Handverkurinn
Hér blogga ég um sitthvað sem ég er að bardúsa og allra handa vangaveltur mínar.
mánudagur, 12. febrúar 2018
mánudagur, 1. janúar 2018
Meira jólaboð
Sko bara, ég er farin að blogga árlega!!!
Fékk sendar myndir og stenst ekki mátið að setja þær líka hingað inn. Takk Elsa.
Ada Sóley og Sigrún Heiða bíða í ofvæni eftir að fá eitthvað í svanginn. Bekken í bakgrunni :)
Hópknúúús. Þarna eru þrjár stelpur sko.
Sumir sleikipinnar eru miklu hollari en aðrir.
Slakað á í sögustund hjá pabba/föðurbróður.
sunnudagur, 31. desember 2017
Jólaboð 2017
Já, ég er lifandi svei mér þá. Nú er eftir að vita hvort ég man hvernig fólk býr til bloggfærslur.Það var sú tíð að ég bloggaði daglega en ég geri síður ráð fyrir að taka upp þann sið núna. Við sjáum til hvað verður. Í apríl á þessu ári lét ég undan allsterkum félagslegum þrýstingi og stofnaði fésbókarsíðu en það gerir alls ekki sama gagn. Þar er fínt að halda utan um samskiptin í handverkshópum, leikfélaginu, kórnum og þessháttar og síðast en ekki síst að hressa upp á tengingar við fólkið úr fortíðinni. Hinsvegar ekki nærri eins gott til að geyma myndir og minningar.
Í gær var haldið jólaboð í Norðurhlíð. Lagt var á borð í stofunni fyrir tuttugu og fjóra og sá tuttugasti og fimmti kom eftir vinnu og settist við leifarnar. Á efstu myndinni eru Fríða systir og Óli bróðir og Agnar eiginmaður + önnur, þriðja og fjórða kynslóð frá okkur.
Við þetta borð eru stjúpsonur minn með konu sinni, dóttur, systursyni og hans dóttur.
Þetta er svo afgangurinn: Mamma, tveir synir mínir, tvær tengdadætur, þrjú barnabörn mín og ein systurdóttir. Sá tuttugasti og fimmti var svo elsti ömmustrákurinn minn.
Ef þú vilt gera Jóhann Smára kátan skaltu spila við hann.
Svo kom að eftirréttinum, hinn ómissandi heimatilbúni ís með ávöxtum og rjóma að ógleymdu piparkökuhúsinu sem Fríða kom með.
Fjögurra ára skottur, Sigrún og Hildur telja sig sennilega vera að spila Master mind.
Næstum því sex ára nafna mín nagar piparkökuþakskífu af innlifun með ísinn í hinni hendinni.
Svo var spilað hið klassíska púkk í lokin. Velgengnin skín úr andliti Jóhanns þarna.
Mikið vildi ég óska að ég hefði álpast til að taka upp myndavélina þegar Ada Sóley tók lagið hástöfum með hárbursta fyrir hljóðnema.
mánudagur, 30. júní 2014
115. Maífærsla.
Á vorin er ungviðið úti um allt. Sauðburður gekk alveg prýðilega þetta vorið. Eins gott því að mér finnst eins og við séum eitthvað að eldast, hvernig sem á því stendur. Ég brá mér líka suður í afmæli og veiddi þar í leiðinni öndvegis sauðburðarhjálp sem var hér nokkra daga og allt saman bjargaðist þetta ágætlega.
Rauðhetta var með þeim fyrstu og þarna er hún komin út í vorið með þrílembingana sína.
5. maí báru mæðgurnar Kræða og Rut og voru báðar fjórlembdar. Hér er Kræða með hvítan hrút og þrjár svartar gimbrar. Og kippir sér ekkert upp við að hafa eignast á einum degi 4 börn og 4 barnabörn.
Hér er forystugimbrin úti að leika sér og það kemur ykkur kannski ekki á óvart að hún heitir Fluga.
Ég fékk Ívan með mér upp í skóg og fékk hann til að príla upp í tröppu með myndavél til að mynda hrúgur mér sýndust geta verið hreiður hátt upp í trjám.
Hér reyndust vera egg sem breitt er vandlega yfir. Þau eru ofursmá.
Í öðru tré var þetta þrastahreiður. Þar er ekkert verið að pjattast með sængur og kodda.
Það var mikil Maríuerluumferð í hesthúsinu á sauðburðinum en mér tókst aldrei að finna hreiðrið. Ungarnir eru nú talsvert fullorðinslegir svo að einhvers staðar hafa þeir búið. Þegar ég var að leita ofan við fjárhúsið tók ég eftir umferð hjá gömlu dráttarvélinni sem Agnar notaði alltaf með fárra daga millibili til að færa til rúllur.
Þar var þetta framan við vatnskassann. Eins gott að vélin var aldrei í gangi neitt lengi í einu.
Orðið ansi þröngt enda voru þeir farnir út í heim mjög skömmu síðar.
Nú er líklega rétt að fara að skreppa út og gera eitthvað af viti, það er verið að tala um veðurbreytingu en veðrið er búið að vera frábært í allt vor og það sem af er sumri, oft yfir tuttugu stig og það stundum í sólarlausu. Mér fannst ekki mikill húmor í því að vera að gera vorhreingerningar í skólanum við þær aðstæður.
Hver veit nema það komi júnífærsla í réttum mánuði? Það fer víst hver að verða síðastur með það.
114. Eldsmíði
Það er óhjákvæmilegt að setja hér aðra aprílfærslu. Ég nefnilega fór inn á alveg nýtt svið.
Jakob setti hér upp eldsmiðju hjá hænunum í fjóshlöðunni. Með dyggri aðstoð undirritaðrar.
Þegar ég var svo búin að horfa á hann um stund varð ég að fá að prófa.
Og þetta er æði!
Ég er að smíða mér stóra nál til að nota við hrosshársvef.
Ég er komin svona langt,
Efnið er tindur úr heygaffli og þarna er annar ósnertur til samanburðar.
Ég er komin svona langt,
Efnið er tindur úr heygaffli og þarna er annar ósnertur til samanburðar.
Ég ætla ekkert að tala um hvenær ég verði búin að þessu enda skiptir það ekki meiginmáli sko.
Fleiri spreyttu sig.
113. Apríl
Það er ekki mikið gagn í dagbókarbloggi sem enginn nennir að skrá. Nú er best að setja inn þó ekki væri nema eina aprílfærslu þó að seint sé.
Aðalmálið í apríl var náttúrulega ferming.
Fermingarstrákurinn minn var flottur og fínn og mjög ánægður með daginn. Hann á þessar tvær öndvegissystur.
Hér er mitt tillag í herlegheitin, algerlega að óskum fermingarbarnsins. Ég mætti á svæðið með eina kransaköku sem ég lagði ekki í að baka sjálf en nú veit ég að það get ég alveg. Ég fékk hringina í bakaríinu á Húsavík og setti saman og efst trónir postulínsbangsi sem ég fann á nytjamarkaði á Húsavík. Ég er ekki sérlega hrifin af stöðluðum plaststyttum en ein slík kom á svæðið og langaði að vera með. Ég hafnaði því að leyfa henni að vera á kökunni en sagði sjálfsagt að lofa henni að príla upp á einhverja hinna þriggja rice crispies turna sem ég bjó til. Það hentaði víst ekki svo að greyið var settur á marengstertuna en ég kom líka með 4 slíkar. Ég hélt þó kannski að þar væri jarðvegurinn heldur gljúpur en hann var bara látinn vaða. Í orðsins fyllstu merkingu. Gaurinn sökk óðara upp í klof.
Fullt af tilhöfðu fólki og fullt af myndavélum. Hér er minn frábæri hópur og þarna var þeim uppálagt að sprella.
Fermingarstrákurinn snertir ekki jörðu og Sigrún hristir hausinn úr fókus.
Svo var mér uppálagt að leggjast fyrir framan liðið og hlýddi auðvitað umsvifalaust eins og ég er vön.
Ég ætla ekki að gera það aftur svona klædd. Það er ómögulegt að láta fara sæmilega um sig því ég var látin sníða handveginn á peysufatapeysunni svo bjánalega á námskeiðinu um árið.
Svo gleymdi ég auðvitað að taka gleraugun af mér en það er nú ekkert nýtt.
þriðjudagur, 25. mars 2014
112. Boð
Ég bjó til boðskort um daginn.
Nú er verið að basla við að finna út svona um það bil hversu margir verða með okkur og samt setti ég svona kurteislega beiðni þarna með gula letrinu. Þetta skiptir auðvitað talsverðu máli í veitingavangaveltum.
Ég þarf að finna mér nokkrar plötur undir marengstertur.
Og ýmislegt fleira.
Þetta kemur allt með kalda vatninu.
Er það ekki?
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)