mánudagur, 17. september 2012

77. Réttirnar

Þessi þarna sem er næstum hætt að blogga bara komin með þrjú blogg í dag!
Ég held bara að það sé best að hafa samhengi í þessum færslum. Ég hef undanfarna daga ekkert verið neitt viss um að það verði nothæf stemning eða veður í réttum til að vera þar með litla krakka og kakó. Þegar nær dró varð ljóst að takast myndi að rétta á áður ákveðnum degi og með þokkalega hefðbundnum hætti. Við ákváðum þó að vera ekkert að leggja það á féð að reka heim eins og venjulega svo að við vorum ekki með neina hesta en það hefur venjulega verið hápunkturinn að reka heim og skiptast á að fá að fara á bak.
Veðrið er búið að vera frekar ömurlegt mestalla vikuna og núna í morgun er búið að vera slagviðri sem er mokandi snjókoma í Mývatnssveit. Væntanlega er það þá líka á Þeistareykjum. Virðist vera að skána eitthvað í bili, en framundan er spáin svipuð. Veit ekki hvernig leit verður hagað á næstunni en það er vitað mál að margt er enn uppfrá og sumt í fönn.
Svo fór að með okkur í kring um Norðurhlíðardilkinn voru 26 gestir :). Þar af helmingur á grunnskólaaldri og yngra. Ég var myndavélarlaus enda upptekin við að skrá allt sem fór inn í dilkinn en sem betur fer voru sumir aðrir duglegri og ég fékk nokkrar lánaðar.
   Hér er minnsta manneskjan, hún Elín Rut að hjálpa föður sínum að koma gimbur í dilkinn. Hún reddar þessu alveg.
 Jóhann Smári er líka alltaf að verða brattari innan um skepnur sem honum hefur verið lítið gefið um fram undir þetta. Líka munur að fá kleinu.
Það eru mörg ár síðan allir synir mínir hafa komið í réttirnar. Hér er Ingimundur að tala litlu systur Ívans eitthvað til.

 Breiðir réttarveggir geta komið sér vel.
Hér er líklega fjárdrætti að verða lokið og fólk í almenningnum orðið talsvert fleira en féð.
Það er líkast til mun betri hagi í dilknum en féð hefur átt að venjast undanfarið. Flutt var hey til þeirra meðan beðið var heimferðar á fjöllum.
Rölta saman tveir góðir. Forystulambið leiðir auðvitað.
Hugað að heimflutningi. Menn komu með tvær öndvegis hestakerrur til að flytja heim.
Yngsta fólkið hvíldarþurfi og þá er nóg pláss í ömmu og afa holu.
Okkur telst svo til að hér vanti líklega ennþá 25 eða 6 kindur af 132 sem fóru á fjall í sumar. Auk þeirra hafa fundist tvær gimbrar dauðar.
Takk fyrir myndirnar Elsa, Alma og Róbert Stefán.

2 ummæli:

  1. Æ, leiðinlegt að það vanti svona margar. En mikið eru þetta skemmtilegar myndir!

    SvaraEyða
  2. Já vissulega en við erum vongóð um að tölurnar lagist eitthvað áður en lýkur. Margir standa langtum lakar.
    Og ójá :)

    SvaraEyða