miðvikudagur, 23. nóvember 2011

27. Mála allan heiminn elsku ...

Mér gengur illa að losa mig við málningarpenslana. Nú eru búnir að vera á þvælingi innpakkaðir bakkar með málningu, pensli og rúllu drjúgan part af þessu ári. Ég get trúað ykkur fyrir því að það er hægt að geyma slíkt ósnert ótrúlega lengi í senn án þess að allt verði ónýtt. Það er aldeilis ekki þannig að ég sé búin að gera allt fínt í kring um mig. Ónei. Það eru þessi endalausu skot, kverkar, horn, hurðir, húnar, slökkvarar, handrið, þröskuldar, naglar, hillur og hvað það nú heitir allt saman. Ekkert nema hraðahindranir. Jú og svo hefur verið í ýmsu öðru að snúast á köflum. Um þessar mundir er það sjónvarpsstofan sem er undirlögð. Í þessu herbergi eru geymdar flestar bækur hússins, (alls ekki allar þó) tölvan, skrifstofudótið, slatti af garni og sitthvað fleira. Það er talsvert brambolt að færa draslið til og frá og mála dálítin kafla í einu. Þetta byrjaði náttúrulega út frá nýju gluggunum en hefur staðið til lengi.
 Fyrst var það fjárans norðurveggurinn. Ég velti því svo sem fyrir mér að ryksuga hann bara vandlega og mála svo yfir allt draslið. En svo fannst mér það ekki hægt og skrapaði og skóf og pússaði og sparslaði. Daginn eftir að ég málaði seinni umferðina byrjaði hann að bóla upp.
 Þetta er dýpsta holan. Hér byrjaði ég á að kítta, sparslaði svo yfir og gái hvussu lengi það klastur virkar, það sér ekki á því ennþá að minnsta kosti.
Annars er bara norðurveggurinn ónýtur og verður það áfram þangað til hann verður klæddur að utan. Ef hann verður klæddur.
 Hér er svefnherbergishurðin standandi í tilgangsleysi úti í horni og hefur engar dyr. Þetta er bara eins og á fínheitasíðum útlenskum þar sem gamlar hurðir gegna allra handa hlutverkum en aðallega þó til skrauts. Þessa hurð hreinsaði ég fyrir mörgum árum og það stendur ekki til að það þurfi að sinna henni neitt meira á minni æfi.
 Það þarf að skrúfa af rafmagnslok ýmis og mála meðfram gömlu gólf og loftlistunum.
Og hornum, kverkum og svefnherbergisdyrum.

þriðjudagur, 22. nóvember 2011

26. Þvottahússhurðin

Þessi indæli sumarauki hefur heldur en ekki komið sér bærilega. Fyrir það fyrsta tókst að ganga endanlega frá öllum nýju gluggunum og búið að skila vinnupöllunum. Ekki var nú síðra að við Ingimundur tókum mína ónýtu þvottahússhurð af hjörum og héldum með hana út í garð. Umrædd hurð hefur verið ónýt síðan áður en ég kom hér fyrst og ég hef svona stundum verið að litast um eftir hurð sem gæti passað í dyrnar en ekki orðið neitt ágengt. Nú þegar gangurinn var orðin svo fínn að öllu (að minnsta kosti flestu) öðru leiti var ekki um annað að ræða en að gera bara við gamla skriflið.
 Svona leit sem sagt bakhliðin út. Sem betur fór sást hún ákaflega sjaldan því að það er nánast aldrei sem fólk fer inn í þvottahús og lokar á eftir sér. Að því er mér skilst er þetta aðallega eftir einhvern löngu látinn hund. Neðst má sjá bakhliðina á biluninni sem sást alltaf á "réttunni".
Við skeyttum passlegum spýtum neðst og svo þar sem bæturnar komu til með að enda hvoru megin og Ingimundur hafði eftir nokkra leit fundið nothæfar plötur sem við felldum ofan í og sjá:
 Hér er verri hliðin fyrir málningu
og þessi snýr að almenningi og við horfum alltaf á hana með aðdáun þegar við eigum leið hjá. Vissulega sjást skil þar sem bótin endar en það er barasta allt í lagi. Eins og af öllum hinum hurðunum var ég líka búin að taka húnana og hreinsa af þeim skít og gamla málningu.
Allt tekur þetta óheyrilega mikinn tíma en er þess virði svona eftir á.
Ég er reyndar ekki alveg búin þarna því að ég held að það sé vissara að lakka þessa hurð með glæra gólflakkinu vegna þess að það mæðir extra mikið á henni af vatnssulli og skít og plöturnar eru masonit sem er einhverskonar massi sem ekki er sérlega hrifinn af vatni í óhófi. Held ég fari í það þegar ég sé fram á að vera ein heima um tíma þar sem lakkið er svo lengi að þorna.

fimmtudagur, 17. nóvember 2011

25. Pabbi

Datt í það í kvöld að fara að lesa lokaða bloggið sem við héldum úti um pabba þegar hann lá banaleguna. Lesturinn tók nokkra klukkutíma og ég skoðaði líka allar myndirnar sem við söfnuðum á síðuna. Það er gaman að lesa margt af þessu enda var talsverður húmor í gangi. Það er nauðsynlegt. Líka erfitt að lesa sumt. Ég átti snilldar pabba og ég er ákveðin í að taka hann til fyrirmyndar í viðhorfi til dauðans. Honum þótti hann hreint ekkert tiltökumál, við fæðumst og við deyjum, aðeins mismunandi langur tími sem líður þar á milli. Hann var sannfærður um að ekkert tæki við og var bara á allan hátt afskaplega sáttur. Ég var búin að gleyma að þarna get ég líka hlustað á hann því að þarna er upptaka af fundi með lækni. Gott að heyra röddina hans.
Sýnishorn af samræðum okkar, þetta var ca. 10 dögum áður en hann lést og hann átti orðið erfitt um mál:
Ég nefndi það þá að trúlega færi hann svo bráðum að sofa bæði daga og nætur og hann brosti þá og sagði að það yrði nú gaman.
Hann var prýðilega sprækur á meðan Dísa (systir hans) stoppaði en sofnaði svo fljótlega og svaf að mestu eftir það þangað til hann var vakinn í kvöldmatinn. Hann rumskaði þó einhvern tíman og spurði hvort hann væri ekki gríðarlega leiðinlegur, Ég hélt nú ekki. 

 Hér heldur hann á hinu elsta af 8 börnum sínum árið 1952.
 Svona man ég hann þegar ég var krakki.
Hér ræðum við foreldrar mínir málin síðast þegar hann kom í heimsókn til mín. Þá frétti hann að ég ætlaði að halda jólaboð og lét sig þá ekki muna um að renna þennan spöl að sunnan.
Þetta er síðasta daginn hans heima hjá sér. Þau nafna mín hafa verið að segja eitthvað sniðugt.

miðvikudagur, 16. nóvember 2011

24. Matur

Dyggir lesendur mínir undanfarin ár hafa ef til vill tekið eftir því að þetta haustið nefni ég varla nokkuð þessi hefðbundnu haustverk. Það er líklega helst vegna þess að viðbrögðin eru orðin svo lítil á þessu bloggi að þá verður maður mun latari að skrifa. Það er þó ekki alveg þannig að ekkert eigi að borða næsta árið þó að vissulega hafi ég staðið nokkuð þétt á bremsunni í haust þegar kom að forðasöfnun. Í þessum töluðum (rituðum) orðum eru  eistun í pottinum
og þegar þau hafa soðið í 90 mínútur helli ég þeim í vaskinn og þegar þau hafa kólnað nægilega til að hægt sé að handfjatla þau flysja ég af þeim himnuna og treð þétt í sokkabuxur og pressa svo undir pottinum fullum af köldu vatni. Svo fara þau í súrinn. Namminamm.
Ég er líka búin að gera blóðmörinn, það mátti ekki dragast vegna þess að í súrdallinum verður alltaf að vera blóðmör, annars fer allt í vitleysu.
 Nú prófaði ég í fyrsta skipti að hafa Blakkogdekker með mér í verki og það reyndist prýðilega.
Ég er líka búin að gera fyrstu umferð af lifrarpylsunni en þar þýðir lítið að nota vélina nema til að byrja með, blandan er svo þykk.
Ég áttaði mig á því í fyrra að það er alveg fáránlegt að vera að kaupa sviðasultu fyrir þorrablótið þegar Agnar er alltaf svo duglegur að svíða úr heimaslátruninni og þetta er einhver einfaldasta eldamennska sem um getur.
Mauksjóða fullan pott af sviðum. Þetta eru heimasviðin fullorðins. Hreinsa svo vandlega og setja í 3 mjólkurfernur og hella svolitlu af soðinu yfir. Kæla. Ég setti svo fernurnar í frost í bili vegna þess að blóðmörinn var ekki til, en nú þarf að fara skjóta innihaldinu úr 2 fernum í mysuna.
Nú verður ekki hjá því komist að bretta upp ermar og fara að grauta í eistunum.

sunnudagur, 13. nóvember 2011

23. Enn meira framhald

Best að halda bara áfram fyrst ég er í stuði.
 Sá að litlar upplýsingar voru komnar um stigaganginn.
 Þarna niðri í hægra horninu var ÞETTA LISTAVERK á bak við skógrind.
Ég sleppti því að mestu að mála hvíta hlutann í stigaganginum, Ingimundur þreif hann fyrir mig í staðinn. Norðurveggurinn er svo leiðinlegur og verður það þangað til búið er að klæða og einangra húsið utan en það er framtíðardraumur sem kannski rætist, kannski ekki.
Annar framtíðardraumur er að rífa ónýta dúkinn af stiganum og sá draumur skal rætast. Því fyrr því betra.

22. Gangurinn framhald

Já þetta er framhald af færslu 19.
Síðast þegar ég málaði ganginn (sem var um leið fyrsta sinn sem ég málaði ganginn), sem var líklega árið sem Kjartan fermdist, (og dóttir hans fermist í vor svo að það hljóta að vera nokkur ár síðan), sá ég það af hyggjuviti mínu að ekki væri hægt að mála mjög dökkt því það yrði of dimmt og þröngt. Ekki heldur of ljóst því að hér ganga um menn sem eru stundum ekkert óþarflega snyrtilegir. Lausnin var að hafa efri hluta veggjanna hvíta en neðri hlutana í ljósgrábláum lit. Þarna var ég á gráa stiginu. Mér er orðið ljóst fyrir löngu að dekkri liturinn var allt of ljós svo að nú skipti ég um gír og gerði svona:
 Reyndar sá ég þegar ég byrjaði að liturinn sem ég keypti var heldur dökkur svo að ég hellti 3 lítrum úr fötunni og setti hvítt í staðinn. Stóllinn er í geymsludyrunum til að minna á að þarna er nýmálaður þröskuldur. Þar sem dúkurinn liggur út á hann ákvað ég að ekki gengi að hreinsa hann upp eins og hina þröskuldana sem ég sýndi HÉR þannig að ég málaði hann en lakkaði svo yfir með grimmsterka glæra gólflakkinu
 
Mig langaði að krydda svolítið. Húsið var ekki hannað með tilliti til lengdarinnar á stenslinum svo að stundum mátti hnika svolítið til á milli hurða.
Ekki gengur alltaf að nota stórvirkar vinnuvélar.
 Límbandið var mikið notað. Tómt vesen, eins og þið sjáið var ég ekkert að bulla þegar ég hélt því fram að þetta væru endalaus horn og kverkar.
en með þolinmæðinni hefst það, hér er bara eftir að setja eitt lítið hjarta.

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

21. Ársgamall

Jóhann  Smári er ársgamall í dag.
Við fórum til Egilsstaða um helgina og tókum þátt í að halda upp á þessi merku tímamót.
 Honum leiðist greinilega ekki neitt að klæða sig upp á. Þarna smeygir hann sér í samfellu sem passar alveg snilldarlega við fötin sem ég hafði í farteskinu. Meira um þau HÉR á gamladagablogginu mínu.
 Undirfurðulegur á svipinn, enda ekkert venjulegt að vera að kveikja í matnum.
 Fékk þennan öndvegisbíl frá foreldrunum. Svolítið bras að halda jafnvæginu ennþá, það flugu athugasemdir eins og að skella á manninn og sætið frönskum rennilás eða teppalímbandi.
Þetta er líka flutningabíll!

laugardagur, 5. nóvember 2011

20. Valgerður

Í dag er jarðarför mágkonu minnar.
Þegar því er lokið liggur leiðin til Egilsstaða til að fagna því að minnsta ömmubarnið er að verða eins árs. Svona er lífið.
Best að fara að mála glugga.

miðvikudagur, 2. nóvember 2011

19. Gangurinn

Ætli sé ekki best að koma með kafla úr sögu gangviðhalds. Það er segin saga að ef farið er í gera smávægilegar breytingar í gömlu húsi þá er maður óðara kominn á kaf í endalausa atburðarás. Ég keypti frystiskáp fyrir rúmu ári. Hann var eiginlega óþarflega stór en verslunin vildi gjarna losna við hann og bauð meir en helmings afslátt. Gott og vel, eftir mælingar virtist mér að samt ætti að takast að troða honum á fyrirhugaðan stað í geymslunni. Það hafðist svo með harðfylgi nokkurra nágranna að þjappa skápnum inn um beygjurnar frá útidyrum að geymslu og svo þar í gegn eftir að hurðin var tekin af hjörum. Það var gaman að taka í notkun nýja fína skápinn og allt lék í lyndi til að byrja með. Eftir nokkurn tíma fannst mér að ekki gengi nógu vel að stilla gripinn, það gekk ekki nógu vel að halda réttum kulda. Í stuttu máli þá lækkaði smátt og smátt talan á litla skjánum og frystivaran var að lokum ekki alveg nógu hörð fyrir minn smekk. Mér bauðst að skipta um skáp en meinið var bara að sá nýi var enn stærri en hinn! Og með enn stærri tölu á verðmiðanum en ég þurfti ekkert að borga af henni. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að slá til og ganga að skiptunum, þá þurfti "bara" að taka einn vegg og smíða annan til að lengja ganginn niðri á kostnað geymslunnar. Hljómar eins og ekkert sé. Eða þannig. Kjartan hjálpaði mér með veggina. 
Hér er nýi veggurinn kominn á sinn stað en eftir er að hækka gólfið í viðbótinni. Ég er búin að líma og kítta plast til að ekki fari raki úr nýrri steypu í timburvegginn og svo var að pússa gömlu veggina með helv. kalkinu, bera mygluvörn neðst á þá, kítta í samskeytin í asbestloftinu, bæta við skrúfum og sparsla nýja vegginn, bera á gamla gólfið og steypa og flota og flota ofan á það margsinnis, mála viðbótina í tveim litum, leggja tarketplötur úr Fjölsmiðjunni, bora og skrúfa gólflista, leggja rafmagn fyrir skápinn, búa til og mála snagaspýtu og svo framvegis og svo framvegis.
Ekki var hægt að stoppa þarna, restin af ganginum var orðin hreinasta hörmung þannig að það varð að halda áfram viðhaldinu.
Til dæmis varð að færa ljósin þannig að við Róbert Stefán fjarlægðum þau eins og ég talaði um hér.
Þarna sést að lagnirnar að ljósunum urðu ákaflega mikið nettari en hér sést líka að mikið af lögnum varð að láta eiga sig. Í þessu húsi er mikill hluti af vatns- og raflögnum seinni tíma viðbót og þar af leiðandi utanáliggjandi. Það er kannski kostur stundum þegar einhverju þarf að breyta, það þarf þá ekki að brjóta upp marga veggi og gólf, en að mála þetta. Ojbarasta.
Þessi gangur er eiginlega fyrirbæri. Fermetrarnir eru ekki margir en þetta eru endalaus horn og skot og dyr, rafmagnstafla og skápur undir stiga. Jafnvel er þarna eins og sést einhvers konar vísir að vegg á miðri leið, sennilega til styrkingar. Svo breytist þetta náttúrulega í stigagang og endar samkvæmt því á efri hæðinni.
Segjum þetta nóg í bili, framhald næst.