laugardagur, 10. desember 2011

31. Klipp

Það er ekki hrist fram úr erminni að mála. Þá þarf að færa til húsgögn og áður en farið er í það er skynsamlegt að létta þau og ef verið er að róta eitthvað í dótinu í húsgögnunum er eins gott að taka til í þeim í leiðinni og til dæmis setti ég á borðstofuborðið stóran haug af dagblöðum. Ja líklega þó frekar síðum og síðupörtum, eitthvað var ég búin að klippa sumt til. Það elsta er um og yfir 20 ára gamalt og þetta er samansafn af efni þar sem fjölskyldan kemur við sögu og er þá best að taka það strax fram að ekkert af þessu fólki er "frægt". Ég er núna búin að vera allmarga klukkutíma að fara í gegn um þetta og klippa út og grófflokka. Eins og er er flokkað í Leikhús (þar sem ég kem við sögu), Minningargreinar og Annað. Annað kem ég svo líklega til með að flokka í Handverk og Fjölskyldan. Eitt og annað hefur rifjast upp hjá mér við að lesa þetta yfir og það sem kemur mér eiginlega mest á óvart er hve mörgu ég hef steingleymt. Já og hvað ég var ungleg þarna um daginn!
Eitthvað var komið inn í bækur og þarna blasir við á fyrstu síðu stutt viðtal við pabba þar sem blaðamaður spyr vegfarendur út í pólitík og pabbi spáir Vilmundi inn á þing en að hann verði þar ekki langlífur!! Ææ.
Neðri myndin er úr Þjóðviljanum 4. ágúst 1983 og þar eru Kjartan Róbertsson 4 ára, Eiríkur Örn Norðdal 5 ára og Atli Freyr Sævarsson 5 ára að leika sér við höfnina á Ísafirði.
Ég held að ég verði að fjárfesta í límstifti og fleiri úrklippubókum, það er að segja ef slíkar fást ennþá en ætli ég fresti ekki framkvæmdum á þessu sviði fram yfir jól. Frestun er að vísu alltaf mjög varasöm þegar ég á í hlut, þetta gæti þá eins dregist um önnur tuttugu ár en við sjáum til.

3 ummæli:

  1. Oh, hvað ég væri til í að vinna með þér í svona málum. Það eina sem maður getur ekki safnað og geymt til seinni tíma en vildi svo gjarna eiga nóg af er tíminn.Ef maður gæti safnað til dæmis klukkutímum og mínútum og svo sekúndum og flokkað það í dósir og dalla svo ekki sé talað um daga vikur og mánuði og svo árum - svo eru til kvöld og morgnar og eftirmiðdagar. Endalaus, en fæst ekki sett í krukkur eða dalla. Gangi þér vel.

    SvaraEyða
  2. Eiríkur Örn Norðdahl er frægur :)

    Kv. Kjartan

    SvaraEyða
  3. Æijá, ég get samt ekkert verið að klippa hann út úr myndinni af þér. Hann var heldur ekkert svo frægur þegar myndirn var tekin. Hann verður bara glaður að fá að vera með þegar þú verður orðinn frægur.

    SvaraEyða