föstudagur, 27. apríl 2012

62. Gamli sorrý Rauður.

Núna áðan, klukkan 6.26 eru 37 ár síðan ég varð mamma. Ég fór og kyssti afmælisbarnið á nánast réttri mínútu og það er ekki víst að ég hafi gert það fyrr, kannski helst vegna þess að ég held að við höfum ekki áður verið vakandi bæði á sama stað á þessum tíma. Á seinni árum hef ég stundum sent sms. 
Síðasta þriðjudag klukkan 15.47 hringdi hann og hafði þá verið að lenda í þessu:
Oj. Gamli bíllinn minn er kominn nokkuð á þrítugsaldurinn en verður nú ekki ekið meir. Fyrr þennan sama dag hafði ég pantað tíma fyrir hann í smurningu þar sem hann var kominn nákvæmlega upp í 275.000 kílómetra þegar hann stóð síðast á hlaðinu heima. Einnig hafði uppgötvast að hann var eineygður á báðum, þ.e. öðru megin á háu ljósunum en hinu megin á lágu og það var alltaf bölvað bras að skipta um perur þar sem þær eru staðsettar á bak við rafgeymana. Heppnin maður að hafa ekki verið búin að fara með hann á verkstæðið!
Við hjónin náðum á slysstað áður en sjúkrabíllinn fór með drenginn á FSA og þar var hann yfir nótt en þrátt fyrir ýtarlega leit fundust ekki brotin bein þannig að ekki er talið að neitt hafi orðið að sem ekki ætti að geta lagast með tímanum. Mar og bólgur hist og her, bæði grunnt og djúpt. Dálítið þurfti að bródera handarbak. Hundurinn Grettir virðist hins vegar hafa sloppið algerlega ómeiddur.
Og það var nú gott.

fimmtudagur, 26. apríl 2012

61. Fleiri góðir fjölskyldudagar.

Það eru ekkert endilega allir dagar góðir en hér er einn verulega góður. Síðastliðin sunnudag fermdist elsta barnabarnið mitt. Ég hef lengi velt fyrir mér hvernig góð fermingargjöf ætti að vera og komin var niðurstaða; myndavél. Skömmu fyrir settan dag var ég að hugsa um hvernig best væri að pakka inn gjöfinni og mig langaði ekki að hafa hana í hefðbundnum glanspappír og fékk svo skyndilega hugljómun. Drengurinn er afar mikill ullarsokkamaður. Ég fitjaði upp í ofboði og náði með öðrum verkum að prjóna einn öflugan sokk og fitja upp á öðrum. Stakk svo myndavélinni í sokkinn og bjó um.
 Svona leit pakkinn út. Hann fær hinn sokkinn bara þegar hann kemur næst í sveitina. Á kortinu er mynd af honum sjálfum fyrir nokkrum árum þegar ég var að kenna honum að spinna og bundið um með baggabandi. Honum leist afar vel á gjöfina og það meir að segja á meðan hann hélt að hann væri "bara" að fá par af ullarsokkum frá afa og ömmu :)
 Pilturinn er fyrir miðju í þessari röð. Þau eru ósköp settleg greyin.
 Miðar vígalegur á fermingartertuna.
 Elín Rut litla systir hvílir sig um stund hjá pabba.
 Þarna eru þær Linda Elín mín sem fermist í júní ásamt Fanneyju bróðurdóttur og þegar þær hittust þarna þá skelltu þær upp úr. Það voru ekki samantekin ráð að klæðast eins en þessa fínu kjóla fengu þær í jólagjöf frá sama frændfólkinu.
Ég reyndist ekki hafa náð neinni þokkalegri mynd af litla bróður Lindulínar en verð þá bara að vísa á tónlistarmanninn í síðustu færslu.
 Ég var vægast sagt lítið hrifin af hárinu á mér í skírninni um daginn þar sem leikhúsgreiðslan krefst þess að ég skerði ekki hár á höfði mínu fyrr en eftir síðustu sýningu. Það er ómögulegt að láta þessar þunnu lufsur líta þokkalega út undir peysufatahúfunni svona óklipptar þannig að ég ákvað að taka með mér leikhúsfléttuna og gera bara svona.
Svínvirkaði bara. Ég fékk eiginmanninn til að taka af mér þessar myndir þegar við vorum komin heim og þetta var bara þokkalegt ennþá eftir allan daginn.

þriðjudagur, 24. apríl 2012

60. Ungviðið

Eftir blogginu að dæma gæti fólk haldið að ég ætti mér ekkert líf utan leikhússins en það er nú öðru nær. Það er bara í svo mörgu að snúast að mér fallast hendur. Undanfarnir dagar hafa verið sannkallaðir fjölskyldudagar. Til að byrja með kom yngsta manneskjan ásamt fjölskyldu sinni og var tvær nætur. Snilld.
 Við prófuðum róluna hennar ömmu og hún reyndist í ágætu lagi.
 Eldhúsvaskurinn líka ágætur. Svosem ekki hægt að synda þar en þá það.
 Afi skrýtinn stundum greyið.
 Svo þegar minnsta manneskjan var farin kom hin litla manneskjan sem er reyndar satt að segja hvorki sérlega lítil né létt lengur. Kom fljótlega auga á stærðar húsgagn sem stendur (bara tímabundið vona ég) inni í stofu. Sjáið bara hvílíkum feikna hraða maður hefur náð svona strax!
 Stillum þetta aðeins.
 Æih, best að standa bara við þetta.
Þegar maður fær eitthvað í svanginn er ekkert alveg víst að allt rati upp í munn í fyrstu atrennu.

miðvikudagur, 18. apríl 2012

59. Hinsegin

Undir lok leiks eru þessar búnar að átta sig á að þær eru í hinu liðinu eins og stundum er sagt og allar horfur á að þær taki við búinu í Gröf.
Eins og þið sjáið eru þær á samfestingatímanum. Þennan röndótta saumaði ég handa mér að mig minnir í kring um 1980.

föstudagur, 13. apríl 2012

58. Hippar

Heldur löng þögn þetta, nú sýni ég ykkur hippana úr leiksýningunni. Þau nást ekki til myndatöku á búningasvæði öll í einu vegna þess að sum þeirra þurfa að hafa hraðar hendur í búningaskiptum til hliðar við sviðið.
 Hér eru þau Gíslína Gísladóttir frá Gröf og hann Eggert sem svo er nefndur vegna þess að hann hefur tilhneigingu til að kasta eggjum í ýmsar heldri byggingar þegar þannig stendur á. Ég  kartöfluþrykkti á þennan bol einhvern tíma endur fyrir löngu og hann var löngu orðinn ónýtur. Ég var áreiðanlega einhvern tíma búin að staðsetja hann hjá tuskum þegar ég guggnaði og setti hann upp í skáp hjá fermingarfötunum mínum og fleiri merkisflíkum og svo gleymdi ég honum. Ég gladdist síðan ákaflega þegar ég fann hann í búningagramsinu í vetur og er ekkert að kippa mér upp við að bæði skuli vera farnar ermarnar og hálsmálið.
Hér eru svo hinar hippastelpurnar. Ég var búin að heyra að til væri nóg af hippafötum sem gerð voru fyrir einhverja sýningu áður en ég kom þarna að málum en þegar ég fór að skoða í þann poka  leist mér ekkert á blikuna. Þetta voru skyrtur sem höfðu verið hnýttar á ýmsan veg með snæri og litaðar svo með öskrandi neonlitum. Allt í lagi á grímuball en ekki í leiksýningu þar sem ég er skrifuð fyrir búningavinnu. Þá lá fyrir að tína saman allt sem gæti virkað hippalegt, indverska bómullin, útsaumur og blóm. Kalla svo leikarana saman og máta og púsla. Ég segi ekki að útkoman verði alveg eins og ég helst vildi en ég hef ekki aðstöðu til að benda bara á myndir og segja þetta vil ég fá. Sumir leikarar kannski líka of langir, stuttir eða breiðir til að passa í flíkur sem annars væru aldeilis tilvaldar. Þetta er eini hópurinn sem er með skartgripi utan hvað diskógellurnar eru með eyrnalokka. Þess má geta að svörtu sokkarnir eru ekki á leiðinni inn á sviðið, stelpunni var bara kalt á tánum.