Tímabært að fara að segja eitthvað hér, nóg hefur gerst. Ég tók sem sagt stefnuna suður á land undir lok síðasta mánaðar og var samferða litlu nöfnu minni en faðir hennar fór til að taka nokkur próf sem hann gerði með sóma eins og hann er vanur. Ég hins vegar fór á stefnumót við bæklunarlækni í Orkuhúsinu 30. apríl. Ekki var laust við að ég væri spennt og kvíðin enda búin að bíða þessa dags lengi. Ég hafði óskað mér þess heitt og innilega að hann vildi gera eitthvað fyrir mig annað en bara að líta á gripinn og segja nokkur orð og viti menn; mér varð að ósk minni. Hann sagði sem svo að líklega væri rétt að spegla hnéð, en þá eru gerð tvö göt og farið inn um annað með myndavél en verkfæri inn um hitt og svo er svissað á milli ef þannig fellur. Þetta fannst mér afar vel til fundið þar sem mér var orðið ljóst að ég fylgdi ekki venjulegum ferli í þessu frekar en sumu öðru. Þetta átti ekkert að vera svona mikill sársauki svona oft. Lækninum þótti líklegt að krossbandið væri í einhverju kuðli og - eða að örvefur væri að flækjast fyrir inni í hnénu og - eða að skemmd væri í liðpúða þó að slíkt hefði ekki sést í segulómuninni. Hann sagði að sitthvað gæti verið athugavert sem segulómun sýndi ekki.
Ég spurði ofurvarlega hversu fljótt myndi vera hægt að gera þetta, hvort það væri kannski möguleiki áður en ég færi aftur norður svona til að spara ferðina sem vægt orðað var óþægileg. Ég varð að halda mér til að takast ekki á loft þegar hann sagði að hann ætti að geta smeygt mér inn í aðgerðardag viku síðar sem var sem sagt í gær. Ég var skjálfhent þegar ég kvittaði undir hjá ritara og sveif síðan út (á hækjunum).
Við Róbert Stefán vorum svo upprifin að við ákváðum að gera áhlaup á fjármálaráðuneytið líka og töluðum þar við mann sem ég hef verið að skrifast á við og augliti til auglitis er miklu erfiðara að víkjast undan því að svara, þannig að þar náðum við líka fínum árangri.
Þessa viku sem leið á milli læknisverkanna hef ég bara að mestu haldið kyrru fyrir með góðu fólki utan hvað ég eyddi nokkrum klukkutímum í Kolaportinu um helgina með sonardóttur og bróðurdóttur og við nutum þess allar að dóla þar um án þess að einhver væri að reka á eftir okkur. Við fundum þar nokkrar öndvegis flíkur, harðfisk og söl með meiru og fengum okkur ís í hádegismat. Skelfing var nú samt gott að hvíla fótinn er heim kom.
Í gærmorgun fór ég svo fastandi í Orkuhúsið og var svæfð í fyllingu tímans. Það gekk fínt og ég vaknaði líka eins og ekkert væri og svo kom læknirinn og sagði mér til að byrja með að krossbandið hefði ekki verið alveg í sundur!!! Hann hreinsaði af því talsverðan örvef, snyrti líka og hreinsaði skemmdan liðpúða og taldi að þetta ætti að geta orðið þokkalegt. Ég spurði hann hvort ég gæti ekki gert ráð fyrir að komast til Svíþjóðar í júlí og hann sá ekkert því til fyrirstöðu. Ekki gott að segja hvenær ég verð vinnufær en ég er staðráðin í að vera bjartsýn. Líðanin var ekki sérlega góð í gærkvöldi þegar deyfingin dvínaði og ég svaf ekki vel en það er að skána. Er ekki viss hvenær ég legg í ferðalagið norður en það skiptir ekki öllu máli því eins og Agnar segir, ég geri hvort eð er ekkert að gagni!
Í morgun sendi ég svona póst:
Þrennt er það sem ég var að brjóta heilann um í nótt og mig langar að glöggva mig á:
Í fyrsta lagi er það krossbandið, hangir það á bláþráðum eða er það "bara" svolítið trosnað? Má vænta þess að það byggist upp og styrkist eða verður það tæpt alla tíð?
Í öðru lagi var ég að velta fyrir mér hvort nokkuð hefði verið að frétta af tognaða liðbandinu innanvert á hnénu eða var það utan sjónmáls í spegluninni? Ég held að þar sé ég mjög að koma til en bólgan er samt nokkur enn.
Eru ekki þokkalegar líkur á að ekki þurfi meira inngrip í hnéð en þjálfun muni bæta það sem bætt verður, eða??
Kveðja, Elín Kjartansdóttir.
Sæl
Fremra krossabndið leit betur út en mig hafði grunað í upphafi, það hangir á meira en nokkrum þráðum, styrkist hvorki né veikist með árunum ef þú heldur þér á mottunni J Maður sér ekki liðbandið að innanverðu en greinilegar bólgur voru þar til staðar sem ég hreinsaði. Ég prófaði liðbandið þegar þú varst sofnuð og gat ekki fundið neinn óstöðugleika í því. Vonandi að framtíða inngrip þurfi ekki
Kv
Gauti
Halda mig á mottunni, jájá. Ætli það ekki bara. Svona lítur minn fagri fótleggur út núna. Einhver ókennilegur fótbolti sem ég veit ekki vel hvað ég á að gera með.
Bras að setja inn bloggfærslur í gömlu fartölvunni en ég held að það sé að takast.
Sæl, mikið er gott að þú hefur fengið meðferð á hnénu og vonandi dugar þetta þér og vonandi miklu meira en það til viðunandi lífskilyrða :)
SvaraEyðaMeð bestu batakveðjum,
Kristjana
Eins og talað út úr mínu hjarta :) Takk og kveðjur vestur.
SvaraEyðaHildigunnur Rúnarsdóttir bað mig á facebook að skila þessu til þín: Ekki gætirðu skilað til hennar systur þinnar að ég lesi alltaf bloggin hennar en síðan leyfir mér bara engan veginn að setja inn komment! Glatað með þessi hnjávandræði, vonandi gengur vel að batna!
SvaraEyðaÆi en leiðinlegt! Ég sem er búin að vera að sakna hennar úr blogglandinu.
EyðaNú geta samt sumir kommentað sem nafnlausir samanber hér efst. Skrítið og fúlt.
Bestu þakkir fyrir kveðjuna.
Knús og batn!
SvaraEyðaTakk og takk.
SvaraEyðaÞetta eru nú frekar góðar fréttir! Hvernig hefur líðanin verið síðan speglunin var gerð?
SvaraEyðaVonandi líður þér og hnénu enn betur núna :)
SvaraEyðabloggaðu
SvaraEyða