laugardagur, 2. mars 2013

92. Upplyfting

Ég var í rusli já. Í rusli yfir að vera með slitið krossband, enginn hafði giskað á það í mín eyru og við vissum að liðband innanfótar var tognað og héldum að liðþófar væru skemmdir. Liðþófar eru sum sé óskemmdir að talið er, en fremra krossband er alveg í sundur. Ég var líka í rusli yfir því að vera svona mikið í rusli. Þar kom ég sjálfri mér á óvart. Hef svo sem mátt horfast í augu við sitthvað verra en þetta. En svona er þetta bara, maður getur áreiðanlega allt lífið verið að læra eitthvað nýtt um sjálfan sig. Fólk skyldi fara varlega í það að segja "Ég myndi sko aldrei......" Þú veist nefnilega aldrei......  Þú heldur það bara. 
Nú er ég hins vegar hætt að vera í rusli. Það gerðist þannig að mér var boðið á þorrablót!! Það var síðbúið blót sem hafði verið frestað vegna jarðarfarar sem ég nefndi hér fyrr. Ég sagði sko umsvifalaust já takk. Þorrablót eru afar holl fyrir andlega heilsu mína.
Þegar Agnar heyrði mig svo segja við einhvern að ég hlyti þó að geta hangið á honum svo sem eins og einn vangadans, leit hann á mig í forundran og sagði: Ert þú að fara að dansa?!? Ja, ég er þá hættur að vorkenna þér. Ég benti honum þá á það í mestu vinsemd að hann þyrfti barasta ekkert að vera að vorkenna mér, hann ætti bara að sýna mér tillitsemi og hlýju. :)
Svo fórum við á blótið í gærkvöldi og ég hékk á honum í vangadansi  - þrisvar. Við höfum tæpast nokkurn tíma verið svona settleg í dansi fyrr, það voru hvorki sveiflur né önnur tilþrif en samt, við dönsuðum. Bara svona í horninu við borðið okkar. Við fórum tiltölulega snemma heim, fóturinn var búinn að fá meir en nægju sína af spelkunni. Þeim kemur ekki sérlega vel saman, mér skilst að það gæti skánað þegar bólgan hefur hjaðnað meira. Vonandi.
 Maðurinn minn er ekki albesti myndasmiður sem ég þekki en hér erum við komin heim á öðrum tímanum í nótt. Ég er þarna með stuðningsfulltrúana mína þrjá.
Það var gott að leggjast út af með fótinn uppi á sínum 4 koddum og þannig verð ég að mestu í dag.

3 ummæli:

  1. Sæl Ella mín. Það er greinilegt að þú tekur sálfræðina á þessar "hörmungar" þínar, en þarftu ekki að fara í aðgerð til að laga krossbandið eða á þetta að gróa bara si svona? Bestu kveðjur til þín. Kristjana

    SvaraEyða
  2. Krossband festist ekki á ný án aðgerðar. Stundum virkar aðgerð, stundum ekki. Líkurnar verða metnar eftir einhvern tíma.

    SvaraEyða
  3. Þorrablót eru góð fyrir sálina, það er víst alveg ábyggilegt.

    SvaraEyða