsa í kökustússi og Fríða fór til kirkju að prófa hljóðfærið og unglingarnir þrír eltu hana í myrkrinu.
Svo rann upp stóri dagurinn; Linda Elín átti fimmtán ára afmæli þann 20. október og þann dag klukkan ellefu hélt hún systur sinni undir skírn í Eiríksstaðakirkju.
 Á fyrstu myndinni má glöggt sjá að allir höfðu eitthvað að iðja; prestur messar, systur horfast í augu, mamman er vatnsberi, pabbinn reynir að siða soninn (sem var mun þægari þegar hann var skírður þarna fyrir tæpum 3 árum), sonurinn kemur í veg fyrir það með róttækum ráðum, ég hamast við að fylgjast með því hvenær mál sé að kveikja á skírnarkertinu og hinn skírnarvotturinn, móðurafinn, íhugar hvernig þetta muni nú allt saman fara. Held ég.
 Mikið eru stelpurnar mínar fínar og fallegar. Sú stóra er í kjól sem hún keypti og breytti svolítið en sú litla í kjól sem ég saumaði þegar ég var nítján ára.
 Hér í lokin sést að kirkjan er ekki stór, þar eru 10 bekkir sem rúma hver um það bil 3 medium manneskjur eða fjórar grannar.
 Þarna náðist að taka alveg þokkalega mynd af fjölskyldunni ásamt öfum og ömmum og sú litla er ekki beint syfjuleg.
 Hér situr svo pabbinn og horfir stoltur á villibráðarborðið sem hann átti heiðurinn af utan hvað tengdamóðir hans bakaði sínar snilldar bollur. Já og maturinn var alveg ljómandi góður.
 Tæplega þriggja ára ömmuljósið mitt var ekki sérlega samvinnuþýtt þennan dag og aftók að taka meiri þátt í hópmyndatökum.
 Þessi stúlka var hins vegar til í hvað sem var.
Þegar mamma hennar sýndi mér höfuðskrautið sem hún hafði keypt, greip ég bút af kjólefninu og kryddaði svolítið blómið.
Nú var kominn tími til að hvíla sig eftir stóran dag og sjáið bara englavængina!

Eftir þetta allt saman var orðið mál að snúa heim á leið enda styttist í næsta stórviðburð.

miðvikudagur, 9. október 2013

104. Yndið mitt yngsta...

Þess er væntanlega ekki langt að bíða að hún Sigrún litla mín Heiða verði ekki lengur yngsta ömmubarnið svo að ég ætla að standa við að setja hér myndirnar sem ég tók þegar ég fór að hitta hana um miðjan ágúst. Verst hvað mér tókst illa upp með fókusinn en látum slag standa.
 Hér eru þær systur sultuslakar við sjónvarpsgláp. Stóri bróðir er þarna líka með snuðið sitt og Ívan frændi með heyrnartólin. Ég tuðaði eitthvað um það við stóru stelpuna mína að svarta snjáða naglalakkið væri ekki sérlega fínt en hún sagði að það væri einmitt svo flott. Barnið er ekki vant að skrökva að mér svo að ég verð víst bara að skipta um skoðun. Og þó.
 Nú eiga flest smábörn einhverskonar mjúka huggtusku eða traustklút eða hvað sem best er nú að kalla fyrirbærið. Kemur í stað uppáhaldsbangsanna sem tíðkuðust í mínu ungdæmi og er vissulega að mörgu leyti meðfærilegra og fer betur í þvotti. Þarna er ég að ota að henni tuskunni sem ég færði henni en hún virðist láta sér fátt um finnast.
 Þegar við vorum á ferðinni var Ormsteitið á lokasprettinum og ég notaði afmælisdaginn minn í að vera með svolítið af dóti á markaði. Þarna eru ömmubörnin að leysa mig af og stelpan setur sig svo vel í hlutverkið að hún setti upp gleraugu ömmu sinnar en lesturinn gekk víst ekkert betur við það. Merkilegt!
Kósýstund með fjölskyldunni. Læt þessa fylgja með þó að aðalnúmerið sé í felum. Afi er með fjarstýringuna, Lindalín með símann, Ívan í tölvunni, Jóhann Smári með söngbók eftir Stefán Jónsson og Kjartan með litlu stelpuna sína. Dalalífið sem ég var að lesa liggur svo á borðinu. Húsmóðirin á heimilinu sést hvergi enda vandséð hvar hún hefði átt að koma sér fyrir.

laugardagur, 7. september 2013

103. Höfðingi fallinn

Í dag var hann Naskur gamli felldur. Á þrítugasta aldursári.
Hann var búinn að þjóna vel og hans helsti kostur, að minnsta kosti á seinni hluta æfinnar, var hvað honum var vel treystandi fyrir börnum. Ófáir litlir afturendar hafa setið á honum spöl og spöl á eftir kindunum heim úr réttunum. Ég var þá alltaf á þönum að passa að allir fengju að prófa sem vildu. Sumum þótti stundum leiðin heldur stutt.
Hér er mynd sem tekin var á Hraunsréttardag fyrir nákvæmlega fimm árum - upp á dag!


Þeir eru flottir saman kallarnir hér uppi í Norðurhlíðarskógi.

mánudagur, 5. ágúst 2013

102. Sigrún Heiða er komin!

Hér er ég með stelpurnar mínar um síðustu jól.

Í fyrrakvöld áskotnaðist mér ein í viðbót þegar Sigrún Heiða Kjartansdóttir kom í heiminn eftir allnokkra bið.
Við höfum ekki hittst ennþá en þess verður ekki langt að bíða og þá koma myndir á bloggið hennar ömmu.

þriðjudagur, 23. júlí 2013

101. Þjóðhátíð

Það er líklega ekki seinna vænna að fara að koma inn þjóðhátíðarblogginu!
Eins og dyggir lesendur ættu að vita er það til siðs hjá okkur í Kaðlín að klæðast þjóðbúningum við afgreiðsluna 17. júní. Þetta fellur í góðan jarðveg hjá gestum okkar og er alltaf gaman.
Þennan tiltekna dag hafði ég einna mest gaman af þessum gesti sem sést hér og er að máta peysuna sem Gunna var að ganga frá. 
 Sú stutta lætur sér ekki bregða við að skella sér í íslensku ullina berhandleggjuð undir!
Úff ekki getur amma hennar það takk fyrir.
 Það var indælis veðurblíða svo að maður tyllti sér bara á dyra"helluna".
 Rétt að fækka aðeins fötum og fá lit á handleggina.
Sko, þetta gat ég!
Skömmu síðar stóð hún heilluð og horfði á bústna randaflugu sem flögraði allt í kring um hana, en sem betur fór fyrir þær báðar lét hún ekki ná sér.
Flotta ömmuljósið mitt.

laugardagur, 8. júní 2013

100. Já, hundrað!

 Já, svei mér þá ég fór í kvennahlaup!! Eða að minnsta kosti kvenna eitthvað. Ég var búin að hugsa það mikið að ég skyldi reyna en ég passaði að segja ekki neitt um það enda hefði ég ekki lagt í það fyrir ekki svo mörgum dögum. En í gær var ég alveg ákveðin, spurningin var bara með eða án hækju?
Hækjan var skilin eftir í bílnum og ég var bara með göngustafina mína en ég sá eftir að hafa ekki valið hækjuna. Samt, ég komst kílómetrann og ögn skemmtilegt að aldursforsetarnir, fæddar 1930 og 1937 voru svona að staldra við og hinkra eftir mér því þeim leiddist að vera að skilja mig eftir :).
Svo var frítt í sund og ávaxtahressing á bakkanum og frábært veður. Ég prófaði að synda og það gekk sæmilega en tók þó í og ég var rangskreið sem vonlegt er þegar ekki er hægt að beygja annan fótinn nema rétt í hófi, en þegar ég var búin að hita mig um stund í potti tók ég aðra hundrað metra og þá gekk mun betur. 
 Það er ekkert svo voðalega langt síðan skaflinn fór ofan af hvítasunnuliljunum mínum og ég hef ekki séð svona kríli fyrr, þetta eru einhverjir 10-15 cm.
Fjólan er líka að byrja að sjást. Ekki veit ég hvort nokkur muni sinna garðhirðingu þetta sumarið. Það verður bara að koma í ljós.

miðvikudagur, 5. júní 2013

99. Betri tíð.

Já, nú er vissulega betri tíð, um 20 stiga hiti dag eftir dag, en kannski væri það nú heppilegra minna og jafnara fyrst að jörð og vatn hendist af stað í þvílíku óðagoti að ekki ræðst neitt við neitt. 
Hjá mér persónulega sem slíkri (sagt í minningu föður míns) er líka mun betri tíð, heilsan batnar hratt og eg er farin að geta sitt af hverju. Ég er til dæmis farin að aka bíl svo að ég kemst í sjúkraþjálfun upp á eigin spýtur, ég er farin að vinna stund og stund í báðum vinnustofum, og nota ekkert hækjur heima og lítið úti. Ég þarf þó að hafa þær innan seilingar því ég þreytist fljótt ef vegalengdir eru verulegar eins og til dæmis í stórum verslunum (Byko, Húsasmiðjan og Glerártorg). 
Eftir að ég setti síðustu færslu var ég áfram nokkra daga fyrir sunnan og var í blöðruframleiðslu. 
 Ég hef ekki áður skartað svona pattaralegu fyrirbæri þessarar gerðar og þegar ég sendi bæklunarlækninum mynd af þessu upplýsti hann að svona hefði hann ekki séð á sínum starfsferli, "allavega ekki svona stórt" Ég svaraði honum að víst væri stundum gaman að skera sig úr fjöldanum en hvað þetta varðaði hefði ég alveg getað sætt mig við að vera bara eins og hinir. Ég hélt þegar þetta var að byrja að þetta væri ofnæmi undan litlu plástrunum en hann sagði að þetta gerðist stundum vegna þess að plástrarnir toguðu í húðina. Hann setti mig á ruddalegan lyfjakúr vegna sýkingarhættu og með það flaug ég heim í Aðaldalinn. Frábært að hafa beint flug þangað, ekki síst þar sem lendingar eru oftast miklu þægilegri en þegar flogið er ofan í Eyjafjörðinn. Það er plús fyrir flugveika.
Ég átti ekki að fara aftur af stað í þjálfun fyrr en allt væri gróið og er nú búin að fara í tvo tíma og nú verður tekið á því. Alveg er mannskepnan merkileg að láta sig hafa það að vera markvisst pínd og borga svo fyrir það í þokkabót! En með illu skal illt út reka eins og þar segir. Það er búið að búa til málshætti og orðtök um allt mögulegt til að fólk sé frekar tilbúið til að láta hvað sem er yfir sig ganga.
Verkir og bólga eru á undanhaldi og nú ætla ég að taka myndir alla þriðjudaga til samanburðar. Ég vel þriðjudaga vegna þess að aðgerðin var á þriðjudegi fyrir 4 vikum. Á þessari mynd er ég að rétta úr báðum fótum eins og mér er mögulegt og sjá má að annað hnéð vill ekki fara alveg niður að laki og er ívið þykkra en hitt. Allt er þó þokkalega gróið en ennþá er tilfinningin útvortis við ytra gatið eins og þegar tannlæknadeyfing er farin úr eftir átök. 
 Talsvert vantar á að hægt sé að rétta og beygja fótinn eins á að vera og göngulagið er ekki sérlega virðulegt, sérstaklega þegar ég þarf að vera meðvituð um hvert skref til að rétta vel á réttum stað í þjálfunarskyni. Stigaganga er líka eitthvað sem ekki gerist alveg af sjálfu sér. Hafið þið spáð í hvað hún er flókin ha? Tvisvar undanfarið hef ég hlaupið og mikið var það gaman, í seinna skiptið gat ég meir að segja valhoppað líka! Gamanið fór af í bæði skiptin þegar ég vaknaði.
Þetta fólk kom og gisti ásamt foreldrum nýlega og það er alltaf gaman. Þarna hjóla þau í spretti.
Nú er ég búin að sitja mun lengur en fóturinn vill, en ég skal reyna að láta ekki líða svona langt á milli næst, þakka öllum hlýjar kveðjur.
Innilega til hamingju með daginn yngsti sonur.

miðvikudagur, 8. maí 2013

98. Í fréttum er þetta helst...

Tímabært að fara að segja eitthvað hér, nóg hefur gerst. Ég tók sem sagt stefnuna suður á land undir lok síðasta mánaðar og var samferða litlu nöfnu minni en faðir hennar fór til að taka nokkur próf sem hann gerði með sóma eins og hann er vanur. Ég hins vegar fór á stefnumót við bæklunarlækni í Orkuhúsinu 30. apríl. Ekki var laust við að ég væri spennt og kvíðin enda búin að bíða þessa dags lengi. Ég hafði óskað mér þess heitt og innilega að hann vildi gera eitthvað fyrir mig annað en bara að líta á gripinn og segja nokkur orð og viti menn; mér varð að ósk minni. Hann sagði sem svo að líklega væri rétt að spegla hnéð, en þá eru gerð tvö göt og farið inn um annað með myndavél en verkfæri inn um hitt og svo er svissað á milli ef þannig fellur. Þetta fannst mér afar vel til fundið þar sem mér var orðið ljóst að ég fylgdi ekki venjulegum ferli í þessu frekar en sumu öðru. Þetta átti ekkert að vera svona mikill sársauki svona oft. Lækninum þótti líklegt að krossbandið væri í einhverju kuðli og - eða að örvefur væri að flækjast fyrir inni í hnénu og - eða að skemmd væri í liðpúða þó að slíkt hefði ekki sést í segulómuninni. Hann sagði að sitthvað gæti verið athugavert sem segulómun sýndi ekki.
Ég spurði ofurvarlega hversu fljótt myndi vera hægt að gera þetta, hvort það væri kannski möguleiki áður en ég færi aftur norður svona til að spara ferðina sem vægt orðað var óþægileg. Ég varð að halda mér til að takast ekki á loft þegar hann sagði að hann ætti að geta smeygt mér inn í aðgerðardag viku síðar sem var sem sagt í gær. Ég var skjálfhent þegar ég kvittaði undir hjá ritara og sveif síðan út (á hækjunum).
Við Róbert Stefán vorum svo upprifin að við ákváðum að gera áhlaup á fjármálaráðuneytið líka og töluðum þar við mann sem ég hef verið að skrifast á við og augliti til auglitis er miklu erfiðara að víkjast undan því að svara, þannig að þar náðum við líka fínum árangri.
Þessa viku sem leið á milli læknisverkanna hef ég bara að mestu haldið kyrru fyrir með góðu fólki utan hvað ég eyddi nokkrum klukkutímum í Kolaportinu um helgina með sonardóttur og bróðurdóttur og við nutum þess allar að dóla þar um án þess að einhver væri að reka á eftir okkur. Við fundum þar nokkrar öndvegis flíkur, harðfisk og söl með meiru og fengum okkur ís í hádegismat. Skelfing var nú samt gott að hvíla fótinn er heim kom.
Í gærmorgun fór ég svo fastandi í Orkuhúsið og var svæfð í fyllingu tímans. Það gekk fínt og ég vaknaði líka eins og ekkert væri og svo kom læknirinn og sagði mér til að byrja með að krossbandið hefði ekki verið alveg í sundur!!! Hann hreinsaði af því talsverðan örvef, snyrti líka og hreinsaði skemmdan liðpúða og taldi að þetta ætti að geta orðið þokkalegt. Ég spurði hann hvort ég gæti ekki gert ráð fyrir að komast til Svíþjóðar í júlí og hann sá ekkert því til fyrirstöðu. Ekki gott að segja hvenær ég verð vinnufær en ég er staðráðin í að vera bjartsýn. Líðanin var ekki sérlega góð í gærkvöldi þegar deyfingin dvínaði og ég svaf ekki vel en það er að skána. Er ekki viss hvenær ég legg í ferðalagið norður en það skiptir ekki öllu máli því eins og Agnar segir, ég geri hvort eð er ekkert að gagni!
Í morgun sendi ég svona póst:

Góðan dag.

Þrennt er það sem ég var að brjóta heilann um í nótt og mig langar að glöggva mig á:

Í fyrsta lagi er það krossbandið, hangir það á bláþráðum eða er það "bara" svolítið trosnað? Má vænta þess að það byggist upp og styrkist eða verður það tæpt alla tíð?

Í öðru lagi var ég að velta fyrir mér hvort nokkuð hefði verið að frétta af tognaða liðbandinu innanvert á hnénu eða var það utan sjónmáls í spegluninni? Ég held að þar sé ég mjög að koma til en bólgan er samt nokkur enn.

Eru ekki þokkalegar líkur á að ekki þurfi meira inngrip í hnéð en þjálfun muni bæta það sem bætt verður, eða?? 

Kveðja, Elín Kjartansdóttir.Sæl
Fremra krossabndið leit betur út en mig hafði grunað í upphafi, það hangir á meira en nokkrum þráðum, styrkist hvorki né veikist með árunum ef þú heldur þér á mottunni J Maður sér ekki liðbandið að innanverðu en greinilegar bólgur voru þar til staðar sem ég hreinsaði. Ég prófaði liðbandið þegar þú varst sofnuð og gat ekki fundið neinn óstöðugleika í því. Vonandi að framtíða inngrip þurfi ekki

Kv

Gauti


Halda mig á mottunni, jájá. Ætli það ekki bara. Svona lítur minn fagri fótleggur út núna. Einhver ókennilegur fótbolti sem ég veit ekki vel hvað ég á að gera með.

Bras að setja inn bloggfærslur í gömlu fartölvunni en ég held að það sé að takast.

mánudagur, 22. apríl 2013

97. Ömmubörn

Hún sonardóttir mín fór að labba 16. apríl. Í fyrradag fannst henni rétt að prófa aðferðina hennar ömmu:
Spurning um að stilla gripina.
Annað hvort eru hækjurnar of langar
eða stelpan of stutt.
Svo sést hér önnur manneskja sem er geysilega athafnasöm.
Hún bröltir og byltir sér, hjólar með fótunum og sveiflar höndunum.
Það verður stuð þegar sú manneskja mætir í verkin. Það verður nú samt ekki í þessum sauðburði. Á þessu ári koma tvær nýjar manneskjur í hópinn minn. Myndirnar hér að ofan eru af þeirri yngri.
Sauðburður er hafinn, komin 8 lömb og ein á tíma í dag, en um næstu helgi fer allt á fullt og þá verð ég hvergi nærri. Klukkan hálf tíu í gærkvöldi voru komnar 11 vikur og ég er ofurlítið skárri með hverri vikunni sem líður en það er óskaplega langt í land að ná fullri heilsu. Á laugardagskvöldið hittust í Eyjafirði nokkrir strákar sem útskrifuðust frá Hvanneyri vorið 1968. Margir höfðu makana með og þetta var bara reglulega skemmtilegt. Gaman að hlusta á þá lýsa uppátækjum og rifja upp sitt af hverju í sambandi við nám og félagslíf. Þetta voru ekki allt saman algerir englar heyrðist mér. (Og vissi reyndar fyrir)

þriðjudagur, 9. apríl 2013

96. Fatlafólin í fermingu

Á skírdag var afastrákur og nafni Agnars fermdur á Húsavík.
Þarna má glöggt sjá að afinn hefur orðið af með eina töluna á jakkanum sínum en það frétti ég ekki fyrr en síðar. Langsennilegast er að litla nafna mín hafi sparkað henni af þegar hann var að burðast með hana í fanginu.
Þegar ég var að velta fyrir mér hvernig ég ætti að pakka inn myndavélinni handa piltinum datt mér í hug að fara að leita að myndum sem teknar hafa verið af honum þegar hann hefur verið að hjálpa til í sveitinni og svo prentaði ég nokkrar slíkar út og pakkaði inn í þær. Þarna blasir hann til dæmis við með litlar hjólbörur fyrir talsvert mörgum árum.
Jóhann situr þarna við hlið föður síns en heldur sýnast mér bragðdaufar veitingarnar fyrir framan hann. Vonandi rættist úr því.
Elín Rut er þarna búin að ná annarri slaufunni af höfðinu.
Hér erum við fatlafólin komin heim í sveitina með stuðningsfulltrúana okkar.
Jóhann kominn á flug í myndlistinnni.

Annars er það helst að frétta af gangi mála, að eftir páska fékk ég að vita að tilvísunin mín í Orkuhúsið hefði komið fram og verið forgangsmerkt og ég mæti þar í viðtal við Gauta Laxdal 30. apríl. Þá verða rétt tæpir 3 mánuðir frá slysi. Þá kemur væntanlega í ljós hvað hægt er að gera í stöðunni og ég vona heitt og innilega að það verði eitthvað, og það fyrr en seinna. Enn er ég alveg bundin tveim hækjum og skána bæði hægt og seint. Ég er ekkert farin að geta af viti og til dæmis er bæði óþægilegt og stundum verulega vont að labba og sitja. Þá er fátt annað í stöðunni en að liggja eða sitja upp við dogg í rúminu með marga kodda undir fætinum og með  fartölvuna á maganum. Það gefur auga leið að takmarkað er hægt að vinna við þær aðstæður. Myndirnar eru í borðtölvunni þannig að ef ég ætla að blogga set ég þær inn þar og klára svo drögin í bælinu. Bókhaldið er líka í borðtölvunni en ég bara verð að fara að drusla því frá. Og þó miklu fyrr hefði verið. Eitt er þó það svið sem ég hef getað sinnt og það er prófarkalestur. Sjá http://profork.rafbokavefur.is
Þar hef ég bara staðið mig alveg þokkalega held ég og er búin að prófarkalesa um það bil 1600 síður sem er allmiklu meira en nokkur hinna ef frá er talinn forsprakkinn. Það hitti svo vel á að ég sá umfjöllun um þetta verkefni í Kastljósinu um það leyti sem mér var kippt út úr daglega lífinu og ég fór strax að skoða málið. Þetta er sjálfboðavinna sem snýst um að setja inn á vefinn til ókeypis almennra nota, bækur sem komnar eru úr höfundarrétti. Þetta getur bara verið nokkuð gaman, þessar gömlu bækur eru margar hverjar á alveg bráðskemmtilegri íslensku og gömlu stafsetningunni eigum við ekkert að breyta. Staðreyndavillum ekki heldur og ég átti til dæmis bágt með mig þegar sagt var í sögu eftir Einar gamla Ben: ...sagði ferðamaðurinn og skrúfaði stútinn af ferðapelanum...! Það getur verið alveg geysimikið sem þarf að laga samt og í einni bókinni taldist mér til að það væru á bilinu 75 til 100 villur á hverri síðu. Skönnunin á oft í basli með íslensku stafina og þegar síðan er auk þess bæði gömul og snjáð fer sitthvað úrskeiðis.
Í eldri færslu sé ég að ég hef skrifað að tími frá vinnu verði ekki undir 2 mánuðum! Fyndið Þvuhh.

laugardagur, 23. mars 2013

95. Hálsfesti eða

Fann þennan kjól hjá Rauða krossinum á Akureyri í fyrra. Hann er afskaplega þægilegur, má fara með hann eins og manni sýnist þar sem hann krumpast ekki, hann fer vel og síðast en ekki síst; hann grennir. Að minnsta kosti hefur það komið fyrir oftar en einu sinni að fólk horfir á mig með áhyggjusvip þegar ég er í honum, og spyr hvort ég sé að leggja af? Persónulega finnst mér það ekki mikið áhyggjuefni og reyndar er ég að leggja af, en ég er aldrei spurð um það í hinum fötunum mínum.
Þegar ég fór í hann fyrir þorrablótið okkar í febrúar fann ég ekki hálsfesti sem ég var ánægð með þar sem hálsmálið er aðeins hærra en passar fyrir festarnar sem ég gerði HÉR en ég vildi eitthvað rautt. Nú jæja. Þegar mér var svo boðið á síðbúna blótið fór ég að hugsa.
Svo sótti ég þetta:
Eða réttara sagt ég bað einhvern að setja "útsaumaða" baukinn minn á borðstofuborðið, ég gat sjálf farið þangað með litla verkfærabaukinn og rauðu kúlukeðjuna sem hafði verið að flækjast inni í herberginu mínu.
Í stóra bauknum geymi ég þennan öfluga poka sem ég keypti einu sinni á útsölu í handverksbúð í Árósum eða þar í grennd. Í honum eru 222 hankir í jafnmörgum litum.
Ég byrjaði á að klippa slaufuböndin burt og sauma saman hálsmálið að framan. Kúlukeðjan er steypt á þráðinn svo að ekki þýðir að losa hana sundur og raða svo hér og þar. Ég saumaði hana því fasta þétt upp við hálslíningu frá öðrum axlasaumnum yfir að hinum, hún var ekki nógu löng til að ná allan hringinn. Svo saumaði ég með svörtu hér og þar í blúnduna þar sem hún var að hugsa um að losna eða trosna. Þá var komið að útsaumnum. Ég ákvað að fylgja í stórum dráttum grófustu útlínunum hér og þar og byrjaði á laufblaðinu hér hægra megin fyrir neðan. Það varð ekki nógu gott. Útsaumsgarnið er ekki snúðhart þannig að það varð ansi lufsulegt þegar búið var að draga það gegn um þétt efnið margsinnis. Þá hleypti ég í mig kjarki, fékk Ingimund til að fylgja mér og fór út í Tumsu (aðalvinnustofuna mína úti í gamla fjósi) í fyrsta (og eina) sinn síðan ég slasaðist. Þar tók hann niður úr hillu kassann minn með allskonar bandinu. Þar minnti mig að ég ætti hnotu af eldrauðu DMC garni og það reyndist rétt. Þegar ég var búin að sauma með því hinumegin við klaufina var það augljóslega miklu betra svo að ég rakti upp fyrsta laufið. Nú var ég eins og venjulega búin að vera miklu lengur að þessu en ég bjóst við og saumaði bara svolítið meira áður en ég fór í hann. Á óskýru myndinni í færslu 92 má sjá stöðuna.
Síðan hefur þetta bara beðið á borðinu fram undir þetta en nú er ég búin að sauma það sem ég held að sé mátulegt og fann svo auk þess nokkrar rauðar kúlur sem ég gróðursetti líka.
Nú þarf enga rauða hálsfesti
 en það er alveg hrikalega erfitt að mynda þetta þannig að litirnir séu nokkurn veginn réttir, ég er örugglega búin að henda 20-30 myndum og hér er nærmynd í snarvitlausum lit.
Og mikið sem ég hugsaði til hennar Hörpu á meðan ég var að þessu. Já og Guðnýjar þegar ég var að brasa með myndavélina.