laugardagur, 23. júní 2012

69. Fermingarskreytingar

Nei þetta gengur bara ekki krakkar mínir, mánuðurinn að verða búinn og hann var að byrja!
Hér var sem sagt undirbúin ferming eins og áður hefur komið fram. Fermingarbarnið var búin að óska eftir að ég og mamma hennar sæum um skreytingar ásamt henni sjálfri og efnið átti að vera úr umhverfinu.
 Við fórum um hraunið mitt og fengum þar yndisleg sýnishorn af Íslandi og hér eru þau komin heim í garð og fjóluskreytingin tilbúin sýnist mér. Fjólurnar rækta sig sjálfar allt í kring um mig í garðinum mínum.
 Svo hélt ég áfram að pússla. Þetta er aðalskreytingin sem fór á hlaðborðið. Mosagrunnur, hraunmolar, sortulyng og fjalldrapi. Ekkert mál að skipta seinna út lynginu og nota aftur og aftur ef vill.
 Þetta er kökuborðið. Þar var meðal annars lambagras og bláberjalyng.
 Við fatahengið eru glerkrukkur og hraun með skófum. Ég var að velta fyrir mér að nota krukkur og vefja þær kannski með blúndum eða striga eins og fellur svo mikið í kramið núna en þegar til kom var þetta miklu betra svona; tært vatn og birkihríslur annars vegar og hins vegar mótaði ég mosabolta í víðar niðursuðukrukkur þannig að að hann sneri allsstaðar út, fyllti þær svo af vatni og stakk í mosann sortulyngi og hvítasunnuliljum. Fór aftur heim með strigann.
 Þegar við röltum um skógarreitinn minn skömmu áður tók Drífa upp brotna birkihríslu og fór af rælni að svegja hana til, kryddaði svolítið og þetta varð útkoman. Undir eru svo tvær mosakrukkur með hrafnaklukkum sem eru mínar uppáhalds númer eitt.
 Borðskreytingarnar voru einfaldar; sortulyngsgreinar lagðar langsum.
Gleymdum ekki litla skotinu við hliðina á miðasölunni í andyrinu.
Svo var bara að spara ekki úðabrúsann á mosann og allt var svo ljómandi fínt.
Fleiri skreytingar sjást kannski í næstu færslu, ég lofa að láta hana ekki dragast lengi.
Munið að myndirnar stækka ef smellt er á þær.

2 ummæli: