þriðjudagur, 5. júní 2012

68. Hreiður

Eins og stundum fyrr finnst mér að ég hafi yfirdrifið nóg fyrir stafni. Nú á að ferma hér næsta sunnudag. Neinei, misskiljið mig ekki, ég var búin með þann pakka, yngsti sonurinn er nefnilega 31 árs í kvöld klukkan 22.32 og til hamingju með það barnið gott ef þú lest þetta þarna suður í buskanum. Nú er það hinsvegar eldri nafnan mín sem taldi einboðið að fermast hér þar sem hún var jú skírð hér! En ekki hvað? Þetta fannst flestum fín hugmynd þó að enginn hafi sennilega verið eins ánægður með hana eins og afinn hér á bæ sem er orðinn óhóflega heimakær og fer sjaldan af stað í ferðalög með bros á vör. Heppinn hann :). Ég held því ákveðið fram að þetta sé í framkvæmd og umsjón foreldranna eins og vera ber en þar sem ég er tengiliðurinn á staðnum leggst mér ýmislegt til og einn stærsti þátturinn er að reyna að rýma til og þrífa húsið þar sem hér verður miðstöð helstu þátttakenda í nokkra daga. Nú hefur þvottavélin gengið linnulaust dögum saman enda búinn að vera fínasti þurrkur. Fullt af rúmfötum, gluggatjöldum og ekki síst allra handa skítagallar úr sauðburðinum sem lauk í gær þegar ég togaði frá Langsokku fínustu gimbur sem valdi að koma aftur á bak í heiminn. Merkilegt hvað vinnufólkinu hefur tekist að óhreinka margar spjarir sem ég er búin að vera að tína saman í þvottahúsi, geymslu og forstofu en þetta er nú allt að verða komið held ég sem er eins gott þar sem fyrstu droparnir eru að detta á gluggann í þessum töluðum orðum. Bændum þykir það væntanlega tímabært þar sem ekki hefur komið dropi úr lofti vikum saman eða síðan seinni vetrinum lauk. Fræ og áburður bíða í ofvæni býst ég við.
Ég gaf mér tíma nýlega til að mynda hreiður og hér eru tvö:
 Hér er elsku maríuerlan flutt í húsið sem ég byggði handa henni uppi á suðurvegginn
og hér hefur verið hreiðrað um fallegasta ungann í gamla silverkrossinum sem er ömmuvagninn í sveitinni.

1 ummæli:

  1. Góð hugmynd hjá henni nöfnu þinni, þeirri stærri. Fallegur unginn í vagninum og vafalítið verða þeir líka fallegir ungarnir sem koma úr skurninum : )

    SvaraEyða