miðvikudagur, 1. febrúar 2012

44. Sól rís...

Hér á bæ búum við við sólarleysi allmargar vikur á hverjum vetri og ég hef haft fyrir sið að láta vita hérna þegar sólin sýnir sig hér innanhúss í fyrsta sinn ár hvert.
Árið 2012 skein sólin inn í stofu í gær, 31. janúar og það gladdi mig mjög.
Þarna eru skin og skuggar á stofuveggnum til sannindamerkis.
Ekki kættist ég minna áðan þegar hringt var frá Landsspítalanum til að boða mig í rannsókn vegna raddvandamála minna en tilvísunin var send snemma í desember árið 2010. Já góðir hálsar, 14 mánuðir takk! Ég nenni ekki á ergja mig á því núna að rekja ferilinn en tafir hafa orðið meðal annars vegna tækjabilunar og svo var keypt nýtt tæki og það þurfti að mennta fólk fyrir það og spítalinn var lagður niður og ekki var pláss á nýja staðnum og möppur fundust ekki og.....og. En sumsé; ég stefni suður um miðjan mánuðinn og þá verður framin rækileg "ungbarnsskoðun" Bíddu bara litla skotta mín. Að sjálfsögðu heilsa ég þá líka upp á stóru skottuna mína og fleira gott fólk. Best að fara að skrifa tossalista.

4 ummæli:

 1. Mikið er ég fegin að þú kemst loks að á niðurlögðum pláss- og möppulausum spítala. Vonandi finnst þar svar við vandamálinu. Svo er þetta náttúrulega rakið tækifæri til að heimsækja skottur ;-)

  Einn brandari úr Njálutíma, bara fyrir þig þar sem ég er hætt að blogga: "Ég skil bara ekki þessa mannlýsingu á syni Otkels... var hann alltaf að þykjast, eða...?"

  "Hvað meinarðu" spurði ég "hvernig er lýsingin'"

  "Það stendur hérna, hann var á ungum aldri og gervilegur...."

  Jahá! Í mínum villtustu draumum (sem eru nota bene ekki um Otkel) þá hefði mér ekki dottið í hug að misskilja þetta á þennan hátt. En - alltaf lærir maður eitthvað nýtt.

  Svafa

  SvaraEyða
 2. :) :) :) Þetta er ferleg sóun á frásögnum þínum að fela þær í athugasemdum á of lítið lesnu bloggi manneskja. En já, unga fólkið áttar síg á því að nú til dags er allt meira og minna fótósjoppað.

  SvaraEyða
 3. ætlarðu að búa til lista yfir tossana sem þú ætlar að hitta fyrir sunnan?

  Fríða

  SvaraEyða
 4. Ah, gaman að sjá sólarglætu frá skuggapleisum Íslands. Og gervilegur-sagan fer vonandi í muna-alltaf-að-segja-frá sarpinn, yndisleg saga:)

  SvaraEyða