mánudagur, 30. júní 2014

115. Maífærsla.

Á vorin er ungviðið úti um allt. Sauðburður gekk alveg prýðilega þetta vorið. Eins gott því að mér finnst eins og við séum eitthvað að eldast, hvernig sem á því stendur. Ég brá mér líka suður í afmæli og veiddi þar í leiðinni öndvegis sauðburðarhjálp sem var hér nokkra daga og allt saman bjargaðist þetta ágætlega.

Rauðhetta var með þeim fyrstu og þarna er hún komin út í vorið með þrílembingana sína.
 5. maí báru mæðgurnar Kræða og Rut og voru báðar fjórlembdar. Hér er Kræða með hvítan hrút og þrjár svartar gimbrar. Og kippir sér ekkert upp við að hafa eignast á einum degi 4 börn og 4 barnabörn.
 Hér er forystugimbrin úti að leika sér og það kemur ykkur kannski ekki á óvart að hún heitir Fluga.
 Ég fékk Ívan með mér upp í skóg og fékk hann til að príla upp í tröppu með myndavél til að mynda hrúgur mér sýndust geta verið hreiður hátt upp í trjám.
Hér reyndust vera egg sem breitt er vandlega yfir. Þau eru ofursmá.
 Í öðru tré var þetta þrastahreiður. Þar er ekkert verið að pjattast með sængur og kodda.
Það var mikil Maríuerluumferð í hesthúsinu á sauðburðinum en mér tókst aldrei að finna hreiðrið. Ungarnir eru nú talsvert fullorðinslegir svo að einhvers staðar hafa þeir búið. Þegar ég var að leita ofan við fjárhúsið tók ég eftir umferð hjá gömlu dráttarvélinni sem Agnar notaði alltaf með fárra daga millibili til að færa til rúllur.
Þar var þetta framan við vatnskassann. Eins gott að vélin var aldrei í gangi neitt lengi í einu.
Orðið ansi þröngt enda voru þeir farnir út í heim mjög skömmu síðar.

Nú er líklega rétt að fara að skreppa út og gera eitthvað af viti, það er verið að tala um veðurbreytingu en veðrið er búið að vera frábært í allt vor og það sem af er sumri, oft yfir tuttugu stig og það stundum í sólarlausu. Mér fannst ekki mikill húmor í því að vera að gera vorhreingerningar í skólanum við þær aðstæður.
Hver veit nema það komi júnífærsla í réttum mánuði? Það fer víst hver að verða síðastur með það.

114. Eldsmíði

Það er óhjákvæmilegt að setja hér aðra aprílfærslu. Ég nefnilega fór inn á alveg nýtt svið.
 Jakob setti hér upp eldsmiðju hjá hænunum í fjóshlöðunni. Með dyggri aðstoð undirritaðrar.
Þegar ég var svo búin að horfa á hann um stund varð ég að fá að prófa. 
Og þetta er æði!
Ég er að smíða mér stóra nál til að nota við hrosshársvef.
Ég er komin svona langt,
Efnið er tindur úr heygaffli og þarna er annar ósnertur til samanburðar.
Ég ætla ekkert að tala um hvenær ég verði búin að þessu enda skiptir það ekki meiginmáli sko.
Fleiri spreyttu sig.

113. Apríl

Það er ekki mikið gagn í dagbókarbloggi sem enginn nennir að skrá. Nú er best að setja inn þó ekki væri nema eina aprílfærslu þó að seint sé.
Aðalmálið í apríl var náttúrulega ferming.
Fermingarstrákurinn minn var flottur og fínn og mjög ánægður með daginn. Hann á þessar tvær öndvegissystur.
Hér er mitt tillag í herlegheitin, algerlega að óskum fermingarbarnsins. Ég mætti á svæðið með eina kransaköku sem ég lagði ekki í að baka sjálf en nú veit ég að það get ég alveg. Ég fékk hringina í bakaríinu á Húsavík og setti saman og efst trónir postulínsbangsi sem ég fann á nytjamarkaði á Húsavík. Ég er ekki sérlega hrifin af stöðluðum plaststyttum en ein slík kom á svæðið og langaði að vera með. Ég hafnaði því að leyfa henni að vera á kökunni en sagði sjálfsagt að lofa henni að príla upp á einhverja hinna þriggja rice crispies turna sem ég bjó til. Það hentaði víst ekki svo að greyið var settur á marengstertuna en ég kom líka með 4 slíkar. Ég hélt þó kannski að þar væri jarðvegurinn heldur gljúpur en hann var bara látinn vaða. Í orðsins fyllstu merkingu. Gaurinn sökk óðara upp í klof.

Fullt af tilhöfðu fólki og fullt af myndavélum. Hér er minn frábæri hópur og þarna var þeim uppálagt að sprella.
Fermingarstrákurinn snertir ekki jörðu og Sigrún hristir hausinn úr fókus.
Svo var mér uppálagt að leggjast fyrir framan liðið og hlýddi auðvitað umsvifalaust eins og ég er vön.
Ég ætla ekki að gera það aftur svona klædd. Það er ómögulegt að láta fara sæmilega um sig því ég var látin sníða handveginn á peysufatapeysunni svo bjánalega á námskeiðinu um árið.
Svo gleymdi ég auðvitað að taka gleraugun af mér en það er nú ekkert nýtt.

þriðjudagur, 25. mars 2014

112. Boð

Ég bjó til boðskort um daginn.
Nú er verið að basla við að finna út svona um það bil hversu margir verða með okkur og samt setti ég svona kurteislega beiðni þarna með gula letrinu. Þetta skiptir auðvitað talsverðu máli í veitingavangaveltum.
Ég þarf að finna mér nokkrar plötur undir marengstertur.
Og ýmislegt fleira.
Þetta kemur allt með kalda vatninu.
Er það ekki?

föstudagur, 21. mars 2014

110. Frá fyrra ári

Neibb, ég er ekki dáin. Bloggið mitt ekki heldur. Ég tek enn bloggmyndir og forma færslur í huganum en svo myndast einhver stífla. Ég ætla nú að rjúfa gat í hana og setja inn færsluna sem ekki má vanta frá fyrra ári:
Minnstu stúlkunni minni var gefið nafn. Þess var að sjálfsögðu getið í jólabréfinu en auðvitað á að vera sjálfstæð færsla um svo mikilvægt mál.
Við vorum frá upphafi ákveðin í að nafnið hennar yrði að vera í skírnarkjól fjölskyldunnar en til þess að það gæti orðið varð barnið auðvitað að klæðast kjólnum einhvern tíma. Þess vegna ákváðum við að hafa nafnveislu :).
 Snemma að morgni 14. desember stakk ég þessum haug í bílinn en í kössunum er ýmiskonar borðbúnaður og marengsterta. Einnig fóru þangað bestu föt okkar hjóna. Við fórum svo að jarðarför hérna í okkar sveit sem fór fram klukkan ellefu og því var ég fegin því ég vildi ákaflega gjarnan vera þar og syngja í kirkjukórnum. Við urðum hinsvegar að sleppa erfidrykkjunni (kjötsúpunni) og brunuðum beinustu leið til Akureyrar eftir athöfnina.
 Þar var margt öndvegisfólk og hér eru bráðfallegar (hálf)systkinadætur.
 Til að komast að því hvað barnið héti þurfti að púsla. Margar hendur vinna létt verk. Að vísu hefðu ef til vill færri hendur farið færri villigötur en allt saman hafðist þetta þó og 
þegar hér var komið sést að stúlkan heitir Ada Sóley.
 Hér erum við að reyna að vera settlegar.
 Sigrún Heiða kom að austan í fína blómakjólnum sem mamma saumaði og gaf henni í skírnargjöf. Hér sitja þær langmæðgur og ræða málin.
 Systkin eru að ferðbúast en taka sér stund til að horfast í augu sem grámyglur tvær - eru að minnsta kosti gráklædd.
 Þar sem hópurinn minn var nú allur þarna samankominn smalaði ég þeim til myndatöku. Uppstillingin er eiginlega eins og fjölskyldutré, voða fínt. (Á hvolfi reyndar). Best að taka það skýrt fram að Kjartan er ekki með mig á háhesti, ég hlammaði mér upp á sófabakið til að fjölskyldutréð yrði rétt formað.  Ég var búin að setja eina af mínum myndum í jólabréfið sem er síðasta færsla, en seinna fékk ég betri myndir frá hirðljósmyndara sem var á staðnum svo ég set þær hingað inn. Á efri myndinni eru allir tiltölulega settlegir og fínir (vantar bara neðri kjálkana á yngsta soninn)
en eftir mörg skot nokkurra myndavéla bætti ég tengdadætrunum við og þá voru minnstu manneskjurnar farnar að ókyrrast nokkuð svo ekki gafst færi til mikilla settlegheita.
Ég er afar stolt af þessu fólki.
Nú styttist í að þetta fólk hittist allt saman aftur ef veður og færð leyfa, þar sem til stendur að ferma skyrtuklædda manninn í fremstu röðinni eftir tvær vikur.
Kannski næst þá að uppfæra myndina?
Nú fer ég í það blogga hinumegin fyrst ég komst í gang.

laugardagur, 4. janúar 2014

109. Jólabréfið

Ég set jólabréfið hér inn með sama hætti og í fyrra, það er að segja ég hendi út myndunum og set þær inn aftur beint. Annað virkar ekki og þá get ég líka haft þær stærri þegar ekki þarf að hugsa um pláss á blaði eða hvort liturinn í prentaranum dugi.

Jólabréf 2013

Þá liggur fyrir að tína saman punkta í jólabréf. Það er ekki eins auðvelt og í fyrra þar sem ég hef verið latari að blogga en það er svo þægilegt að fletta upp í slíkum færslum. Árið fór rólega af stað og mín vegna hefði það bara gjarnan mátt halda þannig áfram en í byrjun febrúar tók ég eitt rangt skref og féll á hnéð. Í stuttu máli kostaði það margar myndatökur, skoðanir og sjúkraþjálfun, auk hálfs árs veikindaleyfis. Ekki fór að birta fyrr en um mánaðamótin apríl maí þegar ég komst til læknis í Orkuhúsinu og þá loks var gerð smáaðgerð og rétt greining og þá byrjaði að batna almennilega. 
Um miðjan mars sleit Kjartan hásin í körfubolta og svona tókum við mæðginin okkur út um páskana:

Í mars var stóri afastrákurinn hann Agnar Daði fermdur á Húsavík og þar kom saman margt gott fólk, sumir á hækjum og sumir ekki.

Ekki er við því að búast að veröldin standi í stað þó að ein og ein manneskja detti úr gír og á sauðburði urðu menn að gera svo vel að bjargast án mín. Hér er til dæmis hún Elín Rut ásamt foreldrum að störfum í fjárhúsinu um miðjan apríl.

Í júní  var haldið árlegt kvennahlaup og ég hafði með sjálfri mér ákveðið að skrönglast það einhvern veginn og það tókst! Ég setti mér að komast stystu vegalengdina sem er 1 kílómetri á Laugum og tók göngustafina í staðinn fyrir hækjurnar sem var misráðið. Tvær góðar konur um og yfir áttrætt voru alltaf að staldra við eftir mér þó að ég fullvissaði þær um að það yrði allt í lagi með mig.

Undir lok mánaðarins fórum við hjónin að ættarmóti föðurfjölskyldu minnar í Hrútafirðinum og þaðan fór ég svo ásamt mömmu og fleiri félögum í Þjóðháttafélaginu Handraðanum alla leið til Karlskrona í Svíþjóð og þar eyddum við fyrstu viku júlí. Við sýndum okkur þar og sáum aðra sem „gamladagafólk“ á strandmenningarhátíð og þetta var heilmikil upplifun. Ég þorði ekki annað en að taka hækjurnar með en þurfti lítið að grípa til þeirra nema smávegis á flugvöllum.
   Hér er hópurinn skartbúinn fyrir utan Blekingesafnið.

 Í júlí héldum við líka upp á 13 ára afmæli Ívans en hann var hjá okkur lungann úr sumrinu.
 Í ágúst gerðist svo eitt það besta en þá eignuðust Kjartan og Elsa hans þriðja barn sem er stúlka sem fékk strax nafnið Sigrún Heiða. Við fórum og hittum hana um miðjan mánuðinn.

Í sama mánuði lauk Agnar 43 ára starfi hjá Búnaðarsambandinu og ég hóf störf sem skólaliði í sameinuðum Þingeyjarskóla og er aðallega í Hafralækjardeild. Ég er líka áfram í heimilishjálpinni sem hefur þó dregist nokkuð saman hjá mér. Þetta er ágætt en slítur óneitanlega í sundur fyrir manni daginn. Ég byrjaði á því þegar ég réði mig að biðja um nokkurra daga frí til að selja slátrið og fékk það svo í september. Mér finnst það eiginlega ómissandi á hverju hausti og sem betur fer virðast yfirboðararnir þar og flestir kúnnarnir vera alveg sammála mér.

20. október varð Linda Elín 15 ára og þann dag hélt hún litlu systur sinni undir skírn í Eiríksstaðakirkju á Jökuldal. Ingimundur og Marta komu ekki þangað, enda liðu ekki nema tveir dagar þangað til enn kom ný stúlka í heiminn! Já takk, nú á ég 3 ömmustráka og hvorki fleiri né færri en 4 ömmustelpur! Það hafa aldeilist jafnast kynjahlutföllin hjá afkomendunum mínum tíu.
 Ég hitti litlu skottuna 6 tíma gamla og hún tók brosandi á móti mér.
14. desember var haldin nafnveisla og þá hugði ég gott til glóðarinnar að ná öllum mínum saman á mynd en það gekk nú upp og ofan eins og við er að búast þegar þriðjungur hópsins er 3 ára eða yngri. Þegar búið var finna nafn barnsins á púsluspili kom í ljós að hún heitir Ada Sóley. Eitt íslenskt nafn og eitt pólskt og skilyrði að auðvelt sé að bera nöfnin fram á báðum tungumálum.

Jóhann var staðráðinn í að halda á litlu systur,
 Sigrún Heiða og Elín Rut eru eitthvað að skoða 
og Ada Sóley er sennilega að bíða eftir að verða nógu stór til að gera eins og hinir krakkarnir. 
Afi fékk lánaða húfuna Jakobs og fannst hann voða fínn.
  

   Amman er hér með ríkidæmið:
Ingimundur                 Kjartan              Róbert Stefán
Ada Sóley      Jóhann Smári, Sigrún Heiða      Elín Rut
   Ívan Veigar                Linda Elín               Jakob Ágúst   
  
Hjartans jóla og nýjárskveðjur héðan úr sveitinni.

 Svona var sem sagt jólabréf ársins, mér finnst ég ekki hafa gert árinu nægileg skil á blogginu og set væntanlega að minnsta kosti eina færslu hér enn sem tilheyrir síðasta ári.