Mér gengur illa að losa mig við málningarpenslana. Nú eru búnir að vera á þvælingi innpakkaðir bakkar með málningu, pensli og rúllu drjúgan part af þessu ári. Ég get trúað ykkur fyrir því að það er hægt að geyma slíkt ósnert ótrúlega lengi í senn án þess að allt verði ónýtt. Það er aldeilis ekki þannig að ég sé búin að gera allt fínt í kring um mig. Ónei. Það eru þessi endalausu skot, kverkar, horn, hurðir, húnar, slökkvarar, handrið, þröskuldar, naglar, hillur og hvað það nú heitir allt saman. Ekkert nema hraðahindranir. Jú og svo hefur verið í ýmsu öðru að snúast á köflum. Um þessar mundir er það sjónvarpsstofan sem er undirlögð. Í þessu herbergi eru geymdar flestar bækur hússins, (alls ekki allar þó) tölvan, skrifstofudótið, slatti af garni og sitthvað fleira. Það er talsvert brambolt að færa draslið til og frá og mála dálítin kafla í einu. Þetta byrjaði náttúrulega út frá nýju gluggunum en hefur staðið til lengi.
Fyrst var það fjárans norðurveggurinn. Ég velti því svo sem fyrir mér að ryksuga hann bara vandlega og mála svo yfir allt draslið. En svo fannst mér það ekki hægt og skrapaði og skóf og pússaði og sparslaði. Daginn eftir að ég málaði seinni umferðina byrjaði hann að bóla upp.
Þetta er dýpsta holan. Hér byrjaði ég á að kítta, sparslaði svo yfir og gái hvussu lengi það klastur virkar, það sér ekki á því ennþá að minnsta kosti.
Annars er bara norðurveggurinn ónýtur og verður það áfram þangað til hann verður klæddur að utan. Ef hann verður klæddur.
Hér er svefnherbergishurðin standandi í tilgangsleysi úti í horni og hefur engar dyr. Þetta er bara eins og á fínheitasíðum útlenskum þar sem gamlar hurðir gegna allra handa hlutverkum en aðallega þó til skrauts. Þessa hurð hreinsaði ég fyrir mörgum árum og það stendur ekki til að það þurfi að sinna henni neitt meira á minni æfi.
Það þarf að skrúfa af rafmagnslok ýmis og mála meðfram gömlu gólf og loftlistunum.
Og hornum, kverkum og svefnherbergisdyrum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli