laugardagur, 23. mars 2013

95. Hálsfesti eða

Fann þennan kjól hjá Rauða krossinum á Akureyri í fyrra. Hann er afskaplega þægilegur, má fara með hann eins og manni sýnist þar sem hann krumpast ekki, hann fer vel og síðast en ekki síst; hann grennir. Að minnsta kosti hefur það komið fyrir oftar en einu sinni að fólk horfir á mig með áhyggjusvip þegar ég er í honum, og spyr hvort ég sé að leggja af? Persónulega finnst mér það ekki mikið áhyggjuefni og reyndar er ég að leggja af, en ég er aldrei spurð um það í hinum fötunum mínum.
Þegar ég fór í hann fyrir þorrablótið okkar í febrúar fann ég ekki hálsfesti sem ég var ánægð með þar sem hálsmálið er aðeins hærra en passar fyrir festarnar sem ég gerði HÉR en ég vildi eitthvað rautt. Nú jæja. Þegar mér var svo boðið á síðbúna blótið fór ég að hugsa.
Svo sótti ég þetta:
Eða réttara sagt ég bað einhvern að setja "útsaumaða" baukinn minn á borðstofuborðið, ég gat sjálf farið þangað með litla verkfærabaukinn og rauðu kúlukeðjuna sem hafði verið að flækjast inni í herberginu mínu.
Í stóra bauknum geymi ég þennan öfluga poka sem ég keypti einu sinni á útsölu í handverksbúð í Árósum eða þar í grennd. Í honum eru 222 hankir í jafnmörgum litum.
Ég byrjaði á að klippa slaufuböndin burt og sauma saman hálsmálið að framan. Kúlukeðjan er steypt á þráðinn svo að ekki þýðir að losa hana sundur og raða svo hér og þar. Ég saumaði hana því fasta þétt upp við hálslíningu frá öðrum axlasaumnum yfir að hinum, hún var ekki nógu löng til að ná allan hringinn. Svo saumaði ég með svörtu hér og þar í blúnduna þar sem hún var að hugsa um að losna eða trosna. Þá var komið að útsaumnum. Ég ákvað að fylgja í stórum dráttum grófustu útlínunum hér og þar og byrjaði á laufblaðinu hér hægra megin fyrir neðan. Það varð ekki nógu gott. Útsaumsgarnið er ekki snúðhart þannig að það varð ansi lufsulegt þegar búið var að draga það gegn um þétt efnið margsinnis. Þá hleypti ég í mig kjarki, fékk Ingimund til að fylgja mér og fór út í Tumsu (aðalvinnustofuna mína úti í gamla fjósi) í fyrsta (og eina) sinn síðan ég slasaðist. Þar tók hann niður úr hillu kassann minn með allskonar bandinu. Þar minnti mig að ég ætti hnotu af eldrauðu DMC garni og það reyndist rétt. Þegar ég var búin að sauma með því hinumegin við klaufina var það augljóslega miklu betra svo að ég rakti upp fyrsta laufið. Nú var ég eins og venjulega búin að vera miklu lengur að þessu en ég bjóst við og saumaði bara svolítið meira áður en ég fór í hann. Á óskýru myndinni í færslu 92 má sjá stöðuna.
Síðan hefur þetta bara beðið á borðinu fram undir þetta en nú er ég búin að sauma það sem ég held að sé mátulegt og fann svo auk þess nokkrar rauðar kúlur sem ég gróðursetti líka.
Nú þarf enga rauða hálsfesti
 en það er alveg hrikalega erfitt að mynda þetta þannig að litirnir séu nokkurn veginn réttir, ég er örugglega búin að henda 20-30 myndum og hér er nærmynd í snarvitlausum lit.
Og mikið sem ég hugsaði til hennar Hörpu á meðan ég var að þessu. Já og Guðnýjar þegar ég var að brasa með myndavélina.

þriðjudagur, 19. mars 2013

94. Fótafræði fjölskyldunnar.

22. júlí 2012 var sonarsonur minn á trampolíni á Akureyri og lenti einhvern veginn illa (ekki á hnéð samt) og þá flísaðist úr lærlegg og skemmdist brjósk í hnénu. Tvær aðgerðir og mikil þjálfun.

31. desember 2012 renndi bróðurdóttir mín sér á sleða í Kópavogi, lenti á snjóruðningi og ökklabrotnaði. (Náði samt heim í tæka tíð fyrir skaupið sagði hún) Gifs.

3. febrúar 2013 steig ég eitt skref hérna úti í garði, skall á hnéð og sleit krossband og liðband innanfótar tognaði illa. Helv.... vesen, þjálfun og vonandi aðgerð einhvern tíma.

17. mars 2013 var sonur minn í körfubolta á Egilsstöðum og þá slitnaði hásin. Gifs og bráðum aðgerð.

Mamma á 40 afkomendur þannig að við erum komin með 10 % á stuttum tíma.
Ætli þetta sé ekki bara að verða komið gott?
Áhættuhegðun? Tja, ég held varla.

Þegar ég grandskoða þetta sé ég þó einn ljósan punkt: Allt sem ég gúggla og skoða á netinu og heyri í kring um mig segir mér að af þessu sé lakast að slíta krossband og ég er þó að minnsta kosti fegin að það var ekki lagt á þetta unga fólk mitt. Þó að maður ráði svo sem litlu í þessari úthlutun og hitt sé allt nógu slæmt.

laugardagur, 9. mars 2013

93. Meiri upplyfting.

Í fyrradag sat ég við tölvu og síma og var að grufla í slysabótamöguleikum. Það verk er út af fyrir sig fag.
Þá hringdi grunnskólastjóri minnar sveitar og spurði hvort ég væri ferðafær. Ég hikaði við og sagði svo að það færi nú mest eftir markmiðinu hverju sinni. Hún var þá að leita að dómara í upplestrarkeppni skólans. Það leist mér vel á og sagði henni að það væri tvímælalaust miklu skemmtilegra en slysabótaleit, en ég kæmist hvorki lönd né strönd þar sem eiginmaðurinn væri staddur langt í burtu við vinnu. Hún sagðist þá bjarga því og ég fór óðara að brölta við að skola af mér. Það þarfnast talsverðrar umhugsunar og gætni; fyrst að setja stólkoll upp í baðkerið þar sem ekki gengur að standa þar undir sturtunni með hækjur og þvo sér um leið. Ekki er heldur nógu öruggt að standa allan tímann á öðrum fæti þar sem jafnvægi er ekki eins tryggt ef maður lokar augunum og ég hef tilhneygingu til þess ef sápa er á leiðinni þangað. Þetta tekst allt saman ef maður tekur sér bara nógan tíma og það gildir um allt hitt sem ég kemst ekki hjá að gera.
Það var gaman að hitta fólkið í skólanum, flesta krakkana kannast ég vel við síðan þau voru í leikskólanum en miðað við stærðina á þeim hlýtur að vera afar langt síðan. 11 krakkar lásu og við vorum þrjár í dómnefnd og það var ekkert svo einfalt að raða því þau voru öll flott.
Að loknu verki fengu þrjú börn verðlaun, öll börnin viðurkenningarskjal og dómararnir svolítinn glaðning:
 Vanillukerti.
Ég fer ekkert að segja frá því á almannafæri að ég er ekki spennt fyrir ilmkertum því að það skiptir engu máli, þetta var allt saman indælt. 
Hér heima er annars helst að frétta að í gærkvöldi kom lambateljarinn. Hann sónarskoðar ærnar og getur sagt til með nánast fullri vissu hversu mörg fóstur þær bera. Ég fékk mig flutta á bíl alveg að hlöðudyrum og gat gengið þar inn með stuðningsfulltrúana mína (hækjurnar) og beint fram eftir garðanum þar sem beið mín stóll. Þannig tókst mér að sinna skrifarastörfum. Það kemur ekki til greina að ég fari venjulegu leiðina yfir skaflinn í gerðinu og príli svo upp í garðann.

laugardagur, 2. mars 2013

92. Upplyfting

Ég var í rusli já. Í rusli yfir að vera með slitið krossband, enginn hafði giskað á það í mín eyru og við vissum að liðband innanfótar var tognað og héldum að liðþófar væru skemmdir. Liðþófar eru sum sé óskemmdir að talið er, en fremra krossband er alveg í sundur. Ég var líka í rusli yfir því að vera svona mikið í rusli. Þar kom ég sjálfri mér á óvart. Hef svo sem mátt horfast í augu við sitthvað verra en þetta. En svona er þetta bara, maður getur áreiðanlega allt lífið verið að læra eitthvað nýtt um sjálfan sig. Fólk skyldi fara varlega í það að segja "Ég myndi sko aldrei......" Þú veist nefnilega aldrei......  Þú heldur það bara. 
Nú er ég hins vegar hætt að vera í rusli. Það gerðist þannig að mér var boðið á þorrablót!! Það var síðbúið blót sem hafði verið frestað vegna jarðarfarar sem ég nefndi hér fyrr. Ég sagði sko umsvifalaust já takk. Þorrablót eru afar holl fyrir andlega heilsu mína.
Þegar Agnar heyrði mig svo segja við einhvern að ég hlyti þó að geta hangið á honum svo sem eins og einn vangadans, leit hann á mig í forundran og sagði: Ert þú að fara að dansa?!? Ja, ég er þá hættur að vorkenna þér. Ég benti honum þá á það í mestu vinsemd að hann þyrfti barasta ekkert að vera að vorkenna mér, hann ætti bara að sýna mér tillitsemi og hlýju. :)
Svo fórum við á blótið í gærkvöldi og ég hékk á honum í vangadansi  - þrisvar. Við höfum tæpast nokkurn tíma verið svona settleg í dansi fyrr, það voru hvorki sveiflur né önnur tilþrif en samt, við dönsuðum. Bara svona í horninu við borðið okkar. Við fórum tiltölulega snemma heim, fóturinn var búinn að fá meir en nægju sína af spelkunni. Þeim kemur ekki sérlega vel saman, mér skilst að það gæti skánað þegar bólgan hefur hjaðnað meira. Vonandi.
 Maðurinn minn er ekki albesti myndasmiður sem ég þekki en hér erum við komin heim á öðrum tímanum í nótt. Ég er þarna með stuðningsfulltrúana mína þrjá.
Það var gott að leggjast út af með fótinn uppi á sínum 4 koddum og þannig verð ég að mestu í dag.