laugardagur, 21. janúar 2012

40. Bollur

Það var ekki bara kæfan sem var búin. Það er nauðsynlegt að eiga alltaf eitthvað af skyndiréttum. Til dæmis bollum sem hægt er að hella í pott og sjóða fyrivaralaust.
 Ég átti stóra plötu af hakki í frosti. Hér er hún komin í bala ásamt nokkrum eggjum og mjöli úr ýmsum pokum sem ég fann í skápnum og slatta af kryddi.
 
Ég spurði Mörtu kvöldið áður hvort hún væri ekki til í að gera með mér kjötbollur og hún er svo jákvæð að hún játaði alveg án þess að hafa hugmynd um hvað hún væri að fara út í. Við stóðum tímunum saman (fannst mér að minnsta kosti) og mótuðum og steiktum.
 Það veitti ekkert af að kynda í tveimur pottum. Og jájá, ég veit að eldavélin er ekki hrein þarna en ég get svarið að hún varð það daginn eftir. Ef einhver er að velta fyrir sér hvað eggjaskurnin er að gera þarna þá er það þannig að ég vil ekki gefa hænunum hráa eggjaskurn því það eykur líkur á að þær fari sjálfar að brjóta og éta eggin sín. Ég vil halda því fyrir mannfólkið þannig að ég baka skurnið á eldavélinni og myl svo handa þeim. Þannig fá þær kalkið sitt til baka að hluta.
Nú er stór sekkur af kjötbollum í frystinum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli