laugardagur, 4. janúar 2014

109. Jólabréfið

Ég set jólabréfið hér inn með sama hætti og í fyrra, það er að segja ég hendi út myndunum og set þær inn aftur beint. Annað virkar ekki og þá get ég líka haft þær stærri þegar ekki þarf að hugsa um pláss á blaði eða hvort liturinn í prentaranum dugi.

Jólabréf 2013

Þá liggur fyrir að tína saman punkta í jólabréf. Það er ekki eins auðvelt og í fyrra þar sem ég hef verið latari að blogga en það er svo þægilegt að fletta upp í slíkum færslum. Árið fór rólega af stað og mín vegna hefði það bara gjarnan mátt halda þannig áfram en í byrjun febrúar tók ég eitt rangt skref og féll á hnéð. Í stuttu máli kostaði það margar myndatökur, skoðanir og sjúkraþjálfun, auk hálfs árs veikindaleyfis. Ekki fór að birta fyrr en um mánaðamótin apríl maí þegar ég komst til læknis í Orkuhúsinu og þá loks var gerð smáaðgerð og rétt greining og þá byrjaði að batna almennilega. 
Um miðjan mars sleit Kjartan hásin í körfubolta og svona tókum við mæðginin okkur út um páskana:

Í mars var stóri afastrákurinn hann Agnar Daði fermdur á Húsavík og þar kom saman margt gott fólk, sumir á hækjum og sumir ekki.

Ekki er við því að búast að veröldin standi í stað þó að ein og ein manneskja detti úr gír og á sauðburði urðu menn að gera svo vel að bjargast án mín. Hér er til dæmis hún Elín Rut ásamt foreldrum að störfum í fjárhúsinu um miðjan apríl.

Í júní  var haldið árlegt kvennahlaup og ég hafði með sjálfri mér ákveðið að skrönglast það einhvern veginn og það tókst! Ég setti mér að komast stystu vegalengdina sem er 1 kílómetri á Laugum og tók göngustafina í staðinn fyrir hækjurnar sem var misráðið. Tvær góðar konur um og yfir áttrætt voru alltaf að staldra við eftir mér þó að ég fullvissaði þær um að það yrði allt í lagi með mig.

Undir lok mánaðarins fórum við hjónin að ættarmóti föðurfjölskyldu minnar í Hrútafirðinum og þaðan fór ég svo ásamt mömmu og fleiri félögum í Þjóðháttafélaginu Handraðanum alla leið til Karlskrona í Svíþjóð og þar eyddum við fyrstu viku júlí. Við sýndum okkur þar og sáum aðra sem „gamladagafólk“ á strandmenningarhátíð og þetta var heilmikil upplifun. Ég þorði ekki annað en að taka hækjurnar með en þurfti lítið að grípa til þeirra nema smávegis á flugvöllum.
   Hér er hópurinn skartbúinn fyrir utan Blekingesafnið.

 Í júlí héldum við líka upp á 13 ára afmæli Ívans en hann var hjá okkur lungann úr sumrinu.
 Í ágúst gerðist svo eitt það besta en þá eignuðust Kjartan og Elsa hans þriðja barn sem er stúlka sem fékk strax nafnið Sigrún Heiða. Við fórum og hittum hana um miðjan mánuðinn.

Í sama mánuði lauk Agnar 43 ára starfi hjá Búnaðarsambandinu og ég hóf störf sem skólaliði í sameinuðum Þingeyjarskóla og er aðallega í Hafralækjardeild. Ég er líka áfram í heimilishjálpinni sem hefur þó dregist nokkuð saman hjá mér. Þetta er ágætt en slítur óneitanlega í sundur fyrir manni daginn. Ég byrjaði á því þegar ég réði mig að biðja um nokkurra daga frí til að selja slátrið og fékk það svo í september. Mér finnst það eiginlega ómissandi á hverju hausti og sem betur fer virðast yfirboðararnir þar og flestir kúnnarnir vera alveg sammála mér.

20. október varð Linda Elín 15 ára og þann dag hélt hún litlu systur sinni undir skírn í Eiríksstaðakirkju á Jökuldal. Ingimundur og Marta komu ekki þangað, enda liðu ekki nema tveir dagar þangað til enn kom ný stúlka í heiminn! Já takk, nú á ég 3 ömmustráka og hvorki fleiri né færri en 4 ömmustelpur! Það hafa aldeilist jafnast kynjahlutföllin hjá afkomendunum mínum tíu.
 Ég hitti litlu skottuna 6 tíma gamla og hún tók brosandi á móti mér.
14. desember var haldin nafnveisla og þá hugði ég gott til glóðarinnar að ná öllum mínum saman á mynd en það gekk nú upp og ofan eins og við er að búast þegar þriðjungur hópsins er 3 ára eða yngri. Þegar búið var finna nafn barnsins á púsluspili kom í ljós að hún heitir Ada Sóley. Eitt íslenskt nafn og eitt pólskt og skilyrði að auðvelt sé að bera nöfnin fram á báðum tungumálum.

Jóhann var staðráðinn í að halda á litlu systur,
 Sigrún Heiða og Elín Rut eru eitthvað að skoða 
og Ada Sóley er sennilega að bíða eftir að verða nógu stór til að gera eins og hinir krakkarnir. 
Afi fékk lánaða húfuna Jakobs og fannst hann voða fínn.
  

   Amman er hér með ríkidæmið:
Ingimundur                 Kjartan              Róbert Stefán
Ada Sóley      Jóhann Smári, Sigrún Heiða      Elín Rut
   Ívan Veigar                Linda Elín               Jakob Ágúst   
  
Hjartans jóla og nýjárskveðjur héðan úr sveitinni.

 Svona var sem sagt jólabréf ársins, mér finnst ég ekki hafa gert árinu nægileg skil á blogginu og set væntanlega að minnsta kosti eina færslu hér enn sem tilheyrir síðasta ári.