laugardagur, 31. mars 2012

57. Upphafið

Leikritið Í gegn um tíðina hefst á því að sungið er gamalt og gott lag ættað úr Reykjadalnum; Við gengum tvö.
Á meðan dansa verðandi hjón í Gröf. Þetta gæti hafa gerst einhvern tíma á fjórða áratugnum.
Svona líta þau út hjá okkur á yngri árum.

miðvikudagur, 28. mars 2012

56. Hárið

Hárið er mikilvægur þáttur í leikgerfi og segir talsvert um tíðarandann. Til að ég geti haft þá greiðslu sem ég kaus í leikritinu varð ég að gera svo vel að sleppa því að fara í klippingu um tíma. Það finnst mér afleitt því að hárið á mér ber hreint ekki neina sídd. Þetta var fúlt þegar ég var að reyna að koma peysufatahúfunni sæmilega fyrir á hausnum á mér fyrir skírnina.
Já, hún Guðfríður er með fléttuna sína í hnút, tilbúin í réttirnar. Ártalið gæti verið + - 1960.
Þetta er hins vegar í alvörunni.

sunnudagur, 25. mars 2012

55. Á Sigló

Ekki var nú sama hvernig stúlkur klæddu sig í síldinni. Aðbúnaðurinn var ekki sérlega burðugur og þætti nútímastelpum líklega lítið til þvottaaðstöðunnar koma, bæði hvað varðaði fólk og föt. Þess vegna skipti það enn meira máli að hafa þokkaleg hlífðarföt til að ekki þyrfti mikinn tíma til að hafa sig til á ball strax og söltun lauk.
Hér eru þrjár síldarstúlkur með litskrúðuga höfuðklúta (gert með vilja til mótvægis við ljósa klúta heyvinnustúlkna) sem bundnir eru upp og fram og þær eru ballklæddar innan undir til að spara skiptitíma. Síldarsvuntur voru höfuðverkur en einhver hélt að þær fengjust ef til vill hjá Leikfélaginu á Húsavík. Þegar til kom voru það bara bráðvenjulegar frystihússvuntur og það dugði mér ekki. Ég hafði því samband við Síldarminjasafnið á Siglufirði og þar var bara alveg sjálfsagt að lána okkur fimm stykki. Gleði gleði. Ég skipti svo út ljótu grænu plastsnæri og ónýtu snæri fyrir alvöru snæri og saumaði saman rifu og setti nýja smellu þannig að þau tapa ekki á að vera okkur góð :)
Eins og glöggir lesendur sjá leika þessar stelpur líka diskógellur.

laugardagur, 24. mars 2012

54. Út í heim

Snemma í leikritinu sendi ég tvær elstu dæturnar út í heiminn. Önnur fer til föðursystur sinnar á Sigló í síld en hin til móðursystur í Reykjavík til að læra að sauma. Hér eru þær ferðbúnar með flétturnar sínar.
 Síðar í verkinu koma þær heim í réttirnar. Búnar að kynnast lífinu svolítið og flétturnar farnar.
 Takið eftir ferðatöskunum. Á þeim báðum eru merkimiðar. Á öðrum er nafn föðurömmu minnar en hún dó 1950. Á hinni er nafn Siggu frænku og ég giska á að sá miði sé ekki mikið yngri. Brúna kjólinn saumaði ég utan um mína óléttu veturinn 1978-9. Útsaumuð blóm á vasa og berustykki :)
Ég sé það núna að það liggur við að þessi færsla ætti að vera á gamladagablogginu mínu.
Leiksýningar eru yfirleitt ekki nógu langar til að framkalla óléttur með eðlilegum hætti þannig að ég tálgaði þær úr svampi sem ég klæddi svo í sængurver til að ekki færi svamptætingur um hvippinn og hvappinn. Hér er lokamátun, ég þurfti nokkrar atrennur.

fimmtudagur, 22. mars 2012

53. Bítlahópurinn.

Eins og áður hefur komið fram er basl að ná að mynda leikarana/búningana í réttu samhengi þar sem búningaskipti eru svo ör, en hér náði ég Bítlahópnum. Þarna er Gíslína dóttir okkar hjóna í Gröf komin til Reykjavíkur og er þar meðal aðdáenda frægustu bítlahljómsveitarinnar. Hér eru þeir Erlingur, Rúnar og Gunnar umkringdir. 
Ég var svo heppin að finna hjá Rauða krossinum á Akureyri þrennar svartar buxur, allar eins, þangað komnar beint af einhverjum búðarlager, og þurfti ekki annað að gera við þær en að þrengja svolítið og stytta einhverjar. Í leikhúsinu voru til nælonskyrturnar (sumar af honum föður mínum) og lakkrísbindin voru ekki vandamál. Vel gekk að finna nóg af kjólum með réttu sniði og gollur. Ég er mjög sátt við heildarsvipinn á þessum hóp og ég get trúað ykkur fyrir því að þessar stúlkur geta öskrað. Á þessari mynd eru fjórir krakkar sem voru líka í heyskapnum hér fyrir neðan.

miðvikudagur, 21. mars 2012

52. Yndisleg.



Ég fann þetta í tölvunni minni í gærkvöldi. Já ég meina nákvæmlega það, ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri til. Elsti sonurinn setti einhver hundruð myndir á tölvuna mína til að frænka hans gæti valið úr þeim held ég og þegar ég renndi yfir þær tók ég ekki eftir að þetta væri myndband. Kannski er þetta allt of stórt skjal til að hafa í bloggi, ég hef ekki vit á því og prófa bara.
Uppfært: Þetta er myndband af skírninni. Það varð ósýnanlegt og ég henti því og setti inn aftur. Þetta er ég svo búin að endurtaka. Veit ekki hversu oft ég nenni því en þó tókst að sýna foreldrunum og það er nú nokkuð.

þriðjudagur, 20. mars 2012

51. Næsti hópur.

Við kynnumst fólkinu í Gröf í heyskap.
 Þarna erum við, kvenfólkið á túninu; undirrituð, Guðfríður húsfreyja í Gröf ásamt dætrunum Ingiríði og Gíslínu og þremur kaupakonum. Ekki þó hinni einu sönnu sem getið er um í kvæðinu, hún kemur ef til vill síðar á mynd. Ég setti mér að finna nóg af ljósum og léttum kjólum í heyvinnuna. Einfalt mál? Það skyldi maður ætla, en nei. Það tók tímann sinn eins og sumt annað. Endaði með að breyta borðdúk í pils og þá var það leyst. Eftir nokkra leit að réttu höfuðklútunum gerði ég þá úr gömlum sængurverum, þar fann ég réttu litina. Ef einhver ykkar skyldi vita að klútarnir voru bundnir undir kverk, þá upplýsist hér með að það var fyrr, á sjötta áratugnum var í lagi að binda aftur fyrir. Við erum allar berlæraðar og stelpurnar í ljósum strigaskóm en eftir nokkra umhugsun taldi ég rétt að hafa húsmóðurina ögn settlegri og er í ljósum sokkum og hálfgerðum sandölum.
Gísli bóndi minn í Gröf ásamt einum syni okkar og 3 kaupamönnum. Leitaði töluvert að vinnuskyrtum sem ekki væru of nútímalegar. Efnileg módel piltarnir?

sunnudagur, 18. mars 2012

50. Í gegn um tíðina.

Í færslu 45 var ég að tala um búninga. Síðan eru margar vinnustundir, leiðangrar um markaði og Kolaport og mikill árangur. Búið að klæða 32 leikara sem 52 persónur sem sumar hverjar þurfa margsinnis að skipta um föt auk þess sem flestir nota svartan grunnbúning af og til. Fólk í grunnbúningi er til dæmis brúsapallur, heysáta, réttarveggur eða syngjandi og dansandi bakraddir. Grunnbúningur getur verið eftir atvikum allskonar buxur, pils, kjólar, skór, bolir eða peysur, bara að allt sé svart nema höfuð og hendur leikarans. Mér telst svo til að við notum um það bil 326 flíkur, 67 pör af skófatnaði og slatta af beltum. Þá tel ég ekki þau nærföt og sokka sem flestir útvega sér sjálfir. Ég er ekki komin með mikið af myndum þar sem þetta fólk er flest eins og flær á skinni og skiptir oft um föt á ólíklegustu stöðum í miklum flýti. Ég er þó að vinna í að ná helstu hópum og sýni ykkur kannski eitthvað af því.
Mesta vinnan er í diskógellunum.
Þetta eru Gibbsystur ættaðar frá sauðfjárbúinu Litlum hestum í Múlasýslu og ég hugsaði mér að mamma þeirra hefði sett saman búningana úr því sem hún kom höndum yfir svo að ég gerði bara nákvæmlega það. 
 Ferillinn var einhvern veginn svona: Við tíndum til allskonar glitrandi og æpandi flíkur og efni og svo boðaði ég þær til mín og við púsluðum og mátuðum.
 Við fundum þykkbotna háælaða skó handa öllum.
 Tveir glitrandi pallíettuhólkar (takk Drífa)
 Tveir eldgamlir kjólar og allskonar bútar og sneplar.
 Og svo var að klippa og skeyta saman. Ég var búin að gúggla talsvert og niðurstaðan var sú að "alvöru" diskóföt voru oft með einskonar hringsniðnum "pilsum" neðan við olnboga og hné ef svo mætti segja.
 Tók neðan af kjólunum og gerði úr því fleyga. Saumaði svo á þá ermar.
 Allra handa glitrandi bútar urðu líka að fleygum.
 Raðaði á sófann til að gera mér grein fyrir samhenginu.
Það hefði nú verið ljómandi gott ef þetta hefði svo bara verið búið þegar ég var búin að sauma allt saman en nei nei. Helv... djö... bláa glansandi efnið er svoddan rusl að ég þarf að hafa það í gjörgæslu. Ég saumaði það við svart jersey og það trosnar eins og fífl hversu mikið sem ég vanda fráganginn. Það tollir ekki einu sinni á þessu flíselín. Þær eru nú samt flottar stelpurnar og þetta svínvirkar.

mánudagur, 12. mars 2012

49. Nýja (gamla) nafnið

Það er búið að vera svo óskaplega mikið um að vera undanfarið að maður veit bara tæpast í þennan heim eða annan og ekkert færi gefst til að blogga um allt þetta frábæra í tilverunni. Það er samt útilokað að blogga ekki um þetta um það bil strax:
 Hún systir mín var svo góð að lána okkur húsið sitt fyrir skírn í gær og það var afskaplega ánægjuleg stund. Ekki spillti nafnið: Elín Rut heitir stúlkan!
 Ég á þessar tvær ömmustelpur og þær bera báðar nafnið mitt. Lái mér svo bara hver sem vill þó að eg hafi klökknað. 
 Hér er allur hópurinn minn, aldrei auðvelt að taka mynd af hópi sprækra barna, þarna eru allir fínir nema kannski helst amman en það skiptir nú minnstu.
 Ljómandi góð mynd af mömmu með fertugasta afkomandann.
Brosandi mæðgur. 
Yndislegt allt saman.
Næst hlýtur að koma leikhúsblogg.

mánudagur, 5. mars 2012

48. Ömmuljósið

Um þessar mundir fer mestallur minn vökutími í menningarmálin. Leikhúsgeirann nánar tiltekið. Nánar um það síðar en það breytir ekki því að þessi unga stúlka er mér efst í huga alla daga.
 Hér erum við að ky(i?)nnast.
 Hitt erindið mitt suður var jú að láta rannsakast. Til þess varð ég meðal annars að þola það að ganga með 45 sentimetra af mjórri plastslöngu innvortis í tæpan sólarhring. Það er svona ykkur að segja andstyggilegt og ekki amalegt að eiga þá kost á einhverju góðu til að dreifa huganum. Gamall föðurbróðir barnsins er að athuga hvernig henni fer að vera svona brúnaþung. Hann er óttalegur bjáni stundum greyið.
 Amma fékk að vera viðstödd ýmsa merkisviðburði: Fyrsta baðið...
 ..þegar mömmu og pabba var líka kennt að gefa mér svo ljómandi gott nudd
 og ég brá mér í höfuðbeina og spjaldhryggs meðferð. Svipurinn bendir til þess að verið sé að velta fyrir sér hvort þetta fólk sé alveg í lagi? Málið er að ljúfan mín hefur þurft að þola svæsna ungbarnakveisu og verið var að leita allra leiða til að létta henni lífið.
Alveg slök eftir góða máltíð í fangi mömmu sem heldur að það væri allt í lagi að ropa dálítið. Og já, púðinn prinsessumerktur í bak og fyrir. (Hann er fenginn að láni.)
 Ömmu er umhugað um að stúlkan fái bestu menntun sem völ er á og hér dönsum við jenka. Amma syngur um Fríðu litlu lipurtá og hreyfir fætur barnsins eins og vera ber. Nemandinn steinsofnaði reyndar á meðan en það er bara betra. Hún er ákveðin í að vera dansfífl eins og amma þegar hún er orðin ofurlítið stærri. Ég hef beðið í ofvæni eftir að fá sent myndband sem tekið var af kennslunni en gémeilið vill ekki færa mér það. :(
Amma er líka að springa af stolti yfir honum pabba mínum því honum gengur svo glimrandi vel í skólanum. Það er þó ekkert skrýtið þar sem hann hefur svo ljómandi góðan leiðbeinanda eins og hér sést. Við verðum samt að taka okkur á þar sem síðasta einkunn var ekki nema 9,9 sem er ögn lakara en flestar einkunnir hafa verið.