föstudagur, 27. apríl 2012

62. Gamli sorrý Rauður.

Núna áðan, klukkan 6.26 eru 37 ár síðan ég varð mamma. Ég fór og kyssti afmælisbarnið á nánast réttri mínútu og það er ekki víst að ég hafi gert það fyrr, kannski helst vegna þess að ég held að við höfum ekki áður verið vakandi bæði á sama stað á þessum tíma. Á seinni árum hef ég stundum sent sms. 
Síðasta þriðjudag klukkan 15.47 hringdi hann og hafði þá verið að lenda í þessu:
Oj. Gamli bíllinn minn er kominn nokkuð á þrítugsaldurinn en verður nú ekki ekið meir. Fyrr þennan sama dag hafði ég pantað tíma fyrir hann í smurningu þar sem hann var kominn nákvæmlega upp í 275.000 kílómetra þegar hann stóð síðast á hlaðinu heima. Einnig hafði uppgötvast að hann var eineygður á báðum, þ.e. öðru megin á háu ljósunum en hinu megin á lágu og það var alltaf bölvað bras að skipta um perur þar sem þær eru staðsettar á bak við rafgeymana. Heppnin maður að hafa ekki verið búin að fara með hann á verkstæðið!
Við hjónin náðum á slysstað áður en sjúkrabíllinn fór með drenginn á FSA og þar var hann yfir nótt en þrátt fyrir ýtarlega leit fundust ekki brotin bein þannig að ekki er talið að neitt hafi orðið að sem ekki ætti að geta lagast með tímanum. Mar og bólgur hist og her, bæði grunnt og djúpt. Dálítið þurfti að bródera handarbak. Hundurinn Grettir virðist hins vegar hafa sloppið algerlega ómeiddur.
Og það var nú gott.

2 ummæli:

  1. Ég held að þú þurfir að fara að setja bloggið um elsta bróður á gamladaga bloggið :)

    SvaraEyða
  2. Farið hefur fé betra (er sko að tala um bílinn). Mér fannst alltaf eins og hann væri bara að bíða eftir því að velta sér í vegarkantinum þegar ég keyrði hann þarna forðum. Til hamingju með frumburðinn annars :)

    Fríða

    SvaraEyða