Sauðburður tekur stundum á. Til dæmis er öll burðarhjálp búsins komin í/á mínar hendur með svona afleiðingum.
Stundum þarf að fara talsvert langt inn í þröngt rými til að snúa lambi, sækja fót eða hagræða á annan hátt. Þá getur þurft að beita hendinni á ýmsa ómögulega vegu og þrýstist þá stundum þétt að beinum móðurinnar. Ég veit sjaldnast nákvæmlega skil á svona marblettum en þannig verða þeir til. Þetta hefur hingað til tekist prýðilega í vor og líka hafa fósturmæður tekið aðskotalömbum fagnandi og ekkert verið að gera sér rellu yfir því að sum þeirra virðist hafa fæðst með eyrnalokk. Það skýrist af því að stundum er búið að merkja og marka lambið áður en nýja mamman tekur við. Eins gott að hafa góðar einlembur til að taka við þegar hér eru komnar tvær fjórlembdar og fimm þrílembdar af þessum 49 sem bornar eru. Ærnar eru bara hannaðar með tvo spena og þó að þær ráði sumar vel við að næra þrjú lömb er betra að jafna þetta svolítið.
Þó að lítið hafi komið hér inn undanfarið er ekki eins og ekkert gerist. Leiksýningum lokið og margir hafa tjáð hrifningu sína af verkinu, minnsta ömmuljósið flutti til Akureyrar í gær, ég keypti mér bíl og vorinu lauk með stæl.
Þetta blasir við út um gluggann núna, nýi gamli Galloperinn, gamli ónýti Hiluxinn, bilaði bíllinn hennar Mörtu, hestakerran sen kom aðeins við sögu í sambandi við búferlaflutninga í gær og svo auðvitað fjárhúsið sem tekur mestan tíma manns núna bæði daga og nætur. Ónýta dráttarvélin kemur málinu ekkert við.
Þarna blasa líka við afgangarnir af allt of stórum sköflum sem okkur áskotnuðust á sunnudag og mánudag. Veðrið er mikið að lagast og í morgun var bjart og fínt um tíuleitið þegar ég drattaðist fram úr( fór að sofa klukkan 5:30) og ákvað í bjartsýniskasti að rífa allt af rúminu og ná að setja hreint og ilmandi á aftur fyrir nóttina. Nú er vélin að verða búin að þvo og kominn bleytuhraglandi á norðurgluggana. Ætti ég kannski að láta eins og ég taki ekki eftir því og hengja samt út?
Jájá, segiði svo að ég bloggi aldrei!
Búin að setja þurrt og ilmandi á rúmið :)
SvaraEyðaÉg fór á fætur á nákvæmlega sama tíma og þú fórst að sofa (5:30) en ekki til að þvo þvott heldur til að hlaupa eins og bjáni út um allan bæ. Misjafnt hafast mennirnir að um hábjargræðistímann
SvaraEyðaKomdu og taktu á móti lömbum, þá tekur þú þátt í bjargræðinu.
EyðaÞað er nokkuð ljóst að þér leiðist ekki þessa dagana :)
SvaraEyða