Það sem tekur hug minn allan um þessar mundir (eins og svo oft um þetta leiti árs) eru föt. Föt sem almenningur klæddist á 6. 7. og 8. áratug síðustu aldar. Rokk, bítla, hippa, rauðsokku og diskó tímanum. Svo þarf slatta á bændur og búalið sem lét ekki tískuna slá sig út af laginu en samt má sjá tímann líða þar líka. Við erum að æfa frumsamið verk sem hverfist í kring um þekkt dægurlög frá þessu tímabili og þar af leiðir að um er að ræða margar stuttar senur með ólíkum hópum og mér telst til að búningar verði um það bil 100 plús - mínus. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að leggja út í mikil smáatriði og saumaskap en mikilvægt þó að koma réttum skilaboðum til áhorfenda. Leikarar eru yfir 30 og allir verða í svörtum grunnbúningi þegar þeir eru ekki í tilteknum hlutverkum. Þarna fáið þið loksins að kynnast fólki sem farið hefur huldu höfði hingað til þó að það hafi verið á allra vörum, eins og til dæmis Bjössa á mjólkurbílnum og Gísla í Gröf ásamt kaupakonu. Þið fáið líka smjörþefinn af síldarævintýrinu, ástandinu og öllu hinu sem setti svip á þjóðlífið. Ég er konan hans Gísla í Gröf og fylgst er með mínu fólki í gegn um skin og skúrir.
Hér má sjá hvernig umhorfs hefur verið í salnum undanfarið. Haugar af buxum, skyrtum, bolum, kjólum, pilsum, blússum, mussum og svo framvegis. Svarta deildin í forgrunni. Gleymum ekki skónum sem eru í röðum sem eru tugir metra að lengd. Ég hef náð afar góðum árangri á fatamarkaði Rauða krossins á Akureyri, í fataskápum vina og víðar en nokkuð vantar þó enn. Grátlegast hversu erfitt er að ná í hvunndagsföt vinnandi fólks. Slík föt einfaldlega voru kláruð og í búningageymslum áhugaleikfélaga eru helst aflögð spariföt. Ef þú lesandi góður getur lánað okkur GAMLA GALLAJAKKA SEM ALGENGIR VORU SEM YFIRHAFNIR BÆNDA Í ÚTIVERKUNUM fyrir tíma samfestinganna þá væri það frábært. Mig sárlangar í þó ekki væri nema einn eða tvo. Gjarnan líka stórar gallabuxur og vinnuskyrtur af eldri gerðum. Gemsinn minn: 864-2573.
Þetta er fyrsta færslan á þessu bloggi sem merkt er leikhúsi. Mig grunar að þetta sé ekki sú síðasta.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli