Ég klikkaði á að blogga að minnsta kosti mánaðarlega. Best að lofa engu vilji maður ekkert svíkja. Í nógu er að snúast, aðventutónleikar kirkjukórsins í gærkvöldi og þar var ég skikkuð í kaffinefnd sem er aldrei í sérstöku uppáhaldi hjá mér en eftir tónleikana er öllum boðið til kaffiveitinga sem jafnast fyllilega á við meðalfermingarveislu þar sem kórfélagar keppast við að toppa í Hnallþórum. Ca. 100 manns á öllum aldri komu í kaffið. Jarðarför í dag á Húsavík og ætli ég stefni ekki á að grufla eitthvað í jólagjafamálum um helgina. Það er bara þannig að mér hefur víst láðst að geta þess hér að í ágúst síðastliðnum hóf ég störf sem skólaliði í sameinuðum Þingeyjarskóla með aðalstarfsstöð í Hafralækjarskóladeild og eftir að ég var búin með mitt hálfs árs veikindafrí um miðjan júlí finnst mér að orkan sé ekkert nema í slöku meðallagi og lítið ( lesist: ekkert) gerist yfirleitt eftir lok hvers vinnudags.
Mér fellur vinnan prýðilega og gaman að vera innan um allt þetta fólk. Krakkana þekkti ég orðið bara suma síðan í leikskólanum forðum en í gærkvöldi heilsuðu mér öll börnin hlýlega og það er notalegt.
Talandi um hlýlegt: Á mínum rafræna útihitamæli stendur núna þetta: -21,1
Ég vil hafa myndablogg og hér eru nokkrar ríflega mánaðargamlar myndir. Það skal tekið fram að húðlitur barnsins hefur leiðréttst með aldrinum.
Við spjölluðum saman um stund...
... og svo sagði hún afa meiningu sína.
Svona er þetta nú bara afi minn!
Ég hlakka ósköp til að hitta hana og væntanlega alla hina afkomendur mína um næstu helgi en þá stendur til að gefa upp hvað litla stúlkan mín heitir.
Hér kemur svo aðalkveikjan að þessari bloggfærslu. Skelfing fara flugurnar þarna í taugarnar á mér. Og svo er það auðvitað alltaf þannig að maður hefði gjarnan viljað taka aðeins til fyrir svona myndatökur en blessaðir mennirnir birtust bara svona óforvarendis og ég frétti það bara þegar ég kom heim úr vinnunni.
mér finnst nú skrýtnara að hafa kveikt á útvarpinu
SvaraEyða