fimmtudagur, 26. apríl 2012

61. Fleiri góðir fjölskyldudagar.

Það eru ekkert endilega allir dagar góðir en hér er einn verulega góður. Síðastliðin sunnudag fermdist elsta barnabarnið mitt. Ég hef lengi velt fyrir mér hvernig góð fermingargjöf ætti að vera og komin var niðurstaða; myndavél. Skömmu fyrir settan dag var ég að hugsa um hvernig best væri að pakka inn gjöfinni og mig langaði ekki að hafa hana í hefðbundnum glanspappír og fékk svo skyndilega hugljómun. Drengurinn er afar mikill ullarsokkamaður. Ég fitjaði upp í ofboði og náði með öðrum verkum að prjóna einn öflugan sokk og fitja upp á öðrum. Stakk svo myndavélinni í sokkinn og bjó um.
 Svona leit pakkinn út. Hann fær hinn sokkinn bara þegar hann kemur næst í sveitina. Á kortinu er mynd af honum sjálfum fyrir nokkrum árum þegar ég var að kenna honum að spinna og bundið um með baggabandi. Honum leist afar vel á gjöfina og það meir að segja á meðan hann hélt að hann væri "bara" að fá par af ullarsokkum frá afa og ömmu :)
 Pilturinn er fyrir miðju í þessari röð. Þau eru ósköp settleg greyin.
 Miðar vígalegur á fermingartertuna.
 Elín Rut litla systir hvílir sig um stund hjá pabba.
 Þarna eru þær Linda Elín mín sem fermist í júní ásamt Fanneyju bróðurdóttur og þegar þær hittust þarna þá skelltu þær upp úr. Það voru ekki samantekin ráð að klæðast eins en þessa fínu kjóla fengu þær í jólagjöf frá sama frændfólkinu.
Ég reyndist ekki hafa náð neinni þokkalegri mynd af litla bróður Lindulínar en verð þá bara að vísa á tónlistarmanninn í síðustu færslu.
 Ég var vægast sagt lítið hrifin af hárinu á mér í skírninni um daginn þar sem leikhúsgreiðslan krefst þess að ég skerði ekki hár á höfði mínu fyrr en eftir síðustu sýningu. Það er ómögulegt að láta þessar þunnu lufsur líta þokkalega út undir peysufatahúfunni svona óklipptar þannig að ég ákvað að taka með mér leikhúsfléttuna og gera bara svona.
Svínvirkaði bara. Ég fékk eiginmanninn til að taka af mér þessar myndir þegar við vorum komin heim og þetta var bara þokkalegt ennþá eftir allan daginn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli