miðvikudagur, 16. nóvember 2011

24. Matur

Dyggir lesendur mínir undanfarin ár hafa ef til vill tekið eftir því að þetta haustið nefni ég varla nokkuð þessi hefðbundnu haustverk. Það er líklega helst vegna þess að viðbrögðin eru orðin svo lítil á þessu bloggi að þá verður maður mun latari að skrifa. Það er þó ekki alveg þannig að ekkert eigi að borða næsta árið þó að vissulega hafi ég staðið nokkuð þétt á bremsunni í haust þegar kom að forðasöfnun. Í þessum töluðum (rituðum) orðum eru  eistun í pottinum
og þegar þau hafa soðið í 90 mínútur helli ég þeim í vaskinn og þegar þau hafa kólnað nægilega til að hægt sé að handfjatla þau flysja ég af þeim himnuna og treð þétt í sokkabuxur og pressa svo undir pottinum fullum af köldu vatni. Svo fara þau í súrinn. Namminamm.
Ég er líka búin að gera blóðmörinn, það mátti ekki dragast vegna þess að í súrdallinum verður alltaf að vera blóðmör, annars fer allt í vitleysu.
 Nú prófaði ég í fyrsta skipti að hafa Blakkogdekker með mér í verki og það reyndist prýðilega.
Ég er líka búin að gera fyrstu umferð af lifrarpylsunni en þar þýðir lítið að nota vélina nema til að byrja með, blandan er svo þykk.
Ég áttaði mig á því í fyrra að það er alveg fáránlegt að vera að kaupa sviðasultu fyrir þorrablótið þegar Agnar er alltaf svo duglegur að svíða úr heimaslátruninni og þetta er einhver einfaldasta eldamennska sem um getur.
Mauksjóða fullan pott af sviðum. Þetta eru heimasviðin fullorðins. Hreinsa svo vandlega og setja í 3 mjólkurfernur og hella svolitlu af soðinu yfir. Kæla. Ég setti svo fernurnar í frost í bili vegna þess að blóðmörinn var ekki til, en nú þarf að fara skjóta innihaldinu úr 2 fernum í mysuna.
Nú verður ekki hjá því komist að bretta upp ermar og fara að grauta í eistunum.

5 ummæli:

  1. Ella mín, ég les alltaf bloggin þín þegar þau koma. Þú virðist aldrei vera verkefnalaus - ég er sammála þér um það að þetta er allt namminamm þó ekki sé það eins girnilegt að sjá í verkun. Í dag ættirðu kannski að fræða okkur um íslenska tungu? Svona í tilefni dagsins. Þú ert svo fróð um ýmislegt sem er kannski að falla í gleymsku annars. Kveðja, Tóta

    SvaraEyða
  2. Tja, ætli ég láti ekki bara nægja tungurnar í sviðunum. :) Best að hlusta bara á rás 1, ég skemmti mér konunglega yfir slettunum í tveimur íslenskuviðtölum í samfélaginu í nærmynd núna.

    SvaraEyða
  3. Ertu ekki búin að uppgötva hvað það er gaman að lesa bloggið sitt aftur í tímann. Ég les stundum hvað ég var að gera á þessum degi fyrir ári síðan og tveimur og fimm árum. Það er ótrúlega gaman. Það segir Regnhlíf líka. Þá skiptir minnstu máli hvort einhver hefur skrifað athugasemdir.

    SvaraEyða
  4. Ójújú, það er nú ekki síst þess vegna sem ég held áfram. Samt líka gaman að lesa gömlu athugasemdirnar. Var að enda við að lesa allt pabbabloggið.

    SvaraEyða
  5. Ah, mig langar í sviðatungu! Þetta er mjög impónerandi. En súrmat get ég ekki borðað, þó ég segist borða allt. (Það er þetta með allt og aldrei...)

    SvaraEyða