laugardagur, 26. október 2013

105. Sigrún Heiða

Á föstudag fyrir viku byrjaði ég á að taka til í húsinu sem hafði ekki verið gert ansi lengi. Mér finnst svo vont að koma heim í fullt af drasli þegar ég er búin að vera í burtu. Harka það frekar af mér dagsdaglega. Eftir hádegið kom svo Ingimundur með Ívan og sneri síðan aftur heim til sinnar konu þar sem þau voru að bíða eftir að eignast dálítið telpukorn. Ívan lagði hinsvegar af stað með okkur gömlu hjónunum og stefan var tekin á Egilsstaði til að byrja með. Ég hrökk illa við þegar nokkuð var liðið á ferðina þegar ég áttaði mig á að ég hafði gleymt myndavélinni heima. Það kemur þó ekki alvarlega að sök þar sem  ég er búin að fá eitthvað á annað hundrað myndir frá Kjartani og Elsu, sem mágkona hennar tók á sunnudaginn.
Á Egilsstöðum vorum við í góðu yfirlæti nokkuð fram á næsta dag, ég fór til dæmis ásamt ömmustelpu og bróðurdóttur í Rauðakrossbúð staðarins og fann þar bunka af rennilásum með meiru, - blogga frekar um það á dótablogginu - og svo var lagt af stað upp að Eiríksstöðum á Jökuldal en þaðan er tengdadóttir mín. Nú kom sér vel að við vorum á okkar rúmgóða vetrarbíl þar sem við vorum orðin 11 saman á tveim bílum með fullt af  mat, sparifötum og öðru dóti. Á áfangastað lögðum við undir okkur eitt stykki hús og bráðlega bættust mamma, Fríða og Ívar í hópinn og þarna borðuðum við kvöldmat og létum fara vel um okkur.
Kjartan var eitthvað í matarstússi og Elsa í kökustússi og Fríða fór til kirkju að prófa hljóðfærið og unglingarnir þrír eltu hana í myrkrinu.
Svo rann upp stóri dagurinn; Linda Elín átti fimmtán ára afmæli þann 20. október og þann dag klukkan ellefu hélt hún systur sinni undir skírn í Eiríksstaðakirkju.
 Á fyrstu myndinni má glöggt sjá að allir höfðu eitthvað að iðja; prestur messar, systur horfast í augu, mamman er vatnsberi, pabbinn reynir að siða soninn (sem var mun þægari þegar hann var skírður þarna fyrir tæpum 3 árum), sonurinn kemur í veg fyrir það með róttækum ráðum, ég hamast við að fylgjast með því hvenær mál sé að kveikja á skírnarkertinu og hinn skírnarvotturinn, móðurafinn, íhugar hvernig þetta muni nú allt saman fara. Held ég.
 Mikið eru stelpurnar mínar fínar og fallegar. Sú stóra er í kjól sem hún keypti og breytti svolítið en sú litla í kjól sem ég saumaði þegar ég var nítján ára.
 Hér í lokin sést að kirkjan er ekki stór, þar eru 10 bekkir sem rúma hver um það bil 3 medium manneskjur eða fjórar grannar.
 Þarna náðist að taka alveg þokkalega mynd af fjölskyldunni ásamt öfum og ömmum og sú litla er ekki beint syfjuleg.
 Hér situr svo pabbinn og horfir stoltur á villibráðarborðið sem hann átti heiðurinn af utan hvað tengdamóðir hans bakaði sínar snilldar bollur. Já og maturinn var alveg ljómandi góður.
 Tæplega þriggja ára ömmuljósið mitt var ekki sérlega samvinnuþýtt þennan dag og aftók að taka meiri þátt í hópmyndatökum.
 Þessi stúlka var hins vegar til í hvað sem var.
Þegar mamma hennar sýndi mér höfuðskrautið sem hún hafði keypt, greip ég bút af kjólefninu og kryddaði svolítið blómið.
Nú var kominn tími til að hvíla sig eftir stóran dag og sjáið bara englavængina!

Eftir þetta allt saman var orðið mál að snúa heim á leið enda styttist í næsta stórviðburð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli