sunnudagur, 18. mars 2012

50. Í gegn um tíðina.

Í færslu 45 var ég að tala um búninga. Síðan eru margar vinnustundir, leiðangrar um markaði og Kolaport og mikill árangur. Búið að klæða 32 leikara sem 52 persónur sem sumar hverjar þurfa margsinnis að skipta um föt auk þess sem flestir nota svartan grunnbúning af og til. Fólk í grunnbúningi er til dæmis brúsapallur, heysáta, réttarveggur eða syngjandi og dansandi bakraddir. Grunnbúningur getur verið eftir atvikum allskonar buxur, pils, kjólar, skór, bolir eða peysur, bara að allt sé svart nema höfuð og hendur leikarans. Mér telst svo til að við notum um það bil 326 flíkur, 67 pör af skófatnaði og slatta af beltum. Þá tel ég ekki þau nærföt og sokka sem flestir útvega sér sjálfir. Ég er ekki komin með mikið af myndum þar sem þetta fólk er flest eins og flær á skinni og skiptir oft um föt á ólíklegustu stöðum í miklum flýti. Ég er þó að vinna í að ná helstu hópum og sýni ykkur kannski eitthvað af því.
Mesta vinnan er í diskógellunum.
Þetta eru Gibbsystur ættaðar frá sauðfjárbúinu Litlum hestum í Múlasýslu og ég hugsaði mér að mamma þeirra hefði sett saman búningana úr því sem hún kom höndum yfir svo að ég gerði bara nákvæmlega það. 
 Ferillinn var einhvern veginn svona: Við tíndum til allskonar glitrandi og æpandi flíkur og efni og svo boðaði ég þær til mín og við púsluðum og mátuðum.
 Við fundum þykkbotna háælaða skó handa öllum.
 Tveir glitrandi pallíettuhólkar (takk Drífa)
 Tveir eldgamlir kjólar og allskonar bútar og sneplar.
 Og svo var að klippa og skeyta saman. Ég var búin að gúggla talsvert og niðurstaðan var sú að "alvöru" diskóföt voru oft með einskonar hringsniðnum "pilsum" neðan við olnboga og hné ef svo mætti segja.
 Tók neðan af kjólunum og gerði úr því fleyga. Saumaði svo á þá ermar.
 Allra handa glitrandi bútar urðu líka að fleygum.
 Raðaði á sófann til að gera mér grein fyrir samhenginu.
Það hefði nú verið ljómandi gott ef þetta hefði svo bara verið búið þegar ég var búin að sauma allt saman en nei nei. Helv... djö... bláa glansandi efnið er svoddan rusl að ég þarf að hafa það í gjörgæslu. Ég saumaði það við svart jersey og það trosnar eins og fífl hversu mikið sem ég vanda fráganginn. Það tollir ekki einu sinni á þessu flíselín. Þær eru nú samt flottar stelpurnar og þetta svínvirkar.

mánudagur, 12. mars 2012

49. Nýja (gamla) nafnið

Það er búið að vera svo óskaplega mikið um að vera undanfarið að maður veit bara tæpast í þennan heim eða annan og ekkert færi gefst til að blogga um allt þetta frábæra í tilverunni. Það er samt útilokað að blogga ekki um þetta um það bil strax:
 Hún systir mín var svo góð að lána okkur húsið sitt fyrir skírn í gær og það var afskaplega ánægjuleg stund. Ekki spillti nafnið: Elín Rut heitir stúlkan!
 Ég á þessar tvær ömmustelpur og þær bera báðar nafnið mitt. Lái mér svo bara hver sem vill þó að eg hafi klökknað. 
 Hér er allur hópurinn minn, aldrei auðvelt að taka mynd af hópi sprækra barna, þarna eru allir fínir nema kannski helst amman en það skiptir nú minnstu.
 Ljómandi góð mynd af mömmu með fertugasta afkomandann.
Brosandi mæðgur. 
Yndislegt allt saman.
Næst hlýtur að koma leikhúsblogg.

mánudagur, 5. mars 2012

48. Ömmuljósið

Um þessar mundir fer mestallur minn vökutími í menningarmálin. Leikhúsgeirann nánar tiltekið. Nánar um það síðar en það breytir ekki því að þessi unga stúlka er mér efst í huga alla daga.
 Hér erum við að ky(i?)nnast.
 Hitt erindið mitt suður var jú að láta rannsakast. Til þess varð ég meðal annars að þola það að ganga með 45 sentimetra af mjórri plastslöngu innvortis í tæpan sólarhring. Það er svona ykkur að segja andstyggilegt og ekki amalegt að eiga þá kost á einhverju góðu til að dreifa huganum. Gamall föðurbróðir barnsins er að athuga hvernig henni fer að vera svona brúnaþung. Hann er óttalegur bjáni stundum greyið.
 Amma fékk að vera viðstödd ýmsa merkisviðburði: Fyrsta baðið...
 ..þegar mömmu og pabba var líka kennt að gefa mér svo ljómandi gott nudd
 og ég brá mér í höfuðbeina og spjaldhryggs meðferð. Svipurinn bendir til þess að verið sé að velta fyrir sér hvort þetta fólk sé alveg í lagi? Málið er að ljúfan mín hefur þurft að þola svæsna ungbarnakveisu og verið var að leita allra leiða til að létta henni lífið.
Alveg slök eftir góða máltíð í fangi mömmu sem heldur að það væri allt í lagi að ropa dálítið. Og já, púðinn prinsessumerktur í bak og fyrir. (Hann er fenginn að láni.)
 Ömmu er umhugað um að stúlkan fái bestu menntun sem völ er á og hér dönsum við jenka. Amma syngur um Fríðu litlu lipurtá og hreyfir fætur barnsins eins og vera ber. Nemandinn steinsofnaði reyndar á meðan en það er bara betra. Hún er ákveðin í að vera dansfífl eins og amma þegar hún er orðin ofurlítið stærri. Ég hef beðið í ofvæni eftir að fá sent myndband sem tekið var af kennslunni en gémeilið vill ekki færa mér það. :(
Amma er líka að springa af stolti yfir honum pabba mínum því honum gengur svo glimrandi vel í skólanum. Það er þó ekkert skrýtið þar sem hann hefur svo ljómandi góðan leiðbeinanda eins og hér sést. Við verðum samt að taka okkur á þar sem síðasta einkunn var ekki nema 9,9 sem er ögn lakara en flestar einkunnir hafa verið.

þriðjudagur, 21. febrúar 2012

47. Engin traffík

Haft var samband við mig (algengt orðasamband) um miðjan desember og ég spurð hvort ég væri til í að leika svolítið í stuttmynd sem skyldi vera útskriftarverkefni frá Kvikmyndaskólanum. Ég er ekki vön að draga lappirnar þegar um er að ræða skemmtileg tilboð svo að ég var einn dag á Kópaskeri í byrjun janúar og lék þar Magneu gistiheimiliseiganda. Hér er ég eitthvað að ræða við tökumanninn í senu þar sem Magnea situr með kleinur og kaffibolla að leggja kapal.
 Þetta var bráðskemmtileg reynsla innan um stóran hóp krakka á aldur við syni mína og yngri. Hápunktur dagsins var líklega þegar stúlka sem hélt um alla þræði og sá til þess allir væru á réttum stað á réttum tíma sagði að næst væru stelpurnar og leikkonan!!!! Þar var hún að tala um tvær stúlkur sem hafa lært leiklist og svo áhugaleikarann mig. Þetta kætti mig mjög. Einu sinni endur fyrir löngu var ég einn dag á Hjalteyri statisti í Í skugga hrafnsins svo að ég hef aðeins kíkt áður á bak við kvikmyndavélina. Eins og flestir vita fer mestur tíminn í kvikmyndaleik í að bíða. Ég fór að heiman klukkan hálfníu að morgni og kom heim um hálfellefu um kvöldið. Ég var í þrem eða fjórum stuttum senum auk þess sem ég stóð úti í glugga í um það bil óratíma. Þess á milli var spjallað og borðað og fylgst með því sem hinir voru að gera. Hér er fólk sem sá um framkvæmdina, leik, búninga og leikmynd, tæknimál einhvers konar og förðun.
 Þetta eru útskriftarnemarnir Atli tökumaður og Ottó leikstjóri en það var hann sem hafði samband við mig. Við lékum saman í Landsmótinu á Breiðumýri um árið. Hann er trúlega frægastur fyrir Sleifaratriðið
 Andlit á glugga, úú.
Nú er ég búin að vera í höfuðborginni í heila viku, kom heim í gær og þegar ég opnaði tölvuna var nýlega kominn þar inn póstur þar sem þetta stóð:
 Myndin verður sýnd núna á miðvikudaginn 22 feb í Bíó Paradís.
Hún er 20 min og 5 sek á lengd.
ÆÆÆ, ekki væri nú leiðinlegt að eiga kost á að vera við frumsýningu myndar þar sem nafnið manns er á plakatinu! Það er sem sagt efsta myndin í þessari færslu. En jæja, ekki þýðir að fást um það, ég býst við að myndin verði sýnd á Kópaskeri einhvern tíma og þá er líklegt að ég skreppi.
Í næstu færslu kemur eitthvað gott úr höfuðborginni.
Uppfært:
Eftir að hafa leitað á síðu Paradísarbíósins aflaði ég mér nánari upplýsinga og frétti að klukkan 8 á miðvikudagskvöld og fimmtudagskvöld verða sýndar útskriftarmyndirnar og þar sem þessi mynd er útskriftarverkefni tveggja nemenda er hún sýnd bæði kvöldin. Öllum heimill ókeypis aðgangur þannig að það gæti orðið þröngt og ekki vitað hvar í röðinni þessi mynd er. Mig langar í bíó en mér er þó nokkur huggun í að ekki verður neinn rauður dregill svo að ég missi ekki af honum :).
Sjá hér: http://www.kvikmyndaskoli.is/news/detail/item18593/Dagskra_syningarviku_Kvikmyndaskola_Islands/

mánudagur, 13. febrúar 2012

46. Blótin búin

Nú er lokið þorrablótsvertíðinni af minni hálfu þetta árið. Óvænt varð að skera niður þar um 33,3 % vegna heilsubrests eiginmannsins þannig að við fórum bara á tvö en það má lifa lengi á þeim. Ég hef ekki keypt eða saumað nýja flík nýlega svo að ég notaði bara þægilegan útsölusamtíning en ég kryddaði hann með þessu:
og þessu:
Þannig var að í nokkur ár hef ég ætlað að þræða upp margföldu festina sem ég keypti á skranmarkaði í Ameríkunni um árið af því að hún lék það ítrekað að slitna. Loksins þegar Marta sat við borðstofuborðið einhvern tíma í janúar og framleiddi eyrnalokka lét ég verða af því eftir að hafa lengi leitað að rétta bauknum með festinni og öðru því sem til þurfti. Galli að baukarnir skuli vera ógegnsæir. Settist á móti henni og gerði þetta:
Það tók óratíma en ég er sátt við árangurinn. Fyrst ég var byrjuð á annað borð gerði ég næst kryddið á efstu myndinni og hófst handa með afar óljósar hugmyndir sem auðvitað voru ekkert í líkingu við árangurinn. Mjög gott að hafa gínu til að átta sig á hvernig festin gæti litið út. Þegar ég var búin að tína saman allt sem ég átti rautt og svart sá ég að mig vantaði meira af rauðu svo að Marta lét mig hafa rauða pólska kóralla og það munaði öllu. Úr því ég var nú þarna með allt við hendina lagaði ég líka aðra gamla einfalda festi sem er í góðum lit en það var meira bras þar sem hún er þannig úr garði gerð að kúlurnar eru steyptar á þráðinn þannig að ekki er hægt að þræða neitt í gegn um þær.
Nú virðist vera til siðs að vera með töluverðar flækjur um hálsinn en ekki bara einfalda spotta, ég hef sem sagt eitthvað af slíku að grípa til þegar á þarf að halda.
Rétt að halda áfram að pakka niður. Fer í dag í heilsufars og fjölskylduleiðangur suður á land. Frábært að veðurútlit er bara prýðilegt miðað við árstíma.

laugardagur, 11. febrúar 2012

45. Fötin skapa manninn.

Það sem tekur hug minn allan um þessar mundir (eins og svo oft um þetta leiti árs) eru föt. Föt sem almenningur klæddist á 6. 7. og 8. áratug síðustu aldar. Rokk, bítla, hippa, rauðsokku og diskó tímanum. Svo þarf slatta á bændur og búalið sem lét ekki tískuna slá sig út af laginu en samt má sjá tímann líða þar líka. Við erum að æfa frumsamið verk sem hverfist í kring um þekkt dægurlög frá þessu tímabili og þar af leiðir að um er að ræða margar stuttar senur með ólíkum hópum og mér telst til að búningar verði um það bil 100 plús - mínus. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að leggja út í mikil smáatriði og saumaskap en mikilvægt þó að koma réttum skilaboðum til áhorfenda. Leikarar eru yfir 30 og allir verða í svörtum grunnbúningi þegar þeir eru ekki í tilteknum hlutverkum. Þarna fáið þið loksins að kynnast fólki sem farið hefur huldu höfði hingað til þó að það hafi verið á allra vörum, eins og til dæmis Bjössa á mjólkurbílnum og Gísla í Gröf ásamt kaupakonu. Þið fáið líka smjörþefinn af síldarævintýrinu, ástandinu og öllu hinu sem setti svip á þjóðlífið. Ég er konan hans Gísla í Gröf og fylgst er með mínu fólki í gegn um skin og skúrir.
Hér má sjá hvernig umhorfs hefur verið í salnum undanfarið. Haugar af buxum, skyrtum, bolum, kjólum, pilsum, blússum, mussum og svo framvegis. Svarta deildin í forgrunni. Gleymum ekki skónum sem eru í röðum sem eru tugir metra að lengd.  Ég hef náð afar góðum árangri á fatamarkaði Rauða krossins á Akureyri, í fataskápum vina og víðar en nokkuð vantar þó enn. Grátlegast hversu erfitt er að ná í hvunndagsföt vinnandi fólks. Slík föt einfaldlega voru kláruð og í búningageymslum áhugaleikfélaga eru helst aflögð spariföt. Ef þú lesandi góður getur lánað okkur GAMLA GALLAJAKKA SEM ALGENGIR VORU SEM YFIRHAFNIR BÆNDA Í ÚTIVERKUNUM fyrir tíma samfestinganna þá væri það frábært. Mig sárlangar í þó ekki væri nema einn eða tvo. Gjarnan líka stórar gallabuxur og vinnuskyrtur af eldri gerðum. Gemsinn minn: 864-2573. 
Þetta er fyrsta færslan á þessu bloggi sem merkt er leikhúsi. Mig grunar að þetta sé ekki sú síðasta.

miðvikudagur, 1. febrúar 2012

44. Sól rís...

Hér á bæ búum við við sólarleysi allmargar vikur á hverjum vetri og ég hef haft fyrir sið að láta vita hérna þegar sólin sýnir sig hér innanhúss í fyrsta sinn ár hvert.
Árið 2012 skein sólin inn í stofu í gær, 31. janúar og það gladdi mig mjög.
Þarna eru skin og skuggar á stofuveggnum til sannindamerkis.
Ekki kættist ég minna áðan þegar hringt var frá Landsspítalanum til að boða mig í rannsókn vegna raddvandamála minna en tilvísunin var send snemma í desember árið 2010. Já góðir hálsar, 14 mánuðir takk! Ég nenni ekki á ergja mig á því núna að rekja ferilinn en tafir hafa orðið meðal annars vegna tækjabilunar og svo var keypt nýtt tæki og það þurfti að mennta fólk fyrir það og spítalinn var lagður niður og ekki var pláss á nýja staðnum og möppur fundust ekki og.....og. En sumsé; ég stefni suður um miðjan mánuðinn og þá verður framin rækileg "ungbarnsskoðun" Bíddu bara litla skotta mín. Að sjálfsögðu heilsa ég þá líka upp á stóru skottuna mína og fleira gott fólk. Best að fara að skrifa tossalista.