þriðjudagur, 20. desember 2011

33. Bókahillur

Best að myndasegja hér um bókahilluframkvæmdirnar um daginn. 
Fyrst ætla ég að setja hér myndina sem þeir fóru með á bókamessuna í Frankfurt á dögunum ásamt mörg hundruð eða þúsundum annarra. Ég sá meir að segja hillunum mínum bregða fyrir í einni sjónvarpsfréttinni að utan.
Þarna er nokkuð ljóst að það þarf að endurskipuleggja og bæta við hillum. Það er einboðið að gera slíkt þegar verið er að mála.
 Fyrst lá fyrir að losa efstu og nyrstu hilluna á aðalbókaveggnum, en hún var að sligast undan þunganum, og venda henni eins og gert var við flíkurnar í gamla daga þegar þær voru farnar að slitna. Setja svo vinkil undir hana miðja vegu. Hún fer að vísu ekki að snerta vinkilinn nærri strax þar sem hún er enn ekki alveg búin að rétta úr sér en það kemur að því eitthvert árið.
 Já og mála. Ég málaði ekki áðurnefndan aðalbókahilluvegg, það hefði verið alger klikkun, lét duga að þrífa þar. Geri slíkt ekki tiltakanlega oft.
 Svo ákvað ég að vera ekkert að setja þarna upp aftur gömlu rauðu hilluna sem hefur verið þar nokkur ár, ég nefnilega reiknaði út að ef ég smíðaði þarna hillu úr frekar þunnu efni ætti að nást að hafa hana þriggja hæða og það munar um allt. Við Ingimundur söguðum niður gamla plötu og ég settist á klósettið og málaði. Það hef ég ekki gert fyrr. Að vísu var klósettið lokað og ég fullklædd en samt.. Þetta var lang hentugasti staðurinn fyrir hillurnar til að þorna. Ég skildi ekki alveg hvað væri að mér þegar ég fór svo að skrúfa saman og máta. Stundum passaði og stundum ekki. Með sömu mælingu.
 Loks áttaði ég mig á að gólfið hallaðist svo mikið þarna undir að það munaði 12 millimetrum á milli enda. Það táknaði að við annan hilluendann var pláss fyrir þrjár kiljuhæðir en ekki við hinn endann. Dööö. Auk þess hækkuðu útgefendur kiljurnar um einhverja millimetra fyrir nokkrum árum. Bara til að skemma fyrir mér held ég.
 Ég beitti ýmsum ráðum til að rýmka fyrir hillunni um örfáa millimetra. Og svo áttaði ég mig á að líka er allt í lagi að kiljur liggi á hliðinni stundum.
Hér er ég búin að endurskipuleggja, ryksuga og raða upp á nýtt öllum bókunum. Nóg pláss í nokkur ár í viðbót. Nei, ég veit að ég er ekki búin að taka til á skrifborðinu en þó er farið mest af verkfærunum held ég.

3 ummæli:

  1. Hérna - úr hverju nákvæmlega eru þessar hillur? Og er mikið mál á gera svona? Mig vantar nefnilega alveg hrikalega hillur...

    SvaraEyða
  2. Viðbótarhillan sem ég gerði núna er bara úr spónaplötu svona vegna þess að ég átti hana til í drasli. Upphaflega eru bókahillurnar á veggnum þannig til komnar að ég raðaði saman í horn tveimur rúmfatalagers hillueiningum sem ég hafði í barnaherbergjum á meðan ég átti börn (löngu rígfullorðnir núna)og bætti í þær 2 hillum. Ég tók svo í sundur gamalt krakkaskrifborð úr sömu búð og endurraðaði pörtunum til að pláss yrði fyrir tölvuna og keypti svo útmældar spónlagðar hilluspýtur sem eru bara passlega breiðar fyrir bækur. Bókahillur eiga ekkert að vera of djúpar, það er bara ávísun á ryk og leiðindi og hentar alls ekki fyrir fólk sem ekki nennir að þurrka af. Ég raðaði svo öllu saman á vegginn þannig að allt pláss nýttist sem best. Notaði slatta af skrúfum og vinklum. Já og hallamál :) Þessi veggur er sem sé fullnýttur, líka ofan við dyrnar, og auk þess næsti veggur að glugga. Handverkskona eins og þú ert örugglega ekkert í vandræðum með að gera svipað nema þú teljir þér trú um að þú getir það ekki. Muna bara að setja vinkla undir ef bilin eru löng, bækur síga í.

    SvaraEyða
  3. Takk fyrir!
    Ég tel mér alveg trú um að ég geti það! Ég er mest að spá í hvar ég eigi að ná í efnið.

    SvaraEyða