föstudagur, 21. október 2011

16. Forystufé


Hér eru þau 
 Bylur,
 Flekkur
og Stroka.

Ágæti forystufjáreigandi.
Nú stendur til að opna forystufjársetur að Svalbarði í Þistilfirði. Ef áætlanir standast gæti það orðið sumarið 2012. Þar er ætlunin að bjóða til sölu handverk sem eingöngu skal unnið úr afurðum af hreinræktuðu forystufé svo að nú leggjum við út snörur okkar fyrir þá sem hafa umsjón með þessum eðalskepnum.
Eftirtaldar afurðir gætum við notað:
Horn af báðum kynjum og öllum aldri. (Að gefnu tilefni bendi ég á að efnið er alls ekki ónýtt þó að hundar nái að naga hornið þó að auðvitað sé meira gaman að þeim heilum).
Öll þokkaleg ull.
Mör. (Til sápugerðar).
Bein af tveggja vetra og eldra, t.d. lærleggir, hæklar(með völunni að sjálfsögðu), kjálkar og fleira.
Lappir af tveggja vetra og eldra.
Hópurinn hefur einnig áhuga á fallegum hausum af forystufé til uppstoppunar og gærum til sútunar.

Þetta starf er unnið að stórum hluta af hugsjón og áhuga á að kynna forystuféð og ekki mikið af peningum í spilinu þannig að ekki er gert ráð fyrir að greiða fyrir hráefnið, heldur taka við og koma í not efni sem annars færi í súginn. Ef þú hefur eitthvað af ofantöldu sem þú vilt leggja til, má hafa samband við undirritaða.

Elín Kjartansdóttir Norðurhlíð Aðaldal.
464 – 3550   og   864 - 2573

Nú er verið að útbreiða þetta fagnaðarerindi sem víðast og er ég búin að fá svolítil viðbrögð. 
Myndirnar í þessari færslu eru af forystufé af þessu búi og þau eiga það öll sameiginlegt að hafa lagt til hráefni eins og óskað er eftir hér að ofan þannig að minning þeirra mun á vissan hátt lifa.
Meir að segja náði ég í gær drjúgum slatta af "forystu"mör svo að nú bíð ég spennt eftir að fá að vita hvort tekst að ná nægilegri þáttöku á sápugerðarnámskeið í næstu viku.
Gangi það eftir er ætlunin að þæfa svo forystuull utan um sápur.

2 ummæli:

  1. Frábært og skemmtilegt framtak hjá þér/ykkur Ella. Ég hlakka til að heyra meira af þessu verkefni.

    SvaraEyða