mánudagur, 31. desember 2012

83. Jólaboð

Ef ekki kemur blogg í hverjum mánuði hið minnsta skal ég hundur heita.
Hér áður var markmiðið að blogga daglega að meðaltali og það gerði ég lengi á gamla blogginu sem ég held að nú sé endanlega dáið og óínáanlegt. Mér finnst það sorglegt og missir fyrir menningarsamfélagið að svo mörg hugverk skuli barasta sisvona þurrkast út, ekki að það hafi verið mikill missir að ýmsu sem á blogcentral var, en sumt var þó alveg þess virði að varðveitast. Kannski er líka stundum missir í að ekki skuli komast hér inn allar bloggfærslurnar sem myndast flesta daga í huga mér en þar er ekki við neinn að sakast nema sjálfa mig og það er ekki gott. Alltaf þægilegra að geta kennt öðrum um.
Uppfært: ég prófaði af rælni að fara inn á gamla bloggið og það gekk! Þannig var það ekki síðast sko.
Hér var jólaboð. Þegar hópurinn er stór er alltaf erfitt að hitta á tíma sem öllum hentar en ég lét þá ráða mestu hvenær yngsta fólkið gæti verið með og það varð fimmtudagurinn 27. Markhópurinn er eiginlega fólkið sem kom alltaf saman hjá mömmu á jóladag en systkinini mín og þeirra afkomendur eru komin út um hvippinn og hvappinn og þeir sem hittast hjá mér um jólin eru oftar að meirihluta afkomendur okkar Agnars. Eins gott að við fórum ekki að reyna að hafa þetta núna um helgina eins og veðrið er búið að láta.
 Hér erum við nöfnurnar.
 Ég lagði á tvö borð í stofunni og þar sitjum við 17 saman og borðum heimareykt hangikjöt að gömlum sveitasið.
 Jóhann Smári og Elín Rut þurfa bæði að átta sig á því að það er ekki alveg víst að þau séu alltaf miðpunktur alheimsins.....
 Ég er ekki frá því að henni gangi það ívið betur eins og er, hvað sem verður síðar meir. Það er alveg snilld að sjá þessa líkamstjáningu unga mannsins þar sem hann segir svo greinilega að HANN eigi áreiðanlega bæði þennan pabba og ömmuróluna og bara svona umhverfið yfirleitt takk fyrir. Verst að henni virðist bara vera nokk sama!
Þetta eru náttúrulega bara snillingar eins og öll ömmubörn eru alltaf.
Þessi vetur ætlar áreiðanlega ekki að fara framhjá án þess að eftir verði tekið. Nú um daginn rigndi um stund og snjórinn sjatnaði aðeins en það sést ekki núna. Norðanhríðin lemur gluggana og svona leit þetta út þegar Agnar var að brasa við að komast að heiman áðan, þarna sést aðeins í efsta hluta veltigrindarinnar og púströrsins á dráttarvélinni eins og verið hefur lengst af í vetur, gerðið og stór hluti girðinga á kafi og undir öllu saman eru endalaus svell. Ákveðið áðan að aflýsa áramótamessunni annað kvöld sem er synd þar sem það er árlegt tækifæri mitt til að syngja þjóðsönginn raddað á fullu blasti. Svo að það sé alveg á hreinu er ég eindreginn fylgismaður þjóðsöngsins og tek ekki í mál að skipta.
Gleðilegt nýtt ár elskurnar mínar og ég set jólabréfið inn á morgun en stefni á að setja inn færslu á gamladagabloggið í dag.

mánudagur, 5. nóvember 2012

82. Gott mál??

Það var hringt í mig í kvöld frá SÁÁ. Stúlkan sagði að þau væru að safna undirskriftum og spurði hvort ég kannaðist við málið. Ég taldi það en bað hana þó að skýra það til öryggis. Hún sagði að verið væri að fara fram á að tiltekinn hluti áfengisgjalds verði settur í afar gott málefni sem hún tiltók. Segja ekki allir já við slíku? Ég spurði hana hvar ætti þá að skera niður á móti og hún hváði. Jú, ég sagði að væntanlega lægju þessir peningar ekki einhversstaðar ónotaðir, einhverju þarf þá að sleppa í staðinn? Hún hafði greinilega ekki verið búin undir svona spurningu og ég sagði að sjálfsögðu nei. Ég veit mínu viti en ég hef ekki hundsvit á því hvernig best sé að raða niður þeim fjármunum sem eru til skiptanna og veit það vel að fæstum finnst þeir fá það sem þeir "nauðsynlega" þurfa. Við kjósum fólk til þessara verka og ég öfunda þau alls ekki neitt. Ég get vel haft skoðanir á því hvað á að gera eins og allir hinir en ég get ekki tiltekið hverju á þá að sleppa og þar af leiðandi væri það afar óábyrgt að taka þátt í þessu. Ég er til að mynda afar mótfallin niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni svo dæmi sé tekið.
Verst að ég gleymdi alveg að spyrja hvernig farið er að ef maður segir já. Hvernig er tryggt að ég hafi gefið samþykki mitt ef nafnið mitt fer á plaggið?
Ég er mjög efins um þjóðaratkvæðagreiðslur og undirskriftasafnanir um málefni sem varða fjármál. Viljum við ekki öll borga minna og fá meira? Eða kannski bara flest?

laugardagur, 20. október 2012

81. Jurtafæði.

Við vorum fleiri á Hrafnagili en við mamma og Jakob, ég set bara yfirleitt ekki mjög margar myndir í hverja færslu. Jakob var nefnilega ekki einn á ferð, litla systir var með í för. Mamman leit af henni um stund.
Það er henni greinilega meðfætt að lifa á því sem landið gefur og njóta hollustunnar af því.
Ég er hrædd um að það séu fleiri en blessuð sauðkindin sem ráðast á skóglendið.
Áhrif birkis: Þvagdrífandi, bólgueyðandi, svitadrífandi, örvar lifrina og hreinsar blóðið. Arnbjörg Jóhannsdóttir.
Tíminn líður og síðast þegar hún var í sveitinni fékk hún sér sem oftar góðan dúr í gamla ömmuvagninum. Hér sýnir hún okkur allar hvítu perlurnar í munninum eftir blundinn.
Hún er farin að ferðast talsvert upp á eigin spýtur. Hér kannar hún aðstæður inni hjá afa,
kom sér síðan fyrir undir rúmi og kynnti sér nautaúrvalið á Hvanneyri.
Verið þið róleg, ég leyfði henni ekki að innbyrða neitt af nautablöðunum en eins og aðrir á hennar aldri er hún viss um að langbesta rannsóknaraðferðin sé að smakka og helst éta upp til agna sem flest. Bara svo sjaldan sem fullorðna fólkið skilur það.
Ég minni á að til að stækka myndirnar smellirðu á þær, "skógar"myndirnar njóta sín betur þannig.

miðvikudagur, 17. október 2012

80. Í gamla daga.

Nú er snjóföl á jörðu svo að það er best að blogga um góðviðrisdag í sumar. Ég fór að Hrafnagili og var gamladagafólk.
 Ég var með vitlausu snældu eða vinglu og spann hrosshár. Fyrst er að tæja það niður í svolitla hrúgu. Ég geri það venjulega niður á gólfið en þarna var gola svo ég mátti ekki hafa fallið hátt.
 Svo er að vinda það saman,
 festa vindilinn á nagla á borðinu og spinna.
 Þráðurinn er svo smátt og smátt undinn í rjúpu utan um annað prikið á vinglunni og hér er ég farin að tvinna úr tveimur rjúpum.
Mamma var með halasnældu og ull. Á myndinni er líka kljásteinavefstaður.
 Jakob kom að líta á okkur og var óðara dubbaður upp í viðeigandi klæðnað. 
 Hann kastaði hækjunum og greip exi í staðinn og hóf að höggva í eldinn.
Ýmsar aðferðir reyndar.
Nú er hægt að kynda undir pönnunni.

sunnudagur, 30. september 2012

79. Úr fönn

Nú á föstudaginn smöluðum við og rákum inn allt okkar fé sem heima var og fórum nákvæmlega í gegn um það og merktum við hvað væri á vísum stað og vigtuðum öll lömbin eins og við gerum alltaf á haustin. Niðurstaðan er sú að okkur vantar 3 ær og 7 lömb sem ekkert hefur spurst til og 2 gimbrar sem fundust dauðar skömmu eftir hvellinn. Þetta eru 6,2 % af því fé sem hér var í vor. Það er vel hægt að vonast eftir að eitthvað skili sér enn, en líkurnar minnka vissulega með hverjum deginum. Staðan hér er alls ekki svo slæm miðað við marga aðra bæi en ein er hver ein og lakast að vita að kindur eru að dragast upp í sköflum einhverstaðar og einhversstaðar. Það verður að líkindum óskemmtilegt að fara um afréttinn þegar snjóa leysir næsta vor.
 Þetta er gimbrin sem fannst þegar verið var að tryggja aðhaldsgirðinguna í fyrstu leitum, henni þótti óviðfeldið þegar var verið að reyna að setja niður girðingastaur í skaflinn nákvæmlega þar sem hún var svo að hún þaut burtu um leið og losað var um snjóinn með skóflu. Náðist nú samt greyið.
 Þessi mátti dúsa lengur. Núna á miðvikudaginn, 16 dögum eftir að veðrið var verst var hann grafinn upp úr holu en þar voru ásamt honum þrjár kindur dauðar. Hann er vel sprækur núna en manni finnst hann lítið vera annað en horn og ull. Hann var 23 kíló en meðalvigt allra lambanna var 38,5 kíló þannig að ekki er ósennilegt að þriðjungur hans hafi beinlínis horfið. Að kvöldi þessa sama miðvikudags fengum við annan lambhrút sem er svipaður að þyngd og greinilega búinn að dúsa jafn lengi í fönn en hann var svo ráðvilltur greyið að hann þaut beint út í myrkrið þegar átti að afhenda hann hér á hlaðinu og kom ekki í leitirnar aftur fyrr en smalað var á næsta bæ í gær. Hann missti því af vigtun og má líklega einu gilda. Þessir tveir fá að lifa árið í viðbót enda ónothæfar afurðir eins og það heitir.
Þessi var hins vegar líklegast aldrei föst í snjó, þetta er forystuærin hún Flekka en henni hentaði ekki að vera samferða stærsta hópnum heim í réttirnar en kom bara á eigin vegum skömmu síðar og lét eins og ekkert væri.
Uppfært samdægurs:
Áðan var okkur færður þessi lambhrútur sem fannst í gær. Ekki gott að segja hvort hann var grafinn upp eða slapp sjálfur en augljóst að hann hefur verið í fönn fram undir þetta og ekki einsamall því að búið er að éta af honum ull á báðum hliðum og að framan. Ótrúlega vel á sig kominn greyið og ákaflega velkominn því að hann er af eðalættum eins og kannski fleiri lömb hér ef marka má orð bóndans.
Með honum í för var merki úr dauðri á sem fannst líka í gær þannig að þar með vitum við um þrjú dauð og 8 sem vantar fregnir af.

föstudagur, 28. september 2012

78. Haust

Það er komið haust. Ég get haft til marks um það að ég er farin að selja slátur og verð í því tæpar þrjár vikur. Annars er það sápa sem ég er með í hausnum núna vakin og sofin. Þegar ég er ekki að hugsa um kindur sem eru fastar í snjó og líður ekki vel. Á leiðinni heim úr sláturhúsinu á miðvikudag staldraði ég við og tíndi einiber. Sem eru ekki ber heldur könglar í dulbúningi. Þau eru græn til að byrja með en í lok annars sumars byrja þau að blána.
Ég ætla að nota berin sem eru ekki ber í sáputilraunir. Meira um það seinna.

mánudagur, 17. september 2012

77. Réttirnar

Þessi þarna sem er næstum hætt að blogga bara komin með þrjú blogg í dag!
Ég held bara að það sé best að hafa samhengi í þessum færslum. Ég hef undanfarna daga ekkert verið neitt viss um að það verði nothæf stemning eða veður í réttum til að vera þar með litla krakka og kakó. Þegar nær dró varð ljóst að takast myndi að rétta á áður ákveðnum degi og með þokkalega hefðbundnum hætti. Við ákváðum þó að vera ekkert að leggja það á féð að reka heim eins og venjulega svo að við vorum ekki með neina hesta en það hefur venjulega verið hápunkturinn að reka heim og skiptast á að fá að fara á bak.
Veðrið er búið að vera frekar ömurlegt mestalla vikuna og núna í morgun er búið að vera slagviðri sem er mokandi snjókoma í Mývatnssveit. Væntanlega er það þá líka á Þeistareykjum. Virðist vera að skána eitthvað í bili, en framundan er spáin svipuð. Veit ekki hvernig leit verður hagað á næstunni en það er vitað mál að margt er enn uppfrá og sumt í fönn.
Svo fór að með okkur í kring um Norðurhlíðardilkinn voru 26 gestir :). Þar af helmingur á grunnskólaaldri og yngra. Ég var myndavélarlaus enda upptekin við að skrá allt sem fór inn í dilkinn en sem betur fer voru sumir aðrir duglegri og ég fékk nokkrar lánaðar.
   Hér er minnsta manneskjan, hún Elín Rut að hjálpa föður sínum að koma gimbur í dilkinn. Hún reddar þessu alveg.
 Jóhann Smári er líka alltaf að verða brattari innan um skepnur sem honum hefur verið lítið gefið um fram undir þetta. Líka munur að fá kleinu.
Það eru mörg ár síðan allir synir mínir hafa komið í réttirnar. Hér er Ingimundur að tala litlu systur Ívans eitthvað til.

 Breiðir réttarveggir geta komið sér vel.
Hér er líklega fjárdrætti að verða lokið og fólk í almenningnum orðið talsvert fleira en féð.
Það er líkast til mun betri hagi í dilknum en féð hefur átt að venjast undanfarið. Flutt var hey til þeirra meðan beðið var heimferðar á fjöllum.
Rölta saman tveir góðir. Forystulambið leiðir auðvitað.
Hugað að heimflutningi. Menn komu með tvær öndvegis hestakerrur til að flytja heim.
Yngsta fólkið hvíldarþurfi og þá er nóg pláss í ömmu og afa holu.
Okkur telst svo til að hér vanti líklega ennþá 25 eða 6 kindur af 132 sem fóru á fjall í sumar. Auk þeirra hafa fundist tvær gimbrar dauðar.
Takk fyrir myndirnar Elsa, Alma og Róbert Stefán.

76. Daginn áður

Já, eins og fram kemur í færslunni hér á undan er alveg grundvallaratriði að eiga margar margar kleinur um réttirnar. Reyndar er ekki alltaf dekrað þannig við fólk þegar það kemur til byggða með safnið en flest er nú öðru vísi í sambandi við göngur og réttir hér þetta árið. Héðan fóru semsagt í býtið á laugardagsmorgun búfræðingur, fjölmiðlafræðingur, byggingafræðingur, sálfræðingur og læknir til að taka þátt í koma fénu til réttar. Á hvunndagsmáli voru þetta maðurinn minn, tengdadóttir, sonur, systir og hlaupafélagi hennar. Agnar ók þeim uppeftir og aðstoðaði á meðan verið var að leggja af stað með reksturinn og kom síðan akandi heim aftur. Ég hélt mig heima með ömmustrák og hófst fljótlega handa við kleinugerð í stórum stíl.
 Reynslan hefur kennt mér að skynsamlegast er að hafa réttakleinurnar litlar og nettar enda er stór hluti okkar réttagesta ungur að árum.
 Þetta urðu líklega einir fjórir svona baukar af stærstu gerð.
 Við afi og Jóhann Smári fórum til móts við hersinguna með kakó, kaffi, smurt brauð og kleinur handa sjálfboðaliðunum okkar upp úr hádeginu. Því miður virðist ég ekki hafa álpast til að taka almennilega mynd af okkar fólki en þarna eru þessi þrjú úr fjölskyldunni í vestunum.
 Agnar tók mynd af forystusauðnum sínum honum Demanti en hann mun heldur betur hafa lagt sitt af mörkum við smölunina í vikunni. Menn sögðu Agnari að þegar þeir voru að tína saman kindur sem illa gekk að koma áfram gripu þeir sauðinn úr kerru og hann leiddi svo hópinn eins og ekkert væri.
Hér hann með litla bróður sínum en mamma þeirra hefur ekki skilað sér ennþá því miður. Hún gæti þó alveg átt eftir að koma en það er óneitanlega tortryggilegt að forystuær fylgi ekki lambinu sínu heim.

Uppfært: Forystuærin er komin heim!! Þær voru samferða tvær forystuær og  brunuðu til byggða á eigin spýtur.

75. Frá Fríðu

Hér er bloggfærsla frá systur minni en hún er með læst blogg þannig að ekkert þýðir að vísa í það. Ég fékk þá bara heimild til að afrita færsluna hingað, mér finnst hún sýna vel sjónarhorn þátttakenda í þessu sem hæst hefur borið í umræðunni hér um slóðir undanfarið.
Ella.


Rekstur

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum að síðustu vikuna hefur veðrið hagað sér stórundarlega hér á klakanum.  Það fór að snjóa á mánudaginn fyrir tæpri viku, svo gríðarlega að snjó festi í byggð um mestallt Norðurland og á fjöllum fennti fé í kaf.  Og í Mývatnssveit.  Og á Þeistareykjum.  Þessar kindur eru ekki vanar því að geta bara leitað niður til byggða þegar veðrið versnar eins og hér í Eyjafirðinum og það átti jú eftir að fara illa.  Ég segi kannski ekki að þetta hafi endað með ósköpum, það á í rauninni eftir að koma í ljós hvernig þetta endar.  

Maður var búinn að fylgjast með fréttum af þessu og horfa á myndir af fólki grafa kindur úr fönn og langa til að hjálpa til.  En maður þurfti líka að vinna og brasa í þessu daglega lífi svona í miðri viku og maður eiginlega fylgdist bara með svona frekar aðgerðalaus.  En svo þegar systir sendi út tölvupóst á slatta af fólki þar sem kom fram að reka ætti safnið frá Þeistareykjum niður í rétt í gær, laugardag og það vantaði helling af fólki sem gæti gengið þessa 15 kílómetra, þá sagðist ég strax ætla að koma og var nokk sama þótt ég væri búin að lofa mér annað, ég aflýsti því bara.  Og svo skrifaði ég á facebook síðu Eyrarskokkara: Eru einhverjir fílhraustir Eyrarskokkarar til í að koma með mér í göngur í Aðaldalnum eldsnemma í fyrramálið. Bændur eru vanir að fara þetta á hestum, en það þarf að reka féð frá Þeistareykjum og niður í byggð og nú duga hestar engan veginn í þetta. Menn verða að fara fótgangandi. Það stendur til að búa til slóð með jarðýtu sem féð verður svo rekið eftir. Við erum að tala um að leggja af stað í nótt kl. hálffjögur frá Akureyri og síðan á að byrja að smala um 6. Það þarf að ganga (ekki hlaupa, féð þolir ekki að farið sé of hratt yfir) minnst 15 kílómetra í blautum snjó í rigningu. Og ekki er verra að fólk hafi eitthvað fengist við sauðfé. Hinsvegar er skilyrði að kunna að búa sig fyrir svona aðstæður (legghlífar, hlý föt, regnfatnaður o.s.frv...). Ég get tekið 3 með mér í bílnum.

Nokkrir svöruðu um hæl að þeir myndu vilja koma en gætu það ekki að ýmsum ástæðum.  Á endanum lögðum við Siggi af stað frá Akureyri klukkan hálfsex í gærmorgun, en tímasetningunni var seinkað um 90 mínútur.  Við vorum komin í Norðurhlíð klukkutíma seinna, þar var farið beint yfir í annan bíl ásamt Kjartani, Elsu og Agnari og keyrt áleiðis upp að Þeistareykjum þar sem safnið var í hólfi og beið.  Það var tilkomumikil sjón að sjá allar þessar kindur þarna í snjónum.  Maður hafði einhvernveginn búist við að þær væru eitthvað aumingjalegar en svo var nú ekki.  

Nú, svo var beðið svolítið eftir að allt fólkið skilaði sér þarna uppeftir og svo fengum við Agnars fólk það hlutverk að vera framarlega, meðfram safninu vinstra megin við það og helst áttum við að geta fylgt fyrstu kindum eftir.  Við áttum að gæta þess að kindurnar héldu sig á veginum þar sem hann var og ofan í jarðýtuslóðinni sem var búið að ryðja í snjónum þarna í gegn um fjöll og firnindi.  Þannig að við fórum og röðuðum okkur þar upp, svona með því millibili sem við álitum heppilegt.  En það kom nú fljótt í ljós að forystufénu lá þvílík reiðinnar ósköp á að maður þurfti að hlaupa eins hratt og maður gat þarna úti í snjónum.  Og við höfðum samt ekki við þeim.  En svo var nú stoppað einum fimm sinnum á leiðinni til að þétta hópinn og hvíla fólk og fé, sem var mjög misfrátt á fæti. 




 Það voru oft fullorðnar ær sem sneru vitlaust og fóru gegn straumnum jarmandi hátt.  Maður skilur það, þær voru að leita að lömbunum sínum.  En þótt þær gerðu þetta hafði það lítil áhrif á framgang mála.  Það var verra þegar forystuféð var ekki sammála og dreifði safninu.  Það gerðist bara fyrst, nokkrum sinnum, en svo var líka eins og kindurnar áttuðu sig allar á því til hvers var ætlast og þetta bara gekk eins og smurt.
 Það voru nokkur fjór/sexhjól og vélsleðar með í þessu og fólk fékk stundum far með þeim framar.  Ég gerði það nú aldrei, en Elsa segir að Kjartan hafi alltaf verið að því.  Á milli þess sem hann henti snjókúlum í fólk og fé.  Það var fyndið að sjá þannig aðferðir við smalamennskuna, hann var ekki einn um að henda snjó í kindurnar þegar þær voru að þvælast einhversstaðar þar sem þær áttu ekki að vera.  Þær tóku nú alveg mark á því.  Ég sjálf persónulega vil frekar segja þeim hvað þær eiga að gera.  Það hef ég alltaf gert og kindur og hundar og börn taka alltaf mark á því sem ég segi, jafnvel þótt aðrir reyni að halda því fram að þau skilji ekki mannamál. Kindurnar hlýddu líka þegar ég veifaði göngustöfunum mínum sem ég var með allan tímann.  Það var mjög fínt að hafa þá.

 Þarna stóð ég lengi upp á hól og beið, ég vissi að þegar ég kæmi niður á veg þyrfti ég að bíða ennþá lengur því það hafði teygst svo gríðarlega á safninu.  Ella hafði sagst ætla að koma þangað með kakó og kleinur og maður náttúrulega hlakkaði til þess, en ég vissi að hin þrjú úr Agnars liði voru svo langt á eftir mér að mér fannst kurteislegt að hinkra aðeins.  Manni varð ansi kalt af því að bíða svona, en það voru nokkrar klukkutíma pásur á leiðinni.

Allt í allt varð þetta meiriháttar lífsreynsla.  Stemmingin hjá fólkinu var frábær og ég held að öllum hafi verið létt að ná svona mörgum kindum á lífi.  Jafnvel þótt það hafi ekki verið nokkur leið að telja þetta.  Það voru merkilega fáar sem þoldu ekki gönguna og flestum þeirra var safnað á vagn bara strax í byrjun dags.  Annars kom það svolítið af sjálfu sér að kindurnar fóru á þeim hraða sem þeim hentaði.  Og ég er alveg viss um að þær vissu vel hvað var í gangi og þær vildu bara komast sem fyrst niður í byggð og gróður sem ekki var þakinn af snjó.

Já, og kannski maður klykki út með sögunni af Agnari sem hafði hér í fyrradag verið falið það verk að girða þar sem snjóskaflar náðu yfir girðinguna í hólfinu uppfrá.  Hann mætti á staðinn staura og net og ætlaði að lemja staur ofan í snjóinn, en þar var einhver fyrirstaða og sama hvað hann reyndi, staurinn hoppaði bara upp aftur.  Og þegar betur var að gáð, þá var þar undir gimbur sem náðist svo sprellifandi upp úr snjónum. Gimbur sem Agnar átti sjálfur!

föstudagur, 31. ágúst 2012

74. Lítil lungu

Sjáið bara hvað ég á fínt!:
http://www.mbl.is/folk/ljosmyndakeppni/mynd/17259/
Ég á sko bæði ljósmyndarann og fyrirsætuna, veit ekki með biðukolluna.

sunnudagur, 22. júlí 2012

73. Langferðalög.

Fyrir ekkert svo óskaplega löngu síðan rakst ég á grein í Bændablaðinu um keppnina Ull í fat. Þar kom fram að til stæði að halda hana á Hvanneyri á safnadaginn þann 8. júlí. Nú jæja, þetta var ekki langur fyrirvari en ég hafði umsvifalaust samband við okkar lið, Norðanvindur og spurði hvort við yrðum ekki áreiðanlega með? Því miður reyndust vera allnokkur afföll enda margir á faraldsfæti á þessum árstíma. Ég tilkynnti samt þátttöku og til að gera langa sögu stutta voru sorglega dræmar undirtektir víðar þannig að það endaði með því að liðin voru höfð fámenn eða aðeins tveggja manna í stað 4-5 sem oftast er. Við skröpuðum saman í tvö lið sem kölluðust þá Norðaustanvindur og Norðvestanvindur.
Nú kom það upp að föðurbróðir minn féll frá og við ákváðum að fara að jarðarförinni á Ísafirði, ég, tveir bræður mínir og mamma.
Á fimmtudegi plantaði ég fjólum í blautan mosa í þessari körfu og ók til Akureyrar eftir vinnu. Þaðan héldum við mamma svo áfram um kvöldið á hennar bíl og léttum ekki fyrr en í Bitrufirði á ströndum en þar hafði okkur verið útveguð næturgisting. Snemma að morgni föstudags komu svo bræður mínir akandi frá Reykjavík og gripu okkur með til Ísafjarðar. Þangað var gott að koma og við höfðum svolítin tíma til að rölta um gamlar slóðir en ég bjó þar í nokkur ár. Jarðarförin var svo klukkan tvö og fór vel fram enda góður maður kvaddur eftir langa ævi. Afskaplega gott að hitta margt skyldfólk og veðrið lék við okkur.
 Ekki var til setunnar boðið því bræður stefndu alla leið til Reykjavíkur um kvöldið en við mamma sváfum aftur í Bitrufirðinum þar sem hún treysti sér ekki í lengri dagleiðir. Þykir kannski engum mikið þar sem hún er komin á níræðisaldurinn. Eftir morgunverð á laugardag ókum við svo líka suður á bóginn og beint í Handverkshúsið þar sem var dálítið verslað enda ekki orðið um auðugan garð að gresja á landsbyggðinni ef mann vantar íhluti í handverkinu. Svo fórum við í Kópavoginn og þaðan ásamt fleirum í Garðakirkjugarð til pabba þar sem við reyttum og tættum um stund. Nú var mál að slaka á en morguninn eftir fékk ég far með henni Maríu að Hvanneyri og eftir góða kjötsúpu var hafist handa. Verkefnið var að spinna og prjóna sjóvettling sem átti að vera af tiltekinni stærð, með munsturbekk og að sjálfsögðu tvíþumla.
 Þetta eru Norðaustanvindur og af einhverjum ástæðum hittir ljósmyndarinn á mig alveg grafalvarlega en það var nú aldeilis ekki þannig allan daginn get ég fullyrt. Við háðum þarna harða keppni við Ullarselskonur og við Maja vorum fyrstar en margt er tekið með þegar dómnefnd ákveður sig og Norðvestanvindur sigruðu.
 Það þýðir náttúrulega bara að við Norðanvindurnar sjáum um að halda næstu keppni og þá skal verða tekið á því. Síðast þegar við sáum um hana náðum við saman 24 keppendum.
Hér er afrakstur dagsins og meiga allir bara vel við una. Við Jenný gistum svo um nóttina í gamla bændaskólahúsinu og það var gaman. Fyrst fórum við þó í kynnisferð um Borgarfjörðinn þar sem Jenný réði för. Fyrst lá leiðin í Hespuhúsið þar sem Guðrún Bjarnadóttir litar band og þar var ekki vandi að láta tímann líða. Eftir það ókum við upp allan Lundareykjadal til ættingja Jennýar og þar með var dagurinn fullnýttur.
ég held svo að næst þegar ég sest hér verði ég að setja færslu á gamladagabloggið. Sjáumst þar bráðum.