mánudagur, 5. nóvember 2012

82. Gott mál??

Það var hringt í mig í kvöld frá SÁÁ. Stúlkan sagði að þau væru að safna undirskriftum og spurði hvort ég kannaðist við málið. Ég taldi það en bað hana þó að skýra það til öryggis. Hún sagði að verið væri að fara fram á að tiltekinn hluti áfengisgjalds verði settur í afar gott málefni sem hún tiltók. Segja ekki allir já við slíku? Ég spurði hana hvar ætti þá að skera niður á móti og hún hváði. Jú, ég sagði að væntanlega lægju þessir peningar ekki einhversstaðar ónotaðir, einhverju þarf þá að sleppa í staðinn? Hún hafði greinilega ekki verið búin undir svona spurningu og ég sagði að sjálfsögðu nei. Ég veit mínu viti en ég hef ekki hundsvit á því hvernig best sé að raða niður þeim fjármunum sem eru til skiptanna og veit það vel að fæstum finnst þeir fá það sem þeir "nauðsynlega" þurfa. Við kjósum fólk til þessara verka og ég öfunda þau alls ekki neitt. Ég get vel haft skoðanir á því hvað á að gera eins og allir hinir en ég get ekki tiltekið hverju á þá að sleppa og þar af leiðandi væri það afar óábyrgt að taka þátt í þessu. Ég er til að mynda afar mótfallin niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni svo dæmi sé tekið.
Verst að ég gleymdi alveg að spyrja hvernig farið er að ef maður segir já. Hvernig er tryggt að ég hafi gefið samþykki mitt ef nafnið mitt fer á plaggið?
Ég er mjög efins um þjóðaratkvæðagreiðslur og undirskriftasafnanir um málefni sem varða fjármál. Viljum við ekki öll borga minna og fá meira? Eða kannski bara flest?