fimmtudagur, 28. júní 2012

71. Fermingarstúlkan

Það hefur lítið upp á sig að undirbúa fermingarveislu ef ekkert er fermingarbarnið.
 Hún staðfesti hátt og skýrt.
 Bræður hennar tóku virkan þátt: Jóhann Smári var prestinum til halds og trausts, hann fikraði sig nær og nær, um hálft rassfar í senn í trausti þess að ekki nokkur maður tæki eftir því,
 og Sölvi var aðstoðarmeðhjálpari afa síns.
 Stelpurófan er að vaxa ömmu sinni yfir höfuð!
 Hún valdi að vera í kjólnum sem ég saumaði á Maríu í West side story í fyrravetur, ég þurfti reyndar að þrengja hann svolítið og lagfæra en mér fannst hún gullfalleg. Hún var líka með eyrnalokka sem ég fékk í fermingargjöf og með sálmabók og klút sem mamma hennar fermdist með. Það var talsverð gjóla þegar var verið að taka myndir eftir athöfnina og mér dettur í hug tiltekin kvikmyndaleikkona þegar ég sé þessa mynd.
 Þessi mynd er hreint ekki góð en ég læt hana samt koma með af því að gestabókin sem fermingarbarnið smíðaði og málaði sjálf er svo fín.
 Hún hélt sína fyrstu einkasýningu þarna. Á borðinu eru ýmsir gripir, meðal annars silfursmíði úr skólahandavinnu vetrarins,
og á veggnum eru myndir, allt frá frumbernsku til þeirrar sem hún lauk við á meðan mamma hennar greiddi henni um morguninn. Gestir höfðu orð á að þessu þyrfti hún að halda áfram og það gerir hún mjög líklega vegna þess að á óskalista fyrir ferminguna voru myndlistarvörur. Það er ekki laust við að ég sé stolt af barnabörnunum mínum enda er hjá þeim talsvert af handverksgenum.

Uppfært: Hér er betri mynd af gestabókinni góðu, set hana hér þó seint sé.

sunnudagur, 24. júní 2012

70. Nýtt líf

Nú ætla ég að taka mig á og skjóta inn færslu úr daglega lífinu eins og ég var vön á meðan bloggarar voru virkari og settu ummæli hjá hver öðrum í talsvert meiri mæli en nú tíðkast á hvunndagsbloggum. Það er alls ekki markviss og meðvituð ákvörðun að blogga ekki daglega eins og fyrrum heldur bara nenni ég ekki eins oft þegar viðbrögð eru dauf. Reyndar er mér líka sagt að stundum sé erfitt að koma inn athugasemd hjá mér fyrir þá sem ekki eru innvígðir í bloggskráningarkerfin og það finnst mér súrt.
Þessa góðviðrisdaga hef ég verið flestum stundum útivið og hamast við handverkið. Þess á milli er ég svolítið að reyna að missa ekki garðinn í órækt og vitleysu og fylgjast með lífinu allt í kring um mig.
 Talandi um garðinn er ég ekki enn búin að koma á sinn stað fáeinum salatplöntum en um daginn reyttum við Jakob þó burtu ókjör af grasi, fíflum og öðru því sem ég ekki vil rækta en skildum eftir jarðarber og fjólur sem eins og áður hefur komið fram er heimilt að vaxa hvar sem þær vilja. Ekki er hægt að reyta burtu gróður án þess að jarðvegur fari með og í fyrradag bar ég í lægðina nokkrar fötur af gömlum hænsnaskít og mold og nú er að blanda og vona að kræsingarnar verði ekki of sterkar fyrir grænfóðrið. Þarna er ég búin að vera að bleyta duglega í en allur jarðvegur hér er orðinn skelfilega þurr.
 Hér eru mosakrukkurnar sem ég talaði um í síðustu færslu en nú er ég búin að taka blóm og lyng úr, hella vatninu af og svo er bara að láta þorna vel og geyma. Hægt að nota aftur á sama hátt hvenær sem er. Skiptir ekki máli hvort er eftir daga, vikur eða ár.
 Hérna sagði ég ykkur frá maríerlu sem komin var með fjögur egg. Þau urðu sjö og svona er staðan núna! Foreldrarnir meiga hafa sig öll við að bera heim vistir en því miður er annað þeirra svo úr hófi varfærið að það þorir helst ekki að stinga sér inn til barnanna á meðan ég er að störfum.
 Kjáninn situr  heldur ýmist á þakrennunni,
 girðingum,
 eða jafnvel sínu eigin húsþaki og bíður þess að ég gufi upp. Eins og ég viti kannski ekki hvar fjölskyldan er til húsa?! Ég byggði húsið sjálf! Dæs.
Þess má geta að fuglaljósmyndarar eiga mína virðingu óskipta fyrir þolinmæði sína.
 Hér er gamla Súla sem var dregin heim á hlað til að nota í varahluti en þegar átti að toga hana til baka var komið babb í bátinn.
Undir lokinu þarna framan við stýrið er þetta. Gamla hræið fær að standa þarna þangað til herra og frú Þröstur eru búin að útskrifa hópinn.

laugardagur, 23. júní 2012

69. Fermingarskreytingar

Nei þetta gengur bara ekki krakkar mínir, mánuðurinn að verða búinn og hann var að byrja!
Hér var sem sagt undirbúin ferming eins og áður hefur komið fram. Fermingarbarnið var búin að óska eftir að ég og mamma hennar sæum um skreytingar ásamt henni sjálfri og efnið átti að vera úr umhverfinu.
 Við fórum um hraunið mitt og fengum þar yndisleg sýnishorn af Íslandi og hér eru þau komin heim í garð og fjóluskreytingin tilbúin sýnist mér. Fjólurnar rækta sig sjálfar allt í kring um mig í garðinum mínum.
 Svo hélt ég áfram að pússla. Þetta er aðalskreytingin sem fór á hlaðborðið. Mosagrunnur, hraunmolar, sortulyng og fjalldrapi. Ekkert mál að skipta seinna út lynginu og nota aftur og aftur ef vill.
 Þetta er kökuborðið. Þar var meðal annars lambagras og bláberjalyng.
 Við fatahengið eru glerkrukkur og hraun með skófum. Ég var að velta fyrir mér að nota krukkur og vefja þær kannski með blúndum eða striga eins og fellur svo mikið í kramið núna en þegar til kom var þetta miklu betra svona; tært vatn og birkihríslur annars vegar og hins vegar mótaði ég mosabolta í víðar niðursuðukrukkur þannig að að hann sneri allsstaðar út, fyllti þær svo af vatni og stakk í mosann sortulyngi og hvítasunnuliljum. Fór aftur heim með strigann.
 Þegar við röltum um skógarreitinn minn skömmu áður tók Drífa upp brotna birkihríslu og fór af rælni að svegja hana til, kryddaði svolítið og þetta varð útkoman. Undir eru svo tvær mosakrukkur með hrafnaklukkum sem eru mínar uppáhalds númer eitt.
 Borðskreytingarnar voru einfaldar; sortulyngsgreinar lagðar langsum.
Gleymdum ekki litla skotinu við hliðina á miðasölunni í andyrinu.
Svo var bara að spara ekki úðabrúsann á mosann og allt var svo ljómandi fínt.
Fleiri skreytingar sjást kannski í næstu færslu, ég lofa að láta hana ekki dragast lengi.
Munið að myndirnar stækka ef smellt er á þær.

þriðjudagur, 5. júní 2012

68. Hreiður

Eins og stundum fyrr finnst mér að ég hafi yfirdrifið nóg fyrir stafni. Nú á að ferma hér næsta sunnudag. Neinei, misskiljið mig ekki, ég var búin með þann pakka, yngsti sonurinn er nefnilega 31 árs í kvöld klukkan 22.32 og til hamingju með það barnið gott ef þú lest þetta þarna suður í buskanum. Nú er það hinsvegar eldri nafnan mín sem taldi einboðið að fermast hér þar sem hún var jú skírð hér! En ekki hvað? Þetta fannst flestum fín hugmynd þó að enginn hafi sennilega verið eins ánægður með hana eins og afinn hér á bæ sem er orðinn óhóflega heimakær og fer sjaldan af stað í ferðalög með bros á vör. Heppinn hann :). Ég held því ákveðið fram að þetta sé í framkvæmd og umsjón foreldranna eins og vera ber en þar sem ég er tengiliðurinn á staðnum leggst mér ýmislegt til og einn stærsti þátturinn er að reyna að rýma til og þrífa húsið þar sem hér verður miðstöð helstu þátttakenda í nokkra daga. Nú hefur þvottavélin gengið linnulaust dögum saman enda búinn að vera fínasti þurrkur. Fullt af rúmfötum, gluggatjöldum og ekki síst allra handa skítagallar úr sauðburðinum sem lauk í gær þegar ég togaði frá Langsokku fínustu gimbur sem valdi að koma aftur á bak í heiminn. Merkilegt hvað vinnufólkinu hefur tekist að óhreinka margar spjarir sem ég er búin að vera að tína saman í þvottahúsi, geymslu og forstofu en þetta er nú allt að verða komið held ég sem er eins gott þar sem fyrstu droparnir eru að detta á gluggann í þessum töluðum orðum. Bændum þykir það væntanlega tímabært þar sem ekki hefur komið dropi úr lofti vikum saman eða síðan seinni vetrinum lauk. Fræ og áburður bíða í ofvæni býst ég við.
Ég gaf mér tíma nýlega til að mynda hreiður og hér eru tvö:
 Hér er elsku maríuerlan flutt í húsið sem ég byggði handa henni uppi á suðurvegginn
og hér hefur verið hreiðrað um fallegasta ungann í gamla silverkrossinum sem er ömmuvagninn í sveitinni.