sunnudagur, 30. september 2012

79. Úr fönn

Nú á föstudaginn smöluðum við og rákum inn allt okkar fé sem heima var og fórum nákvæmlega í gegn um það og merktum við hvað væri á vísum stað og vigtuðum öll lömbin eins og við gerum alltaf á haustin. Niðurstaðan er sú að okkur vantar 3 ær og 7 lömb sem ekkert hefur spurst til og 2 gimbrar sem fundust dauðar skömmu eftir hvellinn. Þetta eru 6,2 % af því fé sem hér var í vor. Það er vel hægt að vonast eftir að eitthvað skili sér enn, en líkurnar minnka vissulega með hverjum deginum. Staðan hér er alls ekki svo slæm miðað við marga aðra bæi en ein er hver ein og lakast að vita að kindur eru að dragast upp í sköflum einhverstaðar og einhversstaðar. Það verður að líkindum óskemmtilegt að fara um afréttinn þegar snjóa leysir næsta vor.
 Þetta er gimbrin sem fannst þegar verið var að tryggja aðhaldsgirðinguna í fyrstu leitum, henni þótti óviðfeldið þegar var verið að reyna að setja niður girðingastaur í skaflinn nákvæmlega þar sem hún var svo að hún þaut burtu um leið og losað var um snjóinn með skóflu. Náðist nú samt greyið.
 Þessi mátti dúsa lengur. Núna á miðvikudaginn, 16 dögum eftir að veðrið var verst var hann grafinn upp úr holu en þar voru ásamt honum þrjár kindur dauðar. Hann er vel sprækur núna en manni finnst hann lítið vera annað en horn og ull. Hann var 23 kíló en meðalvigt allra lambanna var 38,5 kíló þannig að ekki er ósennilegt að þriðjungur hans hafi beinlínis horfið. Að kvöldi þessa sama miðvikudags fengum við annan lambhrút sem er svipaður að þyngd og greinilega búinn að dúsa jafn lengi í fönn en hann var svo ráðvilltur greyið að hann þaut beint út í myrkrið þegar átti að afhenda hann hér á hlaðinu og kom ekki í leitirnar aftur fyrr en smalað var á næsta bæ í gær. Hann missti því af vigtun og má líklega einu gilda. Þessir tveir fá að lifa árið í viðbót enda ónothæfar afurðir eins og það heitir.
Þessi var hins vegar líklegast aldrei föst í snjó, þetta er forystuærin hún Flekka en henni hentaði ekki að vera samferða stærsta hópnum heim í réttirnar en kom bara á eigin vegum skömmu síðar og lét eins og ekkert væri.
Uppfært samdægurs:
Áðan var okkur færður þessi lambhrútur sem fannst í gær. Ekki gott að segja hvort hann var grafinn upp eða slapp sjálfur en augljóst að hann hefur verið í fönn fram undir þetta og ekki einsamall því að búið er að éta af honum ull á báðum hliðum og að framan. Ótrúlega vel á sig kominn greyið og ákaflega velkominn því að hann er af eðalættum eins og kannski fleiri lömb hér ef marka má orð bóndans.
Með honum í för var merki úr dauðri á sem fannst líka í gær þannig að þar með vitum við um þrjú dauð og 8 sem vantar fregnir af.

5 ummæli:

 1. Furðulegt hvað ullin er fljót að ná sér eftir að kindurnar koma upp á yfirborðið. Kindurnar sem við sáum koma upp úr fönn voru virkilega með dredda (dreadlocks) og grútskítugar í ofanálag. Og svo var vart hægt að sjá daginn eftir hvaða kindur hefðu verið í fönn og hverjar ekki. Ull er frábært efni.

  Fríða

  SvaraEyða
 2. Varla góð til átu samt. Annars hafði ég alltaf talið að þegar kindur væru að éta ull af hvorri annarri væri það meira svona eins og reitt og slitið en þarna er þetta eins og togið sé klippt utan af. Merkilegt. Þetta sést vel ef smellt er á myndina.

  SvaraEyða
 3. Já, það sést vel. Stórmerkilegt. En allt er þetta nú hálfömurlegt. En gott þehar eitthvað skilar sér samt.

  SvaraEyða
 4. Thanks for sharing, nice post! Post really provice useful information!

  Giaonhan247 chuyên dịch vụ vận chuyển hàng đi mỹ cũng như dịch vụ ship hàng mỹ từ dịch vụ nhận mua hộ hàng mỹ từ trang ebay vn cùng với dịch vụ mua hàng amazon về VN uy tín, giá rẻ.

  SvaraEyða