föstudagur, 22. febrúar 2013

91. Sjokk



Þetta er á Skemmunni:
Slit á fremra krossbandi er með alvarlegri hnémeiðslum sem hægt er að verða fyrir. Í kjölfarið getur hnéð farið að hafa mikil áhrif á daglegt líf einstaklinga í langan tíma á eftir, jafnvel það sem eftir er ævinnar. Við þetta bætist sú staðreynd að auknar líkur eru á að greinast með slitgigt síðar á lífsleiðinni. 

Sjá hér:

http://hdl.handle.net/1946/11715


og þetta er á doktor.is:

    Þegar bólga í hnénu og verkirnir hafa minnkað er rétt að byrja sjúkraþjálfun, sem miðar að því að styrkja vöðvana umhverfis hnéið sem auka þannig á stöðugleika liðarins og að ná eins góðu hreyfiferli og mögulegt er. Við rof á fremra liðbandinu rifna einnig taugaendar sem hafa það hlutverk að nema stöðuskyn og eru okkur því nauðsynlegir til þrívíddarskynjun sé í lagi. Þessir taugaendar vaxa aftur og góð sjúkraþjálfun hjálpar til svo þeir nái að gegna hlutverki sínu aftur. Spelkur eru notaðar til að auka á stöðugleika í hnénu, þessar spelkur þarf að sérhanna fyrir hvern einstakling. Í þeim tilfellum þar sem sjúkraþjálfun og spelka duga ekki og valda því að einstaklingi með slitið krossband finnst vandamálið hamla því að hann geti tekið þátt í þeim daglegu athöfnum eða íþróttum sem hann hefur hug á, er rétt að huga að aðgerð.

Sjá hér:
http://doktor.is/index.php/component/content/article/90-sjukdomar-og-kvillar/167-averkar-a-fremra-krossbandi.html

og ég er í rusli.

Í dag vildi svo heppilega til að einhver afboðaði sig í sjúkraþjálfun og ég fékk tímann, tekin voru mál fyrir stuðningsspelku og ég lærði nokkrar æfingar. Líklegt að tími frá vinnu verði ekki undir 2 mánuðum og ég læt ógert að keyra sjálf næsta mánuðinn. Ég tautaði eitthvað að líklega myndi ég ekki krjúpa mikið við burðarhjálp á næsta sauðburði og hún leit upp og aftók slíkt með öllu.

fimmtudagur, 21. febrúar 2013

90. Svo bregðast krossbönd....

Slitið fremra krossband, mar á endum sköflungs og lærleggs  og einhver tognun í kring. Takk fyrir.

þriðjudagur, 19. febrúar 2013

89. Sterk bein til að þola góða daga

Hér erum við systkinin stödd á ættarmóti árið 1996. Við stöndum í aldursröð og erum fædd á árunum 1952 til 1973. Einn bróðir lést árið 2000. 
Mér telst svo til að samtals höfum við lifað um það bil 413 ár, og á þeirri "ævi" aðeins brotið einu sinni bein svo ég viti! Það var þegar Yngvi bróðir stakkst af hestbaki þegar hann var krakki og handleggsbrotnaði.
Uppfært 18.03.12.: Jói var að segja mér að hann hefði einu sinni brotið bein í hendi. Þá var hann í vinnunni en ekki að gera neitt af neðantöldu.
Þetta er samt áreiðanlega alls ekki vegna þess að ekkert reyni á, því að þetta lið hefur löngum verið upp um allt og út um allt, ýmist labbandi, hlaupandi, hjólandi, skíðandi, klifrandi, róandi, syndandi, stökkvandi (í fallhlíf) eða dansandi. Þetta síðasttalda er reyndar það sem ég nenni helst þó að ég hafi svo sem prófað allt hitt í mislitlum mæli nema fallhlífina. Ónafngreindir fulltrúar þessa hóps hafa til að mynda þverað landið á skíðum, hjólað á Öræfajökul, hlaupið víða um lönd svo dægrum skiptir, klifið Hraundranga, farið á kajak með ströndum landsins, klifrað upp og ofan ísaðar klappir með tilheyrandi búnaði og svo framvegis.
Ég dreg þá ályktun að hér vinni saman góð beinagen, hreyfing og mjólk. Á okkar bernskuheimili fóru nokkrir tíu lítra mjólkurkassar á viku á meðan kaffi sást ekki nema ef komu gestir.
Þetta beinalán virðist hins vegar ekki hafa skilað sér eins vel til afkomenda minna þar sem eldri helmingur þeirra hefur eitthvað brotið af sínum beinum.
Best að reikna saman hvað afkomendur mínir 8 eru gamlir samtals......
147,5 ára! 

sunnudagur, 17. febrúar 2013

88. Svo liggur hver sem hann hefur um sig búið

Um þessar mundir eyði ég langmestum tíma mínum í rúminu með háttsettan fót. Til þess að útbúa viðunandi aðstæður þarf ég að lágmarki 8 kodda. Svona lítur rúmið út þegar ég hef náð að brölta fram úr á morgnana. 
Hérna er ég svo búin að koma öllu í lag til að skríða upp í aftur; 4 koddar undir vinstri fót, einn til að hagræða hægra fæti, - það er jú ljótt að skilja útundan - að minnsta kosti þrír koddar að baki ef ég ætla vera eitthvað með gömlu þungu fartölvuna hans pabba og þarna sést líka kexpakki í glugganum en það er víst skynsamlegt að éta eitthvað með öllum þessum pillum sem ég hef verið að innbyrða.
Ég er alveg háð öðrum með vatnið á náttborðinu á meðan ég róta mér ekki um nema á tveimur hækjum. Ég er eitthvað á róli á daginn svona þegar ég verð hvort eð er að fara framúr til að brölta á klósettið sem staðsett er á neðri hæðinni. Það gengur alveg, tekur bara tíma. Ég get líka látið fara þokkalega um mig við sjónvarpið með fótinn uppi en það geri ég ekki að neinu gagni við borðtölvuna. Þar er ég því ekki mjög lengi í senn en fattaði í gær að til að geta bloggað í rólegheitum væri sniðugt að setja inn myndirnar í aðaltölvunni og dunda svo við textann við tækifæri í rúminu og nú er ég sem sagt að því.
Í kvöld eru liðnar tvær vikur síðan ég datt og ég hef farið þrisvar út úr húsinu; tvær ferðir á heilsugæsluna á Húsavík og í gær að syngja við jarðarför og í erfidrykkju á eftir. Það gekk allt vonum framar en ansi var ég orðin rauð í vinstri lófa þegar ég kom heim af því að hanga á hækjunni. Á morgun á ég svo tíma í segulómun á Akureyri og eftir það verður kannski hægt að fara að spá um framhaldið. Við þykjumst vita að liðband sé að minnsta kosti tognað, hugsanlega slitið og liðpúði skemmdur með einhverjum hætti.

Mér gefst nægur tími til að hugsa og eitt af því sem ég hef gert mér glögga grein fyrir, er hvað þarf margar smáar en mikilvægar hreyfingar til að koma sér þægilega fyrir í rúmi. Það gildir þar eins og annars staðar að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Ég hef  fundið sárt til þess undanfarið að hafa ekki getað sofið í minni aðal stellingu en hún mun kölluð fósturstelling. Hún er langskárst þegar ég er vond í baki. Ég segi að ég sé nú orðin eins og skilyrt rotta sem búið er að kenna með rafstraumi hvaða hegðun er röng. Það gengur furðanlega að venja mann af ósjálfráðum hreyfingum með logandi sársauka. Ég finn hinsvegar ekkert til í fætinum ef ég hef frið í "réttum" stellingum. Í morgun þegar ég rumskaði varð mér fyrst fyrir eins og venjulega að reyna að hnika mér eitthvað til, eftir að hafa verið á bakinu nokkra klukkutíma. Það gengur þannig fyrir sig að ég mjaka mér ofurgætilega til vinstri og um leið þarf að snúa fætinum varlega ofurlítið með handafli. Svo eftir að hafa hallað efri partinum til hægri er að reyna að snúa mjaðmasvæðinu líka - með handafli að hluta -, en það verður að gerast án þess að hnjáliðurinn taki eftir því og þar strandar málið venjulega. Ef Agnar er á sínum stað og vakandi hef ég fengið að toga í hann og svo er að skella einhverjum púðanum við bakið til að ekki rúlli allt til baka. Í morgun komst ég hins vegar alveg upp á eigin spýtur alla leið á hliðina!! Og gat líka dregið að mér vitlausa fótinn og sett þykkan kodda á milli hnjánna (því þeim kemur afleitlega saman hnjánum á mér við þessar aðstæður). Og þarna lá ég svo himinglöð og fann barasta ekkert til! Helst langaði mig til að hrópa húrra en það hefði tæplega fallið í kramið því að það voru þrjár sofandi manneskjur í húsinu. 

fimmtudagur, 14. febrúar 2013

87. Hált á svellinu

Fleirum verður hált á svellinu en okkur tvífætlingunum.
 Nágranni okkar kom í gær til að hjálpa bóndanum við heyrúllur. Hann átti leið yfir túnið en á túnum eru víða hrikalegir svellbólstrar. Næstum efst hafði vélin ekki lengur grip og rann af stað og þá varð ekki við neitt ráðið. Þegar hún hitti fyrir vegarkantinn skall hún á hliðina. Eins og sést var snjóföl yfir allt og ekki sést eins vel hvar svellin eru verst. Látið mig vita það. Ég veit þó ekki hvort það hefði neinu breytt í þessu tilviki.
 
 Hér er komin önnur vél sem heldur á brott eftir að hafa athugað aðstæður.
Þegar nokkuð var farið að skyggja kom öðruvísi og öflugri vél en það dugði þó ekki til, enda undirlagið hallandi svellbunki svo að betra er að fara að öllu með gát.
Hérna heldur stóra dráttarvélin öllu í skefjum á meðan gula vélin lyftir hinni föllnu á hjólin. Hún var svo dregin upp á heimreiðina og rennt niður á jafnsléttu á meðan stóra systir hélt við. Það er víst ekki sniðugt að setja í gang eftir að vél er búin að vera á hvolfi um hríð.

fimmtudagur, 7. febrúar 2013

86. fótverkur

Í dag sá ég sólskin inni í húsinu mínu í fyrsta sinn síðan í nóvember. Jákvætt og skemmtilegt. Annað skemmtilegt var að vera í afmælisveislu ársgamallar ömmustelpu á föstudaginn var.
 Hér hlusta þær mæðgur á stórabróður segja eithvað gáfulegt.
 Fullorðna fólkið virðist alltaf vera að týna einhverju og nú spyr það barnið stöðugt um týnda líkamsparta, hér er verið að sýna Mörtu hvar nefið á henni er. Ég vek sérstaklega athygli á hárgreiðslunni!
Svo þurfti að frussa svolítið á kerti. Barnið hálfsá nú samt eftir þessu fína ljósi. Þarna er hún búin að hafa fataskipti, "einhver" sullaði víst kjötsúpunni á fína kjólinn.
Daginn eftir var svo þorrablót og það var mjög gaman, ég dansaði helling og söng eins og mér sýndist og spjallaði við fólk í hávaða og fann bara ekkert til í hálsinum daginn eftir!!! Aldeilis frábært. Sunnudagurinn var letidagur og þar var ekki fyrr en um kvöldið sem ég drattaðist aðeins út til að hjálpa til við að koma hrossunum inn, en þau muna illa hvar girðingarnar eru undir snjónum. Úti var glerhált og komin ný snjóföl ofan á svellið. Mér leist afar illa á þetta og steig ofurvarlega þar sem ég giskaði á að væri gamall skafl undir en ég giskaði vitlaust.
Nú er ég í fyrsta skipti á ævinni búin að nota bæði hjólastól og hækjur og það er ekkert sérstaklega gaman að vera til. Ekkert fannst brotið en líkast til er tognað liðband og rifinn liðþófi í hnénu og ég ligg mest með hátt undir fætinum og les eða góni út í loftið og rifja upp eitthvað skemmtilegt svona á meðan bakið drepur mig ekki. Ef ég hreyfi fótinn örlítið vitlaust er það logandi sárt en á meðan ég hef frið finn ég ekkert til. Get borið mig um á hækjunum með ýtrustu gát. Ét pillur og nota kaldan bakstur. Á að fara aftur til læknis á mánudag til að athuga hvernig hefst við og líklega mynda aftur.
Athugið samt að það er fullt af skemmtilegu í þessari færslu.