Já, nú er vissulega betri tíð, um 20 stiga hiti dag eftir dag, en kannski væri það nú heppilegra minna og jafnara fyrst að jörð og vatn hendist af stað í þvílíku óðagoti að ekki ræðst neitt við neitt.
Hjá mér persónulega sem slíkri (sagt í minningu föður míns) er líka mun betri tíð, heilsan batnar hratt og eg er farin að geta sitt af hverju. Ég er til dæmis farin að aka bíl svo að ég kemst í sjúkraþjálfun upp á eigin spýtur, ég er farin að vinna stund og stund í báðum vinnustofum, og nota ekkert hækjur heima og lítið úti. Ég þarf þó að hafa þær innan seilingar því ég þreytist fljótt ef vegalengdir eru verulegar eins og til dæmis í stórum verslunum (Byko, Húsasmiðjan og Glerártorg).
Eftir að ég setti síðustu færslu var ég áfram nokkra daga fyrir sunnan og var í blöðruframleiðslu.
Ég hef ekki áður skartað svona pattaralegu fyrirbæri þessarar gerðar og þegar ég sendi bæklunarlækninum mynd af þessu upplýsti hann að svona hefði hann ekki séð á sínum starfsferli, "allavega ekki svona stórt" Ég svaraði honum að víst væri stundum gaman að skera sig úr fjöldanum en hvað þetta varðaði hefði ég alveg getað sætt mig við að vera bara eins og hinir. Ég hélt þegar þetta var að byrja að þetta væri ofnæmi undan litlu plástrunum en hann sagði að þetta gerðist stundum vegna þess að plástrarnir toguðu í húðina. Hann setti mig á ruddalegan lyfjakúr vegna sýkingarhættu og með það flaug ég heim í Aðaldalinn. Frábært að hafa beint flug þangað, ekki síst þar sem lendingar eru oftast miklu þægilegri en þegar flogið er ofan í Eyjafjörðinn. Það er plús fyrir flugveika.
Ég átti ekki að fara aftur af stað í þjálfun fyrr en allt væri gróið og er nú búin að fara í tvo tíma og nú verður tekið á því. Alveg er mannskepnan merkileg að láta sig hafa það að vera markvisst pínd og borga svo fyrir það í þokkabót! En með illu skal illt út reka eins og þar segir. Það er búið að búa til málshætti og orðtök um allt mögulegt til að fólk sé frekar tilbúið til að láta hvað sem er yfir sig ganga.
Verkir og bólga eru á undanhaldi og nú ætla ég að taka myndir alla þriðjudaga til samanburðar. Ég vel þriðjudaga vegna þess að aðgerðin var á þriðjudegi fyrir 4 vikum. Á þessari mynd er ég að rétta úr báðum fótum eins og mér er mögulegt og sjá má að annað hnéð vill ekki fara alveg niður að laki og er ívið þykkra en hitt. Allt er þó þokkalega gróið en ennþá er tilfinningin útvortis við ytra gatið eins og þegar tannlæknadeyfing er farin úr eftir átök.
Talsvert vantar á að hægt sé að rétta og beygja fótinn eins á að vera og göngulagið er ekki sérlega virðulegt, sérstaklega þegar ég þarf að vera meðvituð um hvert skref til að rétta vel á réttum stað í þjálfunarskyni. Stigaganga er líka eitthvað sem ekki gerist alveg af sjálfu sér. Hafið þið spáð í hvað hún er flókin ha? Tvisvar undanfarið hef ég hlaupið og mikið var það gaman, í seinna skiptið gat ég meir að segja valhoppað líka! Gamanið fór af í bæði skiptin þegar ég vaknaði.
Þetta fólk kom og gisti ásamt foreldrum nýlega og það er alltaf gaman. Þarna hjóla þau í spretti.
Nú er ég búin að sitja mun lengur en fóturinn vill, en ég skal reyna að láta ekki líða svona langt á milli næst, þakka öllum hlýjar kveðjur.
Innilega til hamingju með daginn yngsti sonur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli