mánudagur, 9. janúar 2012

37. Meira af bókahillum.

Ætli ég haldi ekki aðeins áfram með bókahillublogg frá færslu 33.
 Fyrst er það barnabókadeildin. Ég held að þarna séu örugglega allar þær bækur sem ég eignaðist í æsku auk margra sem ég hef bætt við síðan. Sumar eru merktar sonum mínum en þó held ég að þeir hafi nú tekið flestar sínar séreignir. Bók er ekki sérlega góð barnabók nema allur aldur geti notið þeirra. Það á ekkert að vera að bera á borð fyrir börn lélegt rugl. Mér fannst eitthvað verulega skemmtilegt að sjá bækurnar í gluggakistunni svo að ég mátti til að mynda.
 Í þessa gluggakistu passaði föðurarfurinn nánast akkúrat. Þar er sitt af hverju og ég held þeim bókum sér eitthvað áfram.
Ég hef aldrei átt sérstakt húsgagn ætlað undir geisladiska enda kannski ekki mikil notkun á slíkum á mínum bæ miðað við marga aðra. Samt var nú löngu kominn tími á slíkt og það beið bara þessarar málningar og endurskipulagningar.
Hér er ég loks búin að opna flata pakkann sem var niðri í geymslu og farin að skrúfa saman.
Æi sjitturinn, þarna varð ég að saga ögn af nýmálaða dyraumbúnaðinum efst :(  En svo passaði allt fínt fínt.

Hér er svo allt komið á sinn stað við nýmálaðan vegginn, yngri deildin vinstra megin, pabbi hægra megin. Ég á eftir að lesa bækurnar sem liggja þar í miðhillunni, ég tók þetta skipulega og setti mér að lesa allt nema kannski ekki lyfjabókina, guðsorðið og orðabókina orði til orðs. Verð þó að viðurkenna að ég gafst upp á ævisögu Jóns Þorlákssonar þegar komið var dálítið aftur í pólitíkina, allt í lagi með uppvöxt og skóla, harkaði af mér með verkfræðingsárin en gugnaði eftir það. Gafst líka upp í seinna bindinu af Hannesi Hafstein, hef ekki getað fellt mig við dýrkunina á þeim manni þó að honum hafi vissulega verið ýmislegt til lista lagt. Þarna eru ýmis rit sem ekki eru alveg nýútgefin, nokkur yfir aldargömul. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli