mánudagur, 30. júní 2014

115. Maífærsla.

Á vorin er ungviðið úti um allt. Sauðburður gekk alveg prýðilega þetta vorið. Eins gott því að mér finnst eins og við séum eitthvað að eldast, hvernig sem á því stendur. Ég brá mér líka suður í afmæli og veiddi þar í leiðinni öndvegis sauðburðarhjálp sem var hér nokkra daga og allt saman bjargaðist þetta ágætlega.

Rauðhetta var með þeim fyrstu og þarna er hún komin út í vorið með þrílembingana sína.
 5. maí báru mæðgurnar Kræða og Rut og voru báðar fjórlembdar. Hér er Kræða með hvítan hrút og þrjár svartar gimbrar. Og kippir sér ekkert upp við að hafa eignast á einum degi 4 börn og 4 barnabörn.
 Hér er forystugimbrin úti að leika sér og það kemur ykkur kannski ekki á óvart að hún heitir Fluga.
 Ég fékk Ívan með mér upp í skóg og fékk hann til að príla upp í tröppu með myndavél til að mynda hrúgur mér sýndust geta verið hreiður hátt upp í trjám.
Hér reyndust vera egg sem breitt er vandlega yfir. Þau eru ofursmá.
 Í öðru tré var þetta þrastahreiður. Þar er ekkert verið að pjattast með sængur og kodda.
Það var mikil Maríuerluumferð í hesthúsinu á sauðburðinum en mér tókst aldrei að finna hreiðrið. Ungarnir eru nú talsvert fullorðinslegir svo að einhvers staðar hafa þeir búið. Þegar ég var að leita ofan við fjárhúsið tók ég eftir umferð hjá gömlu dráttarvélinni sem Agnar notaði alltaf með fárra daga millibili til að færa til rúllur.
Þar var þetta framan við vatnskassann. Eins gott að vélin var aldrei í gangi neitt lengi í einu.
Orðið ansi þröngt enda voru þeir farnir út í heim mjög skömmu síðar.

Nú er líklega rétt að fara að skreppa út og gera eitthvað af viti, það er verið að tala um veðurbreytingu en veðrið er búið að vera frábært í allt vor og það sem af er sumri, oft yfir tuttugu stig og það stundum í sólarlausu. Mér fannst ekki mikill húmor í því að vera að gera vorhreingerningar í skólanum við þær aðstæður.
Hver veit nema það komi júnífærsla í réttum mánuði? Það fer víst hver að verða síðastur með það.

4 ummæli:

  1. Sóttirðu dýragrasið hér á bak við út í móa eða sáðirðu því? Eða er myndin kannski tekin úti í móa?

    SvaraEyða
  2. Ég labbaði yfir það á leiðinni frá forystusafninu að bílnum við skólann. Tók margar myndir af mörgum blómum.

    SvaraEyða
  3. Mér finnst alveg kominn tími á nýja færslu!

    SvaraEyða