þriðjudagur, 20. desember 2011

33. Bókahillur

Best að myndasegja hér um bókahilluframkvæmdirnar um daginn. 
Fyrst ætla ég að setja hér myndina sem þeir fóru með á bókamessuna í Frankfurt á dögunum ásamt mörg hundruð eða þúsundum annarra. Ég sá meir að segja hillunum mínum bregða fyrir í einni sjónvarpsfréttinni að utan.
Þarna er nokkuð ljóst að það þarf að endurskipuleggja og bæta við hillum. Það er einboðið að gera slíkt þegar verið er að mála.
 Fyrst lá fyrir að losa efstu og nyrstu hilluna á aðalbókaveggnum, en hún var að sligast undan þunganum, og venda henni eins og gert var við flíkurnar í gamla daga þegar þær voru farnar að slitna. Setja svo vinkil undir hana miðja vegu. Hún fer að vísu ekki að snerta vinkilinn nærri strax þar sem hún er enn ekki alveg búin að rétta úr sér en það kemur að því eitthvert árið.
 Já og mála. Ég málaði ekki áðurnefndan aðalbókahilluvegg, það hefði verið alger klikkun, lét duga að þrífa þar. Geri slíkt ekki tiltakanlega oft.
 Svo ákvað ég að vera ekkert að setja þarna upp aftur gömlu rauðu hilluna sem hefur verið þar nokkur ár, ég nefnilega reiknaði út að ef ég smíðaði þarna hillu úr frekar þunnu efni ætti að nást að hafa hana þriggja hæða og það munar um allt. Við Ingimundur söguðum niður gamla plötu og ég settist á klósettið og málaði. Það hef ég ekki gert fyrr. Að vísu var klósettið lokað og ég fullklædd en samt.. Þetta var lang hentugasti staðurinn fyrir hillurnar til að þorna. Ég skildi ekki alveg hvað væri að mér þegar ég fór svo að skrúfa saman og máta. Stundum passaði og stundum ekki. Með sömu mælingu.
 Loks áttaði ég mig á að gólfið hallaðist svo mikið þarna undir að það munaði 12 millimetrum á milli enda. Það táknaði að við annan hilluendann var pláss fyrir þrjár kiljuhæðir en ekki við hinn endann. Dööö. Auk þess hækkuðu útgefendur kiljurnar um einhverja millimetra fyrir nokkrum árum. Bara til að skemma fyrir mér held ég.
 Ég beitti ýmsum ráðum til að rýmka fyrir hillunni um örfáa millimetra. Og svo áttaði ég mig á að líka er allt í lagi að kiljur liggi á hliðinni stundum.
Hér er ég búin að endurskipuleggja, ryksuga og raða upp á nýtt öllum bókunum. Nóg pláss í nokkur ár í viðbót. Nei, ég veit að ég er ekki búin að taka til á skrifborðinu en þó er farið mest af verkfærunum held ég.

föstudagur, 16. desember 2011

32. Í kjólinn fyrir jólin.

Þetta er slagorð sumra ef ég hef skilið rétt. Það er allt útlit fyrir að ég komist í fleiri kjóla en venjulega um jólin ef svo heldur fram sem horfir. Alveg án þess að hafa viljandi gert neitt til þess. Ég vildi nú samt frekar að mér liði betur í maganum ef ég mætti velja. Þetta hlýtur að fara að lagast bara.
Að öðru; það er ekki gott að vita hvaðan á mann stendur veðrið stundum, og þó.
 Þetta er vesturglugginn minn nýi í sjónvarpsstofunni.
Og hér er norðurglugginn. Alveg magnað hvað snjóar oft mikið í kring um útiljósið, snjórinn er eins og flugurnar og leitar í ljósið.

laugardagur, 10. desember 2011

31. Klipp

Það er ekki hrist fram úr erminni að mála. Þá þarf að færa til húsgögn og áður en farið er í það er skynsamlegt að létta þau og ef verið er að róta eitthvað í dótinu í húsgögnunum er eins gott að taka til í þeim í leiðinni og til dæmis setti ég á borðstofuborðið stóran haug af dagblöðum. Ja líklega þó frekar síðum og síðupörtum, eitthvað var ég búin að klippa sumt til. Það elsta er um og yfir 20 ára gamalt og þetta er samansafn af efni þar sem fjölskyldan kemur við sögu og er þá best að taka það strax fram að ekkert af þessu fólki er "frægt". Ég er núna búin að vera allmarga klukkutíma að fara í gegn um þetta og klippa út og grófflokka. Eins og er er flokkað í Leikhús (þar sem ég kem við sögu), Minningargreinar og Annað. Annað kem ég svo líklega til með að flokka í Handverk og Fjölskyldan. Eitt og annað hefur rifjast upp hjá mér við að lesa þetta yfir og það sem kemur mér eiginlega mest á óvart er hve mörgu ég hef steingleymt. Já og hvað ég var ungleg þarna um daginn!
Eitthvað var komið inn í bækur og þarna blasir við á fyrstu síðu stutt viðtal við pabba þar sem blaðamaður spyr vegfarendur út í pólitík og pabbi spáir Vilmundi inn á þing en að hann verði þar ekki langlífur!! Ææ.
Neðri myndin er úr Þjóðviljanum 4. ágúst 1983 og þar eru Kjartan Róbertsson 4 ára, Eiríkur Örn Norðdal 5 ára og Atli Freyr Sævarsson 5 ára að leika sér við höfnina á Ísafirði.
Ég held að ég verði að fjárfesta í límstifti og fleiri úrklippubókum, það er að segja ef slíkar fást ennþá en ætli ég fresti ekki framkvæmdum á þessu sviði fram yfir jól. Frestun er að vísu alltaf mjög varasöm þegar ég á í hlut, þetta gæti þá eins dregist um önnur tuttugu ár en við sjáum til.

miðvikudagur, 7. desember 2011

30. Kúl

Jú, það er blessuð blíðan og bæirnir allt í kring.
 Mælum ber ekki alltaf saman. Hér eru gamli og nýi tíminn. Sá gamli kúrir upp við ekki allt of einangrandi glugga í skjóli við snjó og klakahellu og sýnir um það bil 3 gráður á meðan sá nýi sem hefur skynjarann utan á austurveggnum vill meina að þarna séu 11,4 gráður. Þetta var annan desember.


 Hér sjáum við spána í gær klukkan 12 á hádegi. Eins og sjá má á þessu korti er ég ekkert mjög langt frá því að vera mitt á milli þessara þriggja staða, Húsavíkur, Akureyrar og Mývatns. Það er segja ef við miðum við loftlínu.
 Svona var mælirinn hjá mér um hádegisbilið (18,3) en í kyrru veðri er samt vel hægt að nota sér snjóinn. Það gerðu Grettir og Ívan.
Í gær fóru bara sumir bílar í gang.
Nú eru ekki nema rúmar 13 gráður.
Hlýjar kveðjur að norðan.

laugardagur, 3. desember 2011

29. Fótabein

Ég er ekki að sjóða lappir vegna olíunnar fyrst og fremst heldur er hún svona hliðarafurð sem ég hef ekkert alltaf hirt. Því miður, segi ég núna eftir að ég fór á sápugerðarnámskeiðið. Aðallega er ég að hreinsa bein.
 Hér hef ég losnað við mesta gumsið.
Búið að sjóða talsvert meira, skafa og skrúbba og orðið þokkalega hreint. Þá þarf að velta fyrir sér hvað á að verða úr þessu og bora og saga þau bein sem þú veist fyrir víst hvað á að gera við. Þannig losnar miklu fyrr um merg og fitu. Svo þarf að halda áfram að sjóða. 
 Næsta mál er að blása úr leggjum og kjúkum. Það er þokkalegasta lungnaþjálfun. Sjóða svolítið meira og blása aftur til að vera viss.
 Þá er öllu raðað til þerris. Eftir nokkra daga ætti að vera ljóst hvort koma fram fitublettir einhvers staðar. Þau bein þarf að sjóða meira því að ekki viljum við að talan/skaftið/leggurinn fari að gulna og þrána með aldrinum. Samt þarf að gæta þess að sjóða ekki of mikið því að sum bein gætu þá sprungið eða morknað. Nei, lífið er ekki alltaf einfalt sko.
Þarna er svo komið að því að pússa, saga og bora meira eftir atvikum, líma og svo framvegis en ég er ekkert að fara nánar út í það núna.
 Nokkrar tölur komnar á spjöld.
 Nokkur beinasköft + þrjú hreindýrshorn.
Athugið að það er þýðingarlaust að ætla að fara að panta eftir þessum myndum því að ég á ekki eitt einasta tilbúið skaft núna enda neðstu myndirnar nokkurra ára gamlar. Þetta er bara framhaldsblogg um kindalappir :)
Eitthvað er víst til af tölum úti í Kaðlín.

föstudagur, 2. desember 2011

28. Lappir = olía

Nú til dags tala menn um olíu. Allrahanda lífdísil og hvað það nú heitir allt saman. Ég skal nú segja ykkur hvaða olíu fólkið notaði fyrr á tímum þegar ekki var til saumavélaolía á handhægum sprautubrúsa á hverju heimili.
 Þegar heimaslátrunin er búin hér á bæ ákveður Agnar hvort hann ætlar að svíða allar lappirnar eða lætur sér nægja af yngsta fénu. Restina set ég þá í pott eftir að hafa þvegið þær vandlega eða, sem er enn betra, eftir að Ingimundur er búin að flá þær, sem er vont og erfitt verk. Svo er bara að sjóða og sjóða. Ég geri þetta helst til að hreinsa beinin og blogga um þau í næstu færslu en líka er feitin af fótunum sérstök. Hún nefnilega storknar ekki og mun það vera ráðstöfun náttúrunnar til að féð sé fært um að vera á beit í frosti og snjó eins og það varð að gera hér í mörg hundruð ár.
 Ég sigta soðið í djúpt ílát.
 Þarna sést hvernig fitan er ofan á eins og alltaf.
Og hér á ég fótafeiti í flösku. Þessi feiti helst alltaf eins og spunakonur notuðu hana til dæmis þannig að þær báru hana með fjöður í ullarkembuna til að afrafmagna ullina sem búið var að þvo alla fitu úr.
Ég ætla hins vegar að gera tilraunir með að nota hana í sápugerð en það verður að bíða til næsta sumars vegna þess að ég þarf líka ferskar ilmsterkar íslenskar jurtir í tilraunirnar.
Ég tek líka fótafeitina af sviðalappasoði en það er aðeins meiri lykt af henni.

miðvikudagur, 23. nóvember 2011

27. Mála allan heiminn elsku ...

Mér gengur illa að losa mig við málningarpenslana. Nú eru búnir að vera á þvælingi innpakkaðir bakkar með málningu, pensli og rúllu drjúgan part af þessu ári. Ég get trúað ykkur fyrir því að það er hægt að geyma slíkt ósnert ótrúlega lengi í senn án þess að allt verði ónýtt. Það er aldeilis ekki þannig að ég sé búin að gera allt fínt í kring um mig. Ónei. Það eru þessi endalausu skot, kverkar, horn, hurðir, húnar, slökkvarar, handrið, þröskuldar, naglar, hillur og hvað það nú heitir allt saman. Ekkert nema hraðahindranir. Jú og svo hefur verið í ýmsu öðru að snúast á köflum. Um þessar mundir er það sjónvarpsstofan sem er undirlögð. Í þessu herbergi eru geymdar flestar bækur hússins, (alls ekki allar þó) tölvan, skrifstofudótið, slatti af garni og sitthvað fleira. Það er talsvert brambolt að færa draslið til og frá og mála dálítin kafla í einu. Þetta byrjaði náttúrulega út frá nýju gluggunum en hefur staðið til lengi.
 Fyrst var það fjárans norðurveggurinn. Ég velti því svo sem fyrir mér að ryksuga hann bara vandlega og mála svo yfir allt draslið. En svo fannst mér það ekki hægt og skrapaði og skóf og pússaði og sparslaði. Daginn eftir að ég málaði seinni umferðina byrjaði hann að bóla upp.
 Þetta er dýpsta holan. Hér byrjaði ég á að kítta, sparslaði svo yfir og gái hvussu lengi það klastur virkar, það sér ekki á því ennþá að minnsta kosti.
Annars er bara norðurveggurinn ónýtur og verður það áfram þangað til hann verður klæddur að utan. Ef hann verður klæddur.
 Hér er svefnherbergishurðin standandi í tilgangsleysi úti í horni og hefur engar dyr. Þetta er bara eins og á fínheitasíðum útlenskum þar sem gamlar hurðir gegna allra handa hlutverkum en aðallega þó til skrauts. Þessa hurð hreinsaði ég fyrir mörgum árum og það stendur ekki til að það þurfi að sinna henni neitt meira á minni æfi.
 Það þarf að skrúfa af rafmagnslok ýmis og mála meðfram gömlu gólf og loftlistunum.
Og hornum, kverkum og svefnherbergisdyrum.

þriðjudagur, 22. nóvember 2011

26. Þvottahússhurðin

Þessi indæli sumarauki hefur heldur en ekki komið sér bærilega. Fyrir það fyrsta tókst að ganga endanlega frá öllum nýju gluggunum og búið að skila vinnupöllunum. Ekki var nú síðra að við Ingimundur tókum mína ónýtu þvottahússhurð af hjörum og héldum með hana út í garð. Umrædd hurð hefur verið ónýt síðan áður en ég kom hér fyrst og ég hef svona stundum verið að litast um eftir hurð sem gæti passað í dyrnar en ekki orðið neitt ágengt. Nú þegar gangurinn var orðin svo fínn að öllu (að minnsta kosti flestu) öðru leiti var ekki um annað að ræða en að gera bara við gamla skriflið.
 Svona leit sem sagt bakhliðin út. Sem betur fór sást hún ákaflega sjaldan því að það er nánast aldrei sem fólk fer inn í þvottahús og lokar á eftir sér. Að því er mér skilst er þetta aðallega eftir einhvern löngu látinn hund. Neðst má sjá bakhliðina á biluninni sem sást alltaf á "réttunni".
Við skeyttum passlegum spýtum neðst og svo þar sem bæturnar komu til með að enda hvoru megin og Ingimundur hafði eftir nokkra leit fundið nothæfar plötur sem við felldum ofan í og sjá:
 Hér er verri hliðin fyrir málningu
og þessi snýr að almenningi og við horfum alltaf á hana með aðdáun þegar við eigum leið hjá. Vissulega sjást skil þar sem bótin endar en það er barasta allt í lagi. Eins og af öllum hinum hurðunum var ég líka búin að taka húnana og hreinsa af þeim skít og gamla málningu.
Allt tekur þetta óheyrilega mikinn tíma en er þess virði svona eftir á.
Ég er reyndar ekki alveg búin þarna því að ég held að það sé vissara að lakka þessa hurð með glæra gólflakkinu vegna þess að það mæðir extra mikið á henni af vatnssulli og skít og plöturnar eru masonit sem er einhverskonar massi sem ekki er sérlega hrifinn af vatni í óhófi. Held ég fari í það þegar ég sé fram á að vera ein heima um tíma þar sem lakkið er svo lengi að þorna.

fimmtudagur, 17. nóvember 2011

25. Pabbi

Datt í það í kvöld að fara að lesa lokaða bloggið sem við héldum úti um pabba þegar hann lá banaleguna. Lesturinn tók nokkra klukkutíma og ég skoðaði líka allar myndirnar sem við söfnuðum á síðuna. Það er gaman að lesa margt af þessu enda var talsverður húmor í gangi. Það er nauðsynlegt. Líka erfitt að lesa sumt. Ég átti snilldar pabba og ég er ákveðin í að taka hann til fyrirmyndar í viðhorfi til dauðans. Honum þótti hann hreint ekkert tiltökumál, við fæðumst og við deyjum, aðeins mismunandi langur tími sem líður þar á milli. Hann var sannfærður um að ekkert tæki við og var bara á allan hátt afskaplega sáttur. Ég var búin að gleyma að þarna get ég líka hlustað á hann því að þarna er upptaka af fundi með lækni. Gott að heyra röddina hans.
Sýnishorn af samræðum okkar, þetta var ca. 10 dögum áður en hann lést og hann átti orðið erfitt um mál:
Ég nefndi það þá að trúlega færi hann svo bráðum að sofa bæði daga og nætur og hann brosti þá og sagði að það yrði nú gaman.
Hann var prýðilega sprækur á meðan Dísa (systir hans) stoppaði en sofnaði svo fljótlega og svaf að mestu eftir það þangað til hann var vakinn í kvöldmatinn. Hann rumskaði þó einhvern tíman og spurði hvort hann væri ekki gríðarlega leiðinlegur, Ég hélt nú ekki. 

 Hér heldur hann á hinu elsta af 8 börnum sínum árið 1952.
 Svona man ég hann þegar ég var krakki.
Hér ræðum við foreldrar mínir málin síðast þegar hann kom í heimsókn til mín. Þá frétti hann að ég ætlaði að halda jólaboð og lét sig þá ekki muna um að renna þennan spöl að sunnan.
Þetta er síðasta daginn hans heima hjá sér. Þau nafna mín hafa verið að segja eitthvað sniðugt.

miðvikudagur, 16. nóvember 2011

24. Matur

Dyggir lesendur mínir undanfarin ár hafa ef til vill tekið eftir því að þetta haustið nefni ég varla nokkuð þessi hefðbundnu haustverk. Það er líklega helst vegna þess að viðbrögðin eru orðin svo lítil á þessu bloggi að þá verður maður mun latari að skrifa. Það er þó ekki alveg þannig að ekkert eigi að borða næsta árið þó að vissulega hafi ég staðið nokkuð þétt á bremsunni í haust þegar kom að forðasöfnun. Í þessum töluðum (rituðum) orðum eru  eistun í pottinum
og þegar þau hafa soðið í 90 mínútur helli ég þeim í vaskinn og þegar þau hafa kólnað nægilega til að hægt sé að handfjatla þau flysja ég af þeim himnuna og treð þétt í sokkabuxur og pressa svo undir pottinum fullum af köldu vatni. Svo fara þau í súrinn. Namminamm.
Ég er líka búin að gera blóðmörinn, það mátti ekki dragast vegna þess að í súrdallinum verður alltaf að vera blóðmör, annars fer allt í vitleysu.
 Nú prófaði ég í fyrsta skipti að hafa Blakkogdekker með mér í verki og það reyndist prýðilega.
Ég er líka búin að gera fyrstu umferð af lifrarpylsunni en þar þýðir lítið að nota vélina nema til að byrja með, blandan er svo þykk.
Ég áttaði mig á því í fyrra að það er alveg fáránlegt að vera að kaupa sviðasultu fyrir þorrablótið þegar Agnar er alltaf svo duglegur að svíða úr heimaslátruninni og þetta er einhver einfaldasta eldamennska sem um getur.
Mauksjóða fullan pott af sviðum. Þetta eru heimasviðin fullorðins. Hreinsa svo vandlega og setja í 3 mjólkurfernur og hella svolitlu af soðinu yfir. Kæla. Ég setti svo fernurnar í frost í bili vegna þess að blóðmörinn var ekki til, en nú þarf að fara skjóta innihaldinu úr 2 fernum í mysuna.
Nú verður ekki hjá því komist að bretta upp ermar og fara að grauta í eistunum.

sunnudagur, 13. nóvember 2011

23. Enn meira framhald

Best að halda bara áfram fyrst ég er í stuði.
 Sá að litlar upplýsingar voru komnar um stigaganginn.
 Þarna niðri í hægra horninu var ÞETTA LISTAVERK á bak við skógrind.
Ég sleppti því að mestu að mála hvíta hlutann í stigaganginum, Ingimundur þreif hann fyrir mig í staðinn. Norðurveggurinn er svo leiðinlegur og verður það þangað til búið er að klæða og einangra húsið utan en það er framtíðardraumur sem kannski rætist, kannski ekki.
Annar framtíðardraumur er að rífa ónýta dúkinn af stiganum og sá draumur skal rætast. Því fyrr því betra.

22. Gangurinn framhald

Já þetta er framhald af færslu 19.
Síðast þegar ég málaði ganginn (sem var um leið fyrsta sinn sem ég málaði ganginn), sem var líklega árið sem Kjartan fermdist, (og dóttir hans fermist í vor svo að það hljóta að vera nokkur ár síðan), sá ég það af hyggjuviti mínu að ekki væri hægt að mála mjög dökkt því það yrði of dimmt og þröngt. Ekki heldur of ljóst því að hér ganga um menn sem eru stundum ekkert óþarflega snyrtilegir. Lausnin var að hafa efri hluta veggjanna hvíta en neðri hlutana í ljósgrábláum lit. Þarna var ég á gráa stiginu. Mér er orðið ljóst fyrir löngu að dekkri liturinn var allt of ljós svo að nú skipti ég um gír og gerði svona:
 Reyndar sá ég þegar ég byrjaði að liturinn sem ég keypti var heldur dökkur svo að ég hellti 3 lítrum úr fötunni og setti hvítt í staðinn. Stóllinn er í geymsludyrunum til að minna á að þarna er nýmálaður þröskuldur. Þar sem dúkurinn liggur út á hann ákvað ég að ekki gengi að hreinsa hann upp eins og hina þröskuldana sem ég sýndi HÉR þannig að ég málaði hann en lakkaði svo yfir með grimmsterka glæra gólflakkinu
 
Mig langaði að krydda svolítið. Húsið var ekki hannað með tilliti til lengdarinnar á stenslinum svo að stundum mátti hnika svolítið til á milli hurða.
Ekki gengur alltaf að nota stórvirkar vinnuvélar.
 Límbandið var mikið notað. Tómt vesen, eins og þið sjáið var ég ekkert að bulla þegar ég hélt því fram að þetta væru endalaus horn og kverkar.
en með þolinmæðinni hefst það, hér er bara eftir að setja eitt lítið hjarta.