mánudagur, 2. janúar 2012

34. Útiljós.

Útiljós geta verið af ýmsu tagi. Snemma í desember var ég alvarlega að velta fyrir mér hvort ég nennti nokkuð að vera að vesenast með útiljósaskreytingar fyrir jólin. Húsbóndinn varð hinsvegar svo sorgmæddur við tilhugsunina og svo þegar ljóst varð að við yrðum ekki tvö að rolast hér, heldur sjö, þá tók ég á mig rögg. (þyrfti að skoða við tækifæri hver hann er þessi Röggur sem ég er þá að dröslast með?? Kannski skyldur Röggvarfeldinum sem Þorgeir nágranni minn á Ljósavatni yljaði sér undir um árið á meðan hann hugsaði)
 Ég sótti stjörnuna út í fjóshlöðu. Áður en hún var tekin ofan síðastliðin vetur slitnaði rafmagnssnúran frá vegna snjóþyngsla og ég vissi ekkert hvort einhverjir kaflar í slöngunni væru orðnir ónýtir. Þessa stjörnu gerðum við Kjartan fyrir rúmum áratug og hún á sinn fasta stað á vesturveggnum. Þegar ég hafði komið henni fyrir á borðstofuborðinu, sem er eini staðurinn sem hægt er að athafna sig með hana á, og tyllt rafmagnssnúrunni á sinn stað kviknaði ljós á næstum allri slöngunni, bara dauður einn metri. Nú jæja, það gat verra verið, ég losaði hana þá alla af, skar dauða partinn burt og setti saman á ný og festi svo allt á sinn stað, fór bara fáeinum sentimetrum styttra í allar beygjur og það kom prýðilega út.
 Eftir að ég fékk nýju gluggana hentar ekki lengur að setja græna jólatréð á vegginn framan við útidyrnar þar sem ég tími ekki að bora í nýja gluggakarminn. Þá velti ég fyrir mér möguleikunum. Mér dauðleiðast beinar línur og strik meðfram þakskeggjum, finnst það einhvern vegin of hugmyndasnautt fyrir minn smekk. En bárur þá? Í kaupstaðarferðinni sem ég nefni HÉR keypti ég rúma tuttugu metra af rauðri slöngu og við Ingimundur komum henni upp. Ég tengdi rafmagnssnúruna á, bræddi herpihólkinn utan um og klippti svo tengilinn af.
 Ingimundur fór út og upp í stiga og boraði gat efst á eldhúsgluggapóstinn. Þar þræddum við snúruna inn og ég setti tengil á og við settum þetta í fjöltengi sem er falið á bak við jólagluggakappann. Svo var næst að búa til bárur. Ég get frætt ykkur á því að næst gerum við þetta helst þegar hiti er yfir frostmarki því að þá er slangan þjálli. Ingimundur prílaði allnokkrar ferðir upp og niður stigann með rafmagnskapalfestingar og hamar og þetta er alveg viðunandi barasta.
Ég fór út í kvöld til að mynda og þetta er svona um það bil það sem ég sá. Að vísu prófaði ég alls konar stillingar á flassi og það var ýmist of eða van en þessi var skárst.
Þessi sýnir litina þó betur.
 Þetta er vesturveggurinn, bárurnar eru líka á norðurveggnum. Hinir veggirnir blasa ekki við almenningi að ráði svo við létum þetta duga núna.

3 ummæli:

 1. Sæl og gleðilegt ár, erindið var að hrósa vinnumanninum sem þú hefur við höndina þegar mikið liggur við.
  Bestu kveðjur að vestan, Kristjana

  SvaraEyða
 2. Ójá einmitt, það er óhætt. Bestu kveðjur til baka.

  SvaraEyða
 3. Ég elska svona útiljós:) Finnst ekkert gaman að hafa bara myrkur.

  SvaraEyða