mánudagur, 17. september 2012

76. Daginn áður

Já, eins og fram kemur í færslunni hér á undan er alveg grundvallaratriði að eiga margar margar kleinur um réttirnar. Reyndar er ekki alltaf dekrað þannig við fólk þegar það kemur til byggða með safnið en flest er nú öðru vísi í sambandi við göngur og réttir hér þetta árið. Héðan fóru semsagt í býtið á laugardagsmorgun búfræðingur, fjölmiðlafræðingur, byggingafræðingur, sálfræðingur og læknir til að taka þátt í koma fénu til réttar. Á hvunndagsmáli voru þetta maðurinn minn, tengdadóttir, sonur, systir og hlaupafélagi hennar. Agnar ók þeim uppeftir og aðstoðaði á meðan verið var að leggja af stað með reksturinn og kom síðan akandi heim aftur. Ég hélt mig heima með ömmustrák og hófst fljótlega handa við kleinugerð í stórum stíl.
 Reynslan hefur kennt mér að skynsamlegast er að hafa réttakleinurnar litlar og nettar enda er stór hluti okkar réttagesta ungur að árum.
 Þetta urðu líklega einir fjórir svona baukar af stærstu gerð.
 Við afi og Jóhann Smári fórum til móts við hersinguna með kakó, kaffi, smurt brauð og kleinur handa sjálfboðaliðunum okkar upp úr hádeginu. Því miður virðist ég ekki hafa álpast til að taka almennilega mynd af okkar fólki en þarna eru þessi þrjú úr fjölskyldunni í vestunum.
 Agnar tók mynd af forystusauðnum sínum honum Demanti en hann mun heldur betur hafa lagt sitt af mörkum við smölunina í vikunni. Menn sögðu Agnari að þegar þeir voru að tína saman kindur sem illa gekk að koma áfram gripu þeir sauðinn úr kerru og hann leiddi svo hópinn eins og ekkert væri.
Hér hann með litla bróður sínum en mamma þeirra hefur ekki skilað sér ennþá því miður. Hún gæti þó alveg átt eftir að koma en það er óneitanlega tortryggilegt að forystuær fylgi ekki lambinu sínu heim.

Uppfært: Forystuærin er komin heim!! Þær voru samferða tvær forystuær og  brunuðu til byggða á eigin spýtur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli