föstudagur, 13. apríl 2012

58. Hippar

Heldur löng þögn þetta, nú sýni ég ykkur hippana úr leiksýningunni. Þau nást ekki til myndatöku á búningasvæði öll í einu vegna þess að sum þeirra þurfa að hafa hraðar hendur í búningaskiptum til hliðar við sviðið.
 Hér eru þau Gíslína Gísladóttir frá Gröf og hann Eggert sem svo er nefndur vegna þess að hann hefur tilhneigingu til að kasta eggjum í ýmsar heldri byggingar þegar þannig stendur á. Ég  kartöfluþrykkti á þennan bol einhvern tíma endur fyrir löngu og hann var löngu orðinn ónýtur. Ég var áreiðanlega einhvern tíma búin að staðsetja hann hjá tuskum þegar ég guggnaði og setti hann upp í skáp hjá fermingarfötunum mínum og fleiri merkisflíkum og svo gleymdi ég honum. Ég gladdist síðan ákaflega þegar ég fann hann í búningagramsinu í vetur og er ekkert að kippa mér upp við að bæði skuli vera farnar ermarnar og hálsmálið.
Hér eru svo hinar hippastelpurnar. Ég var búin að heyra að til væri nóg af hippafötum sem gerð voru fyrir einhverja sýningu áður en ég kom þarna að málum en þegar ég fór að skoða í þann poka  leist mér ekkert á blikuna. Þetta voru skyrtur sem höfðu verið hnýttar á ýmsan veg með snæri og litaðar svo með öskrandi neonlitum. Allt í lagi á grímuball en ekki í leiksýningu þar sem ég er skrifuð fyrir búningavinnu. Þá lá fyrir að tína saman allt sem gæti virkað hippalegt, indverska bómullin, útsaumur og blóm. Kalla svo leikarana saman og máta og púsla. Ég segi ekki að útkoman verði alveg eins og ég helst vildi en ég hef ekki aðstöðu til að benda bara á myndir og segja þetta vil ég fá. Sumir leikarar kannski líka of langir, stuttir eða breiðir til að passa í flíkur sem annars væru aldeilis tilvaldar. Þetta er eini hópurinn sem er með skartgripi utan hvað diskógellurnar eru með eyrnalokka. Þess má geta að svörtu sokkarnir eru ekki á leiðinni inn á sviðið, stelpunni var bara kalt á tánum.

5 ummæli:

  1. :) ég á mynd af þér í þessum bol að klippa Yngva bróður ca, árið 1972. Eða eitthvað svoleiðis. Eins gott að það var ekki búið að henda honum! Og svo á ég reyndar líka alveg dásamleg hippaföt, svona ef þig skyldi einhverntíma vanta þannig seinna. En þau fengjust bara lánuð, ég tími ekki að farga þeim eða gefa.

    Fríða

    SvaraEyða
  2. Gaman væri nú að sjá mynd af Ellu í kartöflubolnum : )

    SvaraEyða
  3. Ójá, ég á enga mynd af honum sjálf en ég á mynd af mér í öðrum sem ég þrykkti með hjarta, spaða, tígli og laufi. Ertu viss um Fríða að myndin sé ekki af honum. Hvenær ætli ég komi því í verk að fara að prófa skannann á prentaranum mínum?

    SvaraEyða
  4. Þetta er svo flott hjá þér. Fallegir búningar og skemmtilegur heildarsvipur.

    SvaraEyða