sunnudagur, 22. júlí 2012

73. Langferðalög.

Fyrir ekkert svo óskaplega löngu síðan rakst ég á grein í Bændablaðinu um keppnina Ull í fat. Þar kom fram að til stæði að halda hana á Hvanneyri á safnadaginn þann 8. júlí. Nú jæja, þetta var ekki langur fyrirvari en ég hafði umsvifalaust samband við okkar lið, Norðanvindur og spurði hvort við yrðum ekki áreiðanlega með? Því miður reyndust vera allnokkur afföll enda margir á faraldsfæti á þessum árstíma. Ég tilkynnti samt þátttöku og til að gera langa sögu stutta voru sorglega dræmar undirtektir víðar þannig að það endaði með því að liðin voru höfð fámenn eða aðeins tveggja manna í stað 4-5 sem oftast er. Við skröpuðum saman í tvö lið sem kölluðust þá Norðaustanvindur og Norðvestanvindur.
Nú kom það upp að föðurbróðir minn féll frá og við ákváðum að fara að jarðarförinni á Ísafirði, ég, tveir bræður mínir og mamma.
Á fimmtudegi plantaði ég fjólum í blautan mosa í þessari körfu og ók til Akureyrar eftir vinnu. Þaðan héldum við mamma svo áfram um kvöldið á hennar bíl og léttum ekki fyrr en í Bitrufirði á ströndum en þar hafði okkur verið útveguð næturgisting. Snemma að morgni föstudags komu svo bræður mínir akandi frá Reykjavík og gripu okkur með til Ísafjarðar. Þangað var gott að koma og við höfðum svolítin tíma til að rölta um gamlar slóðir en ég bjó þar í nokkur ár. Jarðarförin var svo klukkan tvö og fór vel fram enda góður maður kvaddur eftir langa ævi. Afskaplega gott að hitta margt skyldfólk og veðrið lék við okkur.
 Ekki var til setunnar boðið því bræður stefndu alla leið til Reykjavíkur um kvöldið en við mamma sváfum aftur í Bitrufirðinum þar sem hún treysti sér ekki í lengri dagleiðir. Þykir kannski engum mikið þar sem hún er komin á níræðisaldurinn. Eftir morgunverð á laugardag ókum við svo líka suður á bóginn og beint í Handverkshúsið þar sem var dálítið verslað enda ekki orðið um auðugan garð að gresja á landsbyggðinni ef mann vantar íhluti í handverkinu. Svo fórum við í Kópavoginn og þaðan ásamt fleirum í Garðakirkjugarð til pabba þar sem við reyttum og tættum um stund. Nú var mál að slaka á en morguninn eftir fékk ég far með henni Maríu að Hvanneyri og eftir góða kjötsúpu var hafist handa. Verkefnið var að spinna og prjóna sjóvettling sem átti að vera af tiltekinni stærð, með munsturbekk og að sjálfsögðu tvíþumla.
 Þetta eru Norðaustanvindur og af einhverjum ástæðum hittir ljósmyndarinn á mig alveg grafalvarlega en það var nú aldeilis ekki þannig allan daginn get ég fullyrt. Við háðum þarna harða keppni við Ullarselskonur og við Maja vorum fyrstar en margt er tekið með þegar dómnefnd ákveður sig og Norðvestanvindur sigruðu.
 Það þýðir náttúrulega bara að við Norðanvindurnar sjáum um að halda næstu keppni og þá skal verða tekið á því. Síðast þegar við sáum um hana náðum við saman 24 keppendum.
Hér er afrakstur dagsins og meiga allir bara vel við una. Við Jenný gistum svo um nóttina í gamla bændaskólahúsinu og það var gaman. Fyrst fórum við þó í kynnisferð um Borgarfjörðinn þar sem Jenný réði för. Fyrst lá leiðin í Hespuhúsið þar sem Guðrún Bjarnadóttir litar band og þar var ekki vandi að láta tímann líða. Eftir það ókum við upp allan Lundareykjadal til ættingja Jennýar og þar með var dagurinn fullnýttur.
ég held svo að næst þegar ég sest hér verði ég að setja færslu á gamladagabloggið. Sjáumst þar bráðum.

laugardagur, 21. júlí 2012

72. Stuttmyndahátíðin Ræman

Alla daga gerist eitthvað sem er blogghæft, í dag til dæmis var haldin stuttmyndahátíðin Ræman á Laugum í Reykjadal en þar er eitt af fáum bíóum á landsbyggðinni.. Við brugðum okkur í bíó ömmustelpan, mamma hennar og ég og horfðum á 7 stuttmyndir, þar á meðal var Engin Traffík. Ég var að vísu búin að fara í bíó á Kópaskeri í vor og sjá myndina í íþróttahúsinu þar  og fékk þá líka myndina á diski en það er auðvitað allt önnur upplifun að sjá sig á alvöru bíótjaldi.
 Hér eru þær búnar að koma sér fyrir
 og bíða spenntar. Með snuð og bleika uppáhalds hreindýrstusku. Fljótlega þvarr þolinmæðin þó og þær mæðgur brugðu sér í gönguferð en við höfðum stungið gamla silverkrossinum í skottið á bílnum. Þær komu svo og horfðu af og til og barnið var að sjálfsögðu til hreinnar fyrirmyndar. Hún var ekki yngsti gesturinn því þarna var líka tveggja mánaða kríli og elstu áhorfendur voru á níræðisaldri.
 Á eftir brugðum við okkur svo í sund. Sumir virðast nokkuð brúnaþungir með nýju sundhettuna sína þegar þeir synda á eftir bleika krossfiskinum.
 Hér kemur daman úr kafi.
Og svo er bara að þurrka sér vel á eftir og lætur maður sig ekki muna um að lesa eins og eina bók í leiðinni. Með krosslagða fætur beint upp í loftið.
Indælt að fá sopa á meðan maður bregður sér svo í fötin.