laugardagur, 20. október 2012

81. Jurtafæði.

Við vorum fleiri á Hrafnagili en við mamma og Jakob, ég set bara yfirleitt ekki mjög margar myndir í hverja færslu. Jakob var nefnilega ekki einn á ferð, litla systir var með í för. Mamman leit af henni um stund.
Það er henni greinilega meðfætt að lifa á því sem landið gefur og njóta hollustunnar af því.
Ég er hrædd um að það séu fleiri en blessuð sauðkindin sem ráðast á skóglendið.
Áhrif birkis: Þvagdrífandi, bólgueyðandi, svitadrífandi, örvar lifrina og hreinsar blóðið. Arnbjörg Jóhannsdóttir.
Tíminn líður og síðast þegar hún var í sveitinni fékk hún sér sem oftar góðan dúr í gamla ömmuvagninum. Hér sýnir hún okkur allar hvítu perlurnar í munninum eftir blundinn.
Hún er farin að ferðast talsvert upp á eigin spýtur. Hér kannar hún aðstæður inni hjá afa,
kom sér síðan fyrir undir rúmi og kynnti sér nautaúrvalið á Hvanneyri.
Verið þið róleg, ég leyfði henni ekki að innbyrða neitt af nautablöðunum en eins og aðrir á hennar aldri er hún viss um að langbesta rannsóknaraðferðin sé að smakka og helst éta upp til agna sem flest. Bara svo sjaldan sem fullorðna fólkið skilur það.
Ég minni á að til að stækka myndirnar smellirðu á þær, "skógar"myndirnar njóta sín betur þannig.

miðvikudagur, 17. október 2012

80. Í gamla daga.

Nú er snjóföl á jörðu svo að það er best að blogga um góðviðrisdag í sumar. Ég fór að Hrafnagili og var gamladagafólk.
 Ég var með vitlausu snældu eða vinglu og spann hrosshár. Fyrst er að tæja það niður í svolitla hrúgu. Ég geri það venjulega niður á gólfið en þarna var gola svo ég mátti ekki hafa fallið hátt.
 Svo er að vinda það saman,
 festa vindilinn á nagla á borðinu og spinna.
 Þráðurinn er svo smátt og smátt undinn í rjúpu utan um annað prikið á vinglunni og hér er ég farin að tvinna úr tveimur rjúpum.
Mamma var með halasnældu og ull. Á myndinni er líka kljásteinavefstaður.
 Jakob kom að líta á okkur og var óðara dubbaður upp í viðeigandi klæðnað. 
 Hann kastaði hækjunum og greip exi í staðinn og hóf að höggva í eldinn.
Ýmsar aðferðir reyndar.
Nú er hægt að kynda undir pönnunni.