Þess er væntanlega ekki langt að bíða að hún Sigrún litla mín Heiða verði ekki lengur yngsta ömmubarnið svo að ég ætla að standa við að setja hér myndirnar sem ég tók þegar ég fór að hitta hana um miðjan ágúst. Verst hvað mér tókst illa upp með fókusinn en látum slag standa.
Hér eru þær systur sultuslakar við sjónvarpsgláp. Stóri bróðir er þarna líka með snuðið sitt og Ívan frændi með heyrnartólin. Ég tuðaði eitthvað um það við stóru stelpuna mína að svarta snjáða naglalakkið væri ekki sérlega fínt en hún sagði að það væri einmitt svo flott. Barnið er ekki vant að skrökva að mér svo að ég verð víst bara að skipta um skoðun. Og þó.
Nú eiga flest smábörn einhverskonar mjúka huggtusku eða traustklút eða hvað sem best er nú að kalla fyrirbærið. Kemur í stað uppáhaldsbangsanna sem tíðkuðust í mínu ungdæmi og er vissulega að mörgu leyti meðfærilegra og fer betur í þvotti. Þarna er ég að ota að henni tuskunni sem ég færði henni en hún virðist láta sér fátt um finnast.
Þegar við vorum á ferðinni var Ormsteitið á lokasprettinum og ég notaði afmælisdaginn minn í að vera með svolítið af dóti á markaði. Þarna eru ömmubörnin að leysa mig af og stelpan setur sig svo vel í hlutverkið að hún setti upp gleraugu ömmu sinnar en lesturinn gekk víst ekkert betur við það. Merkilegt!
Kósýstund með fjölskyldunni. Læt þessa fylgja með þó að aðalnúmerið sé í felum. Afi er með fjarstýringuna, Lindalín með símann, Ívan í tölvunni, Jóhann Smári með söngbók eftir Stefán Jónsson og Kjartan með litlu stelpuna sína. Dalalífið sem ég var að lesa liggur svo á borðinu. Húsmóðirin á heimilinu sést hvergi enda vandséð hvar hún hefði átt að koma sér fyrir.
Síðasta myndin er algjör snilld.
SvaraEyðaJá Elsa mín, fólk virðist una sér hreint prýðilega heima hjá þér:)
SvaraEyða