laugardagur, 29. október 2011

18. Kíttað

Alveg er þetta tíðarfar ótrúlegt. Ég hef það sem mottó að láta ekki veður fara í pirrurnar á mér vegna þess að því er vonlaust að breyta með neinni tækni sem ég hef yfir að ráða. En samt. Síðan gluggarnir voru settir í 18. september hefur tæpast komið sæmilega þurr dagur sem gæfi færi á að þétta, kítta og mála í kring um þá. Örsjaldan var þurrt en þá annaðhvort rokhvasst, dimmt, frost, eða ég að selja slátur eða sinna öðru því sem ekki hefur verið komist undan. Eitt skiptið náði ég með naumindum að ljúka við að mála yfir kíttið með því að hafa lokið yfir dollunni nema rétt til að stinga penslinum ofan í því þá fór að rigna. Daginn áður mátti ég halda mér í pensilinn til að flögra ekki út í loftið... eða þannig.
Síðdegis í gær fór ég út þegar droparnir hættu að hanga allstaðar og skar frauð, tróð einangrunarpylsum og náði að kítta restina.
Um sexleytið er ekki lengur hægt að sjá almennilega til verka þannig að kannski kíttaði ég vel, kannski ekki.
Nú er eftir að vita hvort næst að mála það sem eftir er á þessu ári.

fimmtudagur, 27. október 2011

17. Þeir eru ýmsir þröskuldarnir

Í breytingabröltinu á ganginum niðri varð mér litið á þröskuldana og fékk hroll við tilhugsunina um að fara að klína á þá enn einu málningarlaginu sem fljótlega væri svo sparkað sundur þar sem alltaf má búast við að stigið sé á þröskulda. Ég prófaði að bregða pússivélinni minni á einn þeirra og viti menn; birtist ekki þar þessi fína fína spýta. Ég skoðaði málið betur og sá að einhvern tíma, þegar gólfið var einangrað og hækkað svolítið, hafði verið lagður nýr þröskuldur sem náði þar af leiðandi ekki inn undir dyrastafina. Ég sótti kúbein og náði upp 3 þröskuldum og bar þá út.
Svo skóf ég og pússaði af þeim mörg lög af málningu og lakki og varð harla ánægð með árangurinn.
Næst setti ég þá á pappakassa í geymslunni og lakkaði með grimmsterku gólflakki. Þess má geta að myndin er tekin af nýlökkuðu, þeir glansa ekki svona núna. Við Ingimundur festum þá á sína staði með límkítti í fyrradag og nú geri ég mér góðar vonir um að þurfa aldrei að skipta mér af þeim meir.
Þröskuldurinn í dyrum vinnustofunnar er ekki upphækkaður eins og hinir svo að hann er ekki hægt að fjarlægja.
Ég bar á hann stripper
og skóf og krafsaði
og pússaði þar til ekkert var eftir af málningu en leyfði gömlum djúpum skrámum að halda sér og lakkaði svo að lokum. Mér finnst hann verulega fínn og ansa ekki "tískunni" sem setur hvíta málningu á allt mögulegt og ómögulegt. Það getur stundum verið gaman að horfa á slíkt hjá öðrum en mig langar ekki vitund til að hafa mitt umhverfi þannig. Lítið væri nú gaman að vera til ef allir hefðu sama smekk.

föstudagur, 21. október 2011

16. Forystufé


Hér eru þau 
 Bylur,
 Flekkur
og Stroka.

Ágæti forystufjáreigandi.
Nú stendur til að opna forystufjársetur að Svalbarði í Þistilfirði. Ef áætlanir standast gæti það orðið sumarið 2012. Þar er ætlunin að bjóða til sölu handverk sem eingöngu skal unnið úr afurðum af hreinræktuðu forystufé svo að nú leggjum við út snörur okkar fyrir þá sem hafa umsjón með þessum eðalskepnum.
Eftirtaldar afurðir gætum við notað:
Horn af báðum kynjum og öllum aldri. (Að gefnu tilefni bendi ég á að efnið er alls ekki ónýtt þó að hundar nái að naga hornið þó að auðvitað sé meira gaman að þeim heilum).
Öll þokkaleg ull.
Mör. (Til sápugerðar).
Bein af tveggja vetra og eldra, t.d. lærleggir, hæklar(með völunni að sjálfsögðu), kjálkar og fleira.
Lappir af tveggja vetra og eldra.
Hópurinn hefur einnig áhuga á fallegum hausum af forystufé til uppstoppunar og gærum til sútunar.

Þetta starf er unnið að stórum hluta af hugsjón og áhuga á að kynna forystuféð og ekki mikið af peningum í spilinu þannig að ekki er gert ráð fyrir að greiða fyrir hráefnið, heldur taka við og koma í not efni sem annars færi í súginn. Ef þú hefur eitthvað af ofantöldu sem þú vilt leggja til, má hafa samband við undirritaða.

Elín Kjartansdóttir Norðurhlíð Aðaldal.
464 – 3550   og   864 - 2573

Nú er verið að útbreiða þetta fagnaðarerindi sem víðast og er ég búin að fá svolítil viðbrögð. 
Myndirnar í þessari færslu eru af forystufé af þessu búi og þau eiga það öll sameiginlegt að hafa lagt til hráefni eins og óskað er eftir hér að ofan þannig að minning þeirra mun á vissan hátt lifa.
Meir að segja náði ég í gær drjúgum slatta af "forystu"mör svo að nú bíð ég spennt eftir að fá að vita hvort tekst að ná nægilegri þáttöku á sápugerðarnámskeið í næstu viku.
Gangi það eftir er ætlunin að þæfa svo forystuull utan um sápur.

fimmtudagur, 20. október 2011

15. Meira af Illugastöðum

Að kvöldi laugardags safnaðist fjölskyldan saman og borðaði og söng og blandaði geði.
Hér er yngsta fólkið önnum kafið við það.
 Í lok dvalar þarf að ganga frá og þrífa. Mjög er misjafnt hvað fólk hefur gaman af slíku.
Hér er Jóhann Smári himinlifandi að fá loksins að valsa um í ísskáp svo að það var einboðið að láta hann um að þrífa þar.

þriðjudagur, 18. október 2011

14. Á Illugastöðum

Við tókum okkur til, mamma og flestir afkomendur hennar ásamt viðhengjum og söfnuðumst saman á Illugastöðum um síðustu helgi. Með mér í húsi voru eiginmaðurinn, tveir synir, ein tengdadóttir og þrjú barnabörn. Indælishelgi.
Eftir grjónagraut og lifrarpylsu í húsinu hjá okkur um hádegisbilið á laugardag var ákveðið að fara í huggulega fjölskyldugönguferð. Þar var fólk á öllum aldri og allir skemmtu sér hið besta.
Við fórum upp brekkur
 og niður brekkur.
 Tíndum ber,
 yfirstigum girðingar og vatnsföll,
 skoðuðum fornan vörslugarð (gæti á nútímamáli útlagst sem túngirðing en þó ekki),
 og príluðum svo upp á hátt fjall. Það var að minnsta kosti talsvert hátt fyrir suma þó að aðrir hlypu upp.
 Þarna sést af "fjallinu" norður Fnjóskadalinn.
Fnjóskáin getur ekki frekar en svo margar ár ákveðið hvert hún ætlar og velur alls ekki alltaf stystu leiðina.

mánudagur, 17. október 2011

13. Athugasemdir hvernig


Mér finnst afar sorglegt að ég skuli ekki fá að njóta athugasemda ykkar af því að fólki sem ekki er með bloggsíðu sjálft tekst ekki að setja þær inn. Hafið þið prófað svona?

Sendu inn athugasemd

(Hér er reitur til að skrifa textann inn í)

Select profile

Nú smellir þú á select profile og þar færð þú möguleikann Name/URL og færð þetta:

Edit profile




Þarna getur þú kvittað og ég held að þú þurfir ekki einu sinni að skrifa netfang en er þó ekki viss.
Næst kemur þá líklega staðfestingarorð sem þú skrifar og þá hlýtur þetta að vera komið. Svona kvittaði ég alltaf hjá Fríðu áður en ég fór að blogga sjálf og það gekk fínt.


Látið mig endilega vita ef þetta gengur ekki 

mánudagur, 3. október 2011

11. Hálfnað

Nú er slátursalan ríflega hálfnuð og var þó bara rétt að byrja. Þetta er bara heldur skemmtilegt en samt gott þegar það er búið. Maður gerir tæpast annað á meðan. Annað sem fylgir árstímanum er þetta:
Leggja horn í bleyti og sjóða, hreinsa, skafa og skrúbba með tilheyrandi ilm um allt hús. Hundleiðinlegt verk en snilldar hráefni.