sunnudagur, 24. júní 2012

70. Nýtt líf

Nú ætla ég að taka mig á og skjóta inn færslu úr daglega lífinu eins og ég var vön á meðan bloggarar voru virkari og settu ummæli hjá hver öðrum í talsvert meiri mæli en nú tíðkast á hvunndagsbloggum. Það er alls ekki markviss og meðvituð ákvörðun að blogga ekki daglega eins og fyrrum heldur bara nenni ég ekki eins oft þegar viðbrögð eru dauf. Reyndar er mér líka sagt að stundum sé erfitt að koma inn athugasemd hjá mér fyrir þá sem ekki eru innvígðir í bloggskráningarkerfin og það finnst mér súrt.
Þessa góðviðrisdaga hef ég verið flestum stundum útivið og hamast við handverkið. Þess á milli er ég svolítið að reyna að missa ekki garðinn í órækt og vitleysu og fylgjast með lífinu allt í kring um mig.
 Talandi um garðinn er ég ekki enn búin að koma á sinn stað fáeinum salatplöntum en um daginn reyttum við Jakob þó burtu ókjör af grasi, fíflum og öðru því sem ég ekki vil rækta en skildum eftir jarðarber og fjólur sem eins og áður hefur komið fram er heimilt að vaxa hvar sem þær vilja. Ekki er hægt að reyta burtu gróður án þess að jarðvegur fari með og í fyrradag bar ég í lægðina nokkrar fötur af gömlum hænsnaskít og mold og nú er að blanda og vona að kræsingarnar verði ekki of sterkar fyrir grænfóðrið. Þarna er ég búin að vera að bleyta duglega í en allur jarðvegur hér er orðinn skelfilega þurr.
 Hér eru mosakrukkurnar sem ég talaði um í síðustu færslu en nú er ég búin að taka blóm og lyng úr, hella vatninu af og svo er bara að láta þorna vel og geyma. Hægt að nota aftur á sama hátt hvenær sem er. Skiptir ekki máli hvort er eftir daga, vikur eða ár.
 Hérna sagði ég ykkur frá maríerlu sem komin var með fjögur egg. Þau urðu sjö og svona er staðan núna! Foreldrarnir meiga hafa sig öll við að bera heim vistir en því miður er annað þeirra svo úr hófi varfærið að það þorir helst ekki að stinga sér inn til barnanna á meðan ég er að störfum.
 Kjáninn situr  heldur ýmist á þakrennunni,
 girðingum,
 eða jafnvel sínu eigin húsþaki og bíður þess að ég gufi upp. Eins og ég viti kannski ekki hvar fjölskyldan er til húsa?! Ég byggði húsið sjálf! Dæs.
Þess má geta að fuglaljósmyndarar eiga mína virðingu óskipta fyrir þolinmæði sína.
 Hér er gamla Súla sem var dregin heim á hlað til að nota í varahluti en þegar átti að toga hana til baka var komið babb í bátinn.
Undir lokinu þarna framan við stýrið er þetta. Gamla hræið fær að standa þarna þangað til herra og frú Þröstur eru búin að útskrifa hópinn.

2 ummæli:

  1. Mikið eruð þið heppin að fá að fylgjast svona náið með fuglalífinu :) Mig er farið að dreyma um sumarhús í sveit (og helst líka við sjó) þar sem ég get verið í nánari snertingu við náttúruna.

    SvaraEyða
  2. Æijá, hreiður vekja alltaf góðar tilfinningar.

    SvaraEyða