miðvikudagur, 2. nóvember 2011

19. Gangurinn

Ætli sé ekki best að koma með kafla úr sögu gangviðhalds. Það er segin saga að ef farið er í gera smávægilegar breytingar í gömlu húsi þá er maður óðara kominn á kaf í endalausa atburðarás. Ég keypti frystiskáp fyrir rúmu ári. Hann var eiginlega óþarflega stór en verslunin vildi gjarna losna við hann og bauð meir en helmings afslátt. Gott og vel, eftir mælingar virtist mér að samt ætti að takast að troða honum á fyrirhugaðan stað í geymslunni. Það hafðist svo með harðfylgi nokkurra nágranna að þjappa skápnum inn um beygjurnar frá útidyrum að geymslu og svo þar í gegn eftir að hurðin var tekin af hjörum. Það var gaman að taka í notkun nýja fína skápinn og allt lék í lyndi til að byrja með. Eftir nokkurn tíma fannst mér að ekki gengi nógu vel að stilla gripinn, það gekk ekki nógu vel að halda réttum kulda. Í stuttu máli þá lækkaði smátt og smátt talan á litla skjánum og frystivaran var að lokum ekki alveg nógu hörð fyrir minn smekk. Mér bauðst að skipta um skáp en meinið var bara að sá nýi var enn stærri en hinn! Og með enn stærri tölu á verðmiðanum en ég þurfti ekkert að borga af henni. Eftir miklar vangaveltur ákvað ég að slá til og ganga að skiptunum, þá þurfti "bara" að taka einn vegg og smíða annan til að lengja ganginn niðri á kostnað geymslunnar. Hljómar eins og ekkert sé. Eða þannig. Kjartan hjálpaði mér með veggina. 
Hér er nýi veggurinn kominn á sinn stað en eftir er að hækka gólfið í viðbótinni. Ég er búin að líma og kítta plast til að ekki fari raki úr nýrri steypu í timburvegginn og svo var að pússa gömlu veggina með helv. kalkinu, bera mygluvörn neðst á þá, kítta í samskeytin í asbestloftinu, bæta við skrúfum og sparsla nýja vegginn, bera á gamla gólfið og steypa og flota og flota ofan á það margsinnis, mála viðbótina í tveim litum, leggja tarketplötur úr Fjölsmiðjunni, bora og skrúfa gólflista, leggja rafmagn fyrir skápinn, búa til og mála snagaspýtu og svo framvegis og svo framvegis.
Ekki var hægt að stoppa þarna, restin af ganginum var orðin hreinasta hörmung þannig að það varð að halda áfram viðhaldinu.
Til dæmis varð að færa ljósin þannig að við Róbert Stefán fjarlægðum þau eins og ég talaði um hér.
Þarna sést að lagnirnar að ljósunum urðu ákaflega mikið nettari en hér sést líka að mikið af lögnum varð að láta eiga sig. Í þessu húsi er mikill hluti af vatns- og raflögnum seinni tíma viðbót og þar af leiðandi utanáliggjandi. Það er kannski kostur stundum þegar einhverju þarf að breyta, það þarf þá ekki að brjóta upp marga veggi og gólf, en að mála þetta. Ojbarasta.
Þessi gangur er eiginlega fyrirbæri. Fermetrarnir eru ekki margir en þetta eru endalaus horn og skot og dyr, rafmagnstafla og skápur undir stiga. Jafnvel er þarna eins og sést einhvers konar vísir að vegg á miðri leið, sennilega til styrkingar. Svo breytist þetta náttúrulega í stigagang og endar samkvæmt því á efri hæðinni.
Segjum þetta nóg í bili, framhald næst.

5 ummæli:

  1. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=207209&pageId=2673126&lang=is&q=El%EDn%20Kjartansd%F3ttir

    Bara varð að sýna þér þetta :)

    SvaraEyða
  2. Ég reyni að láta líta þannig út Elsa mín.
    Já Fríða, svona var lífið í gamla daga. Ég á nú þessa úrklippu víst einhvers staðar.

    SvaraEyða
  3. Sæl Ella, ég hrökk aðeins við þegar ég sá að það eru asbestplötur í loti hjá þér. Hefurðu látið athuga hvort heilsuleysu þitt safar af því? Þetta er víst eitraður andskoti þetta asbest. Mátti til með að láta frá mér heyra um þetta ef þetta hefur farið framhjá þér í gegnum tíðina.
    Bestu kveðjur að vestan, Kristjana

    SvaraEyða
  4. Asbestið verður víst fyrst óhollt þegar rótað er við því þannig að best er að hafa bara frið með það. Ég hugsa líka að ég hafi mikin meirihluta æfinnar búið í húsi með asbesti þannig ekki er nú nýjabrum að því. Annars er heilsan miklu skárri af einhverjum ástæðum, ég man ekki eftir öðru sem ég hef breytt en að ég tek núna þrjár skeiðar af lýsi í stað einnar. Kannski er það ástæðan, kannski ekki.
    Bestu kveðjur til baka.

    SvaraEyða