mánudagur, 30. júní 2014

113. Apríl

Það er ekki mikið gagn í dagbókarbloggi sem enginn nennir að skrá. Nú er best að setja inn þó ekki væri nema eina aprílfærslu þó að seint sé.
Aðalmálið í apríl var náttúrulega ferming.
Fermingarstrákurinn minn var flottur og fínn og mjög ánægður með daginn. Hann á þessar tvær öndvegissystur.
Hér er mitt tillag í herlegheitin, algerlega að óskum fermingarbarnsins. Ég mætti á svæðið með eina kransaköku sem ég lagði ekki í að baka sjálf en nú veit ég að það get ég alveg. Ég fékk hringina í bakaríinu á Húsavík og setti saman og efst trónir postulínsbangsi sem ég fann á nytjamarkaði á Húsavík. Ég er ekki sérlega hrifin af stöðluðum plaststyttum en ein slík kom á svæðið og langaði að vera með. Ég hafnaði því að leyfa henni að vera á kökunni en sagði sjálfsagt að lofa henni að príla upp á einhverja hinna þriggja rice crispies turna sem ég bjó til. Það hentaði víst ekki svo að greyið var settur á marengstertuna en ég kom líka með 4 slíkar. Ég hélt þó kannski að þar væri jarðvegurinn heldur gljúpur en hann var bara látinn vaða. Í orðsins fyllstu merkingu. Gaurinn sökk óðara upp í klof.

Fullt af tilhöfðu fólki og fullt af myndavélum. Hér er minn frábæri hópur og þarna var þeim uppálagt að sprella.
Fermingarstrákurinn snertir ekki jörðu og Sigrún hristir hausinn úr fókus.
Svo var mér uppálagt að leggjast fyrir framan liðið og hlýddi auðvitað umsvifalaust eins og ég er vön.
Ég ætla ekki að gera það aftur svona klædd. Það er ómögulegt að láta fara sæmilega um sig því ég var látin sníða handveginn á peysufatapeysunni svo bjánalega á námskeiðinu um árið.
Svo gleymdi ég auðvitað að taka gleraugun af mér en það er nú ekkert nýtt.

2 ummæli: