miðvikudagur, 28. september 2011

10. Skúmaskot

Í þessu skoti er mikið skúm. Það lítur helst út eins og skotið hafi verið skoti gegn um skúmið.
Þetta er svo flott að það liggur við að ég hafi samviskubit yfir því að hafa miskunnarlaust sett á það ryksuguna þegar ég var búin að skrúfa skóhilluna af veggnum til að geta málað. Ég er ekki sú tegund af húsmóður sem svífst einskis oft á ári til að þrífa hvert skúmaskot. Heppnar köngulærnar hér. Og það bitnar þá væntanlega á flugunum eða hvað? Dauði eins er annars brauð. Ef ég á að velja vil ég líklega frekar nokkrar köngulær en flugur. Ég hef aldrei pirrast yfir köngulóarskít upp um alla veggi. Og þær nota ekki andlitið á mér sem flugvöll þegar ég á að vera sofandi á hlýjum sumarnóttum.

9. Komum tínum berin blá

Hefur einhver einhverntíma séð eitthvað yndislegra?
Handverksgenin leyna sér ekki, það sýna fínhreyfingarnar.

8. Nýja hárgreiðslan

Fékk mér nýja hárgreiðslu í gærkvöldi.
Nei, ég var ekki lamin með flösku í hausinn. Og nei, labbaði ekki heldur á skáphurð. Hefði þá líkast til þurft að bakka. Á í brasi með að finna þægilega stellingu til að sofa nægju mína svo að það er best að blogga bara um stund, nóg er efnið. Bloggin mín væru bústin ef allt það blogg sem ég bý til í huganum kæmist alla leið hingað inn. Það má segja að maður hugsi í bloggum oft og iðulega, það bara hvetur ekki til framkvæmda hvað kommentum hefur fækkað. Ætli ég þumbist nú ekki við samt.

mánudagur, 19. september 2011

7. Bloggið

Meðal annarra orða, það voru réttir í gær. Venjulega hefði það verið talið tilefni til að blogga en maður ræður bara við takmarkað í einu. Gluggarnir hefðu dugað mér en við vorum rúmlega 30 í réttunum og tuttugu borðuðu hér hangikjöt þegar búið var að reka heim.
Ég er í fjárans basli með myndirnar, þær verða svo smáar og aumingjalegar, ég er ekki búin að finna hvað ég geri vitlaust, ég held að ég hafi ekki breyst en hef grun um að tölvan hafi gert það, hún fékk smá meðferð í gær. Mér hefur líka verið sagt að fólk hafi ekki getað sett hér athugasemdir, ég held ég hafi lagað það. 
Ég mæli með að þeir sem ekki hafa bloggaraaðgang noti "Name/URL" frekar en "Anonymous" þannig að þeir geti merkt athugasemdina með sínu nafni en þurfi ekki að heita Anonymous. Það er svo asnalegt nafn.

Uppfært: Búin að laga myndirnar. Hér áður fyrr þurfti að minnka myndir til að þær gengju upp í bloggfærslum, nú prófa ég að hætta því. Þið megið gjarna láta mig vita ef  síðan fer að virðast of þung. Held samt að þetta sé allt í lagi.

6. Framhaldsgluggar

Synir smiðanna una sér hreint prýðilega í grindinni á meðan pabbarnir puða.
 Ég fann ekki í fljótu bragði góða mynd af gömlu gluggunum en hér er ein frá því að unnið var að endurbótum á þakinu. Þessir gluggar sem núna voru teknir eru upprunalegir, þ.e. frá 1946. Flestir aðrir gluggar í húsinu eru eitthvað um það bil 30 ára en þeir þurfa að víkja líka, spurningin bara hvenær.
 Sjáið þið bara hvað nýju gluggarnir fara húsinu einstaklega vel! Gaman verður að losna við neðri gluggana líka en við gleypum nú ekki heiminn í einum bita.


5. Gluggar

Ég á þrjá syni. Í undanförnum bloggum hef ég verið að tala um tvo, hér kemur sá þriðji. Maður á ekki að skilja útundan sko.

 Ég brá mér til tannlæknis á Akureyri á miðvikudaginn og kom til baka með kerru sem hann Dúi frændi minn var svo elskulegur að lána mér. Ég var afar glöð á leiðinni þó að mér hundleiðist að draga dót á eftir bílum; á kerrunni voru nefnilega gluggarnir þrír sem eru grundvöllur að því að hér sé hægt að dveljast að vetri til í framtíðinni!

Hér er svo hann Kjartan verðandi byggingafræðingur búinn að taka svefnherbergisgluggann úr. Jú og það gerði ég auðvitað líka. Honum til aðstoðar á myndinni er hann Jóhann Smári með smiðsbelti um mittið og allt.

 Veðrið var afar gott og hentugt og skemmtilegt að geta hallað sér út um gluggann. Það hefur aldrei verið hægt áður og verður vonandi ekki aftur á meðan ég bý hér.

Nú lítur sjónvarpsstofan svokölluð (ætti líklega frekar að heita dagstofa því að hér er tölvan líka) svona út. Mér finnst afar freistandi að vera ekkert að ganga hérna frá fyrr en ég hef druslast til að mála hér en ég byrjaði eiginlega á því þegar ég tók gamla ofninn um árið. Gallinn er bara að ég er fræðilega séð enn að mála niðri og auk þess fer ég að selja slátur í þessari viku. Spurning um klónun? Nennessekki.
Mér finnst ekki hentugt að vera með mjög löng myndablogg svo að ég brytja þau frekar niður. Framhald á eftir.

laugardagur, 17. september 2011

4. Hleðsla

Fleiri tóku til hendi hér í sumar.
Hlaðni veggurinn í garðinum -sem er í bakgrunni bloggsins eins og er- gaf sig fyrir fáum árum og í sumar lögðum við Róbert Stefán lokahendur á viðgerð. Gott var að geta komið öllum þeim steinum af vettvangi.

fimmtudagur, 15. september 2011

3. Framhaldsgirðing

Næst var þá að fara að koma steinunum fyrir. Ég hafði alla tíð ímyndað mér að það yrði skelfilegt bras, þyrfti að stífa af og skorða með tilfæringum á meðan steypan harðnaði í kring og svona, en viti menn: Við reistum upp fyrsta steininn til að máta og hann bara stóð þarna eins og hann hefði aldrei gert annað! Við góndum til skiptis á steininn og hvort annað en jæja, skemmtileg tilviljun bara.  
 Við reistum þann næsta til að vera nú viss um púslið áður við settum steypuna að fyrsta steininum og hann stóð þarna líka bísperrtur!! Ég prófaði að blása fast á þá og ekkert skeði. (Var það ekki Matti minnstur sem blés á vörubílinn með sprengiefninu í Pabbi mamma börn og bíll?) Svona bara virkaði fínt raufin sem ég markaði í grunnsteypuna af rælni.
 Við vorum með aðstoðarmenn og svona til að þeir væru til friðs sagði Ingimundur þeim að tína saman áhöldin og setja á plötu sem þarna lá. Þetta var útkoman.
 Við héldum svo áfram með hvern steininn af öðrum fram í svarta myrkur og ég er óskaplega hamingjusöm með girðinguna mína. Þetta er fyrsti áfangi og nú veit ég að þetta er vel gerlegt.
 Það er eftir að steypa betur í kring og ganga frá en ekki er vert að lengja mannvirkið fyrr en búið er að slétta garðinn endanlega. Það var víst aldrei búið að því, hann bara greri óvart áður en tími gafst til að klára.
 Hér standa fimm stórir og einn minni og eins og ég segi er þetta langt framar vonum. Stefnan var að rifur og bil á milli yrðu ekki stærri en svo að lömbin kæmust ekki í gegn og það gekk eftir enn sem komið er.
Við vorum bæði þreytt og dösuð eftir törnina enda steinar og steypa í þennan girðingarpart hátt á annað tonn og sumt fært til hvað eftir annað. Þið megið giska á hvort okkar bar þyngri byrðar.

mánudagur, 12. september 2011

2. Girðing

Fyrir ævalöngu fluttum við heim í nokkrum ferðum hraunhellur sem ég hugsaði mér að nota til að girða garðinn, að minnsta kosti að hluta. Síðan hef ég gengið um og miklað verkið fyrir mér. Til dæmis var ekki fært að gera þetta fyrr en búið væri að gera við húsið, menn gætu viljað fara inn í garðinn á tækjum. Hér um árið þegar strákarnir endurnýjuðu þakið var þarna til dæmis vörubíll.
Það er í framtíðarplönunum að klæða húsið en í sumar áttaði ég mig á því að hellurnar góðu voru á góðri leið með að sliga vegginn sem þær voru reistar upp við svo að nú var að hrökkva eða stökkva.
 Fyrst var að fá yfirsýn yfir efnið og velja úr þá steina sem vænlegastir væru til að byrja á. Við röðuðum þeim nokkurn veginn eins og við héldum að þeir myndu fara best. Ég get trúað ykkur fyrir því að þetta er ekki léttavara.
 Svo var grafinn skurður, djúpur og hæfilega breiður. Mokað ofan í hann dálítilli hraunmöl. Ég naut við það aðstoðar svo sem sjá má hér. Ungi maðurinn sem næst okkur stendur prílaði gætilega upp á binginn, valdi sér þar mola, fikraði sig svo jafn gætilega niður aftur, rölti fram með skurðinum og dúndraði þar steininum ofan í. Þetta endurtók hann alloft, eða þangað til við töldum þetta hæfilegt. 
Og svo stungum við í hann (skurðinn, ekki barnið) slatta af gömlum rakstararvélatindum og öðru járni. Það á að þjóna sem járnabinding. Næst kom slumpur af grófri steypu.
 Og í hana markaði ég rauf sem var svona sirka fyrir þykktina á flestum hellunum.
Framhald í næstu færslu....

laugardagur, 10. september 2011

1. Flutt

Æijá, ég læt bara verða af því að flytja hvunndagsbloggið mitt hingað, ég er orðin dauðhrædd um að hitt sé að fara í klessu. Nú í allnokkurn tíma hef ég farið af og til inn á heimasíðu blogcentral, en þar er hægt að sjá nokkrar síðustu færslur sem bloggarar hafa verið að setja inn. Án undantekninga eru þar eingöngu núna ný blogg sem augljóslega er verið að stofna af samskonar liði og var með athugasemdaárásirnar. Ég er að tala um mörg ný blogg á hverri einustu mínútu vikum saman, svo að ég skil ekki í öðru en að blogcentral springi bráðum. Að minnsta kosti virðast þeir ófærir um að verja sig.
Ég skal bráðum að rifja upp hvernig ég set þetta upp en nú fer ég að mála.