Í færslu 45 var ég að tala um búninga. Síðan eru margar vinnustundir, leiðangrar um markaði og Kolaport og mikill árangur. Búið að klæða 32 leikara sem 52 persónur sem sumar hverjar þurfa margsinnis að skipta um föt auk þess sem flestir nota svartan grunnbúning af og til. Fólk í grunnbúningi er til dæmis brúsapallur, heysáta, réttarveggur eða syngjandi og dansandi bakraddir. Grunnbúningur getur verið eftir atvikum allskonar buxur, pils, kjólar, skór, bolir eða peysur, bara að allt sé svart nema höfuð og hendur leikarans. Mér telst svo til að við notum um það bil 326 flíkur, 67 pör af skófatnaði og slatta af beltum. Þá tel ég ekki þau nærföt og sokka sem flestir útvega sér sjálfir. Ég er ekki komin með mikið af myndum þar sem þetta fólk er flest eins og flær á skinni og skiptir oft um föt á ólíklegustu stöðum í miklum flýti. Ég er þó að vinna í að ná helstu hópum og sýni ykkur kannski eitthvað af því.
Mesta vinnan er í diskógellunum.
Þetta eru Gibbsystur ættaðar frá sauðfjárbúinu Litlum hestum í Múlasýslu og ég hugsaði mér að mamma þeirra hefði sett saman búningana úr því sem hún kom höndum yfir svo að ég gerði bara nákvæmlega það.
Ferillinn var einhvern veginn svona: Við tíndum til allskonar glitrandi og æpandi flíkur og efni og svo boðaði ég þær til mín og við púsluðum og mátuðum.
Við fundum þykkbotna háælaða skó handa öllum.
Tveir glitrandi pallíettuhólkar (takk Drífa)
Tveir eldgamlir kjólar og allskonar bútar og sneplar.
Og svo var að klippa og skeyta saman. Ég var búin að gúggla talsvert og niðurstaðan var sú að "alvöru" diskóföt voru oft með einskonar hringsniðnum "pilsum" neðan við olnboga og hné ef svo mætti segja.
Tók neðan af kjólunum og gerði úr því fleyga. Saumaði svo á þá ermar.
Allra handa glitrandi bútar urðu líka að fleygum.
Raðaði á sófann til að gera mér grein fyrir samhenginu.
Það hefði nú verið ljómandi gott ef þetta hefði svo bara verið búið þegar ég var búin að sauma allt saman en nei nei. Helv... djö... bláa glansandi efnið er svoddan rusl að ég þarf að hafa það í gjörgæslu. Ég saumaði það við svart jersey og það trosnar eins og fífl hversu mikið sem ég vanda fráganginn. Það tollir ekki einu sinni á þessu flíselín. Þær eru nú samt flottar stelpurnar og þetta svínvirkar.
Orðbragð er þetta!
SvaraEyðaFríða
(Fín föt annars :) Ég man reyndar ekkert eftir svona fötum, kannski ég hafi alveg afneitað þeirri staðreynt að ég er af diskókynslóðinni)
Ég geng tæpast út frá að svonalagað hafi verið í almennu brúki á okkar slóðum, þær Gibbsystur koma fram sem skemmtiatriði á héraðsmóti og ýmsar stjörnur í útlandinu klæddust svipuðum sniðum, ABBA og fleiri. :)
SvaraEyða