fimmtudagur, 14. febrúar 2013

87. Hált á svellinu

Fleirum verður hált á svellinu en okkur tvífætlingunum.
 Nágranni okkar kom í gær til að hjálpa bóndanum við heyrúllur. Hann átti leið yfir túnið en á túnum eru víða hrikalegir svellbólstrar. Næstum efst hafði vélin ekki lengur grip og rann af stað og þá varð ekki við neitt ráðið. Þegar hún hitti fyrir vegarkantinn skall hún á hliðina. Eins og sést var snjóföl yfir allt og ekki sést eins vel hvar svellin eru verst. Látið mig vita það. Ég veit þó ekki hvort það hefði neinu breytt í þessu tilviki.
 
 Hér er komin önnur vél sem heldur á brott eftir að hafa athugað aðstæður.
Þegar nokkuð var farið að skyggja kom öðruvísi og öflugri vél en það dugði þó ekki til, enda undirlagið hallandi svellbunki svo að betra er að fara að öllu með gát.
Hérna heldur stóra dráttarvélin öllu í skefjum á meðan gula vélin lyftir hinni föllnu á hjólin. Hún var svo dregin upp á heimreiðina og rennt niður á jafnsléttu á meðan stóra systir hélt við. Það er víst ekki sniðugt að setja í gang eftir að vél er búin að vera á hvolfi um hríð.

7 ummæli:

  1. Hæ hæ Ella. Takk fyrir pistlana þína. Allt of sjaldan sem ég kvitta fyrir en geri það nú. Mér verður oft hugsað til þín og vona að þú fáir þau hugskeiti öðru hverju. Kveðja til ykkar í sveitinni. Tóta vinkona.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Hef einmitt verið að hugsa hvað er langt síðan síðast barst lífsmark frá þér. Bestu kveðjur til allra þinna.

      Eyða
  2. Samkvæmt umferðarmælingunni á síðunni er ég í Finnlandi núna.
    Vona að ökumaðurinn hafi sloppið betur frá byltunni en þú frá þinni.

    Róbert Stefán.

    SvaraEyða
  3. Og ég var búin að frétta af þessu úr annarri átt. En hvað ert þú annað að gera en horfa út um glugga þessa dagana? Lesa bækur?

    SvaraEyða
  4. Jaá,þannig að þú berð kannski ábyrgð á sumum útlendu flöggunum. Ég er stödd í Reykjavík samkvæmt sömu heimild held ég. Ökumaðurinn skrámaðist lítillega í andliti en bar sig vel. Það er nú ekki alltaf að marka reyndar.

    SvaraEyða
  5. Þetta var asnalegt, ég ætlaði að svara ykkur sínu í hvoru lagi en samt kom fyrra svarið neðan við.
    Hefur þú sem sagt verið á þvælingi hér í sveitinni Fríða? Jú ég les og svo er ég með föðurarfinn (tölvuna)á maganum stundum en hún er bara svo ansi þung þannig að það krefst extra hagræðingar.

    SvaraEyða
  6. Hehe, ég er alltaf á þvælingi út um allar þorpagrundir :)

    SvaraEyða