fimmtudagur, 22. mars 2012

53. Bítlahópurinn.

Eins og áður hefur komið fram er basl að ná að mynda leikarana/búningana í réttu samhengi þar sem búningaskipti eru svo ör, en hér náði ég Bítlahópnum. Þarna er Gíslína dóttir okkar hjóna í Gröf komin til Reykjavíkur og er þar meðal aðdáenda frægustu bítlahljómsveitarinnar. Hér eru þeir Erlingur, Rúnar og Gunnar umkringdir. 
Ég var svo heppin að finna hjá Rauða krossinum á Akureyri þrennar svartar buxur, allar eins, þangað komnar beint af einhverjum búðarlager, og þurfti ekki annað að gera við þær en að þrengja svolítið og stytta einhverjar. Í leikhúsinu voru til nælonskyrturnar (sumar af honum föður mínum) og lakkrísbindin voru ekki vandamál. Vel gekk að finna nóg af kjólum með réttu sniði og gollur. Ég er mjög sátt við heildarsvipinn á þessum hóp og ég get trúað ykkur fyrir því að þessar stúlkur geta öskrað. Á þessari mynd eru fjórir krakkar sem voru líka í heyskapnum hér fyrir neðan.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli